Vertu memm

Viðtöl, örfréttir & frumraun

Lávarðadeildin í KM – Lárus: „meiri glans yfir því liðna en ungu, framsýnu og frábæru kokkarnir eru örugglega ekki á sama máli“

Birting:

þann

Lávarðadeildin í KM

Lávarðadeildin í KM

Íslenskir matreiðslumenn kunna sitt fag og félagar í Lávarðadeildinni svokölluðu gera sitt til þess að minnast gamalla og góðra tíma og halda matreiðslu frumherjanna á lofti. „Í þessum hópi eru ekkert nema snillingar, sem flestir lærðu réttu handtökin fyrir um 50 til 60 árum,“ segir Lárus Loftsson.

„Við erum að sjálfsögðu í Klúbbi matreiðslumeistara, KM, en Lávarðadeildin er á öðru og eldra sviði en nútíminn, talar annað tungumál, ef svo má segja.“

Þegar „lávarðarnir“ voru ungir var ekki í mörg hús að venda til þess að læra réttu handtökin. „Við erum flestir á aldrinum 75 til 80 ára og höfðum ekki úr mörgu að velja á sínum tíma,“ segir Lárus.

„Helstu staðirnir sem tóku nema voru Hótel Saga, Hótel Loftleiðir og Naustið.“

Um 20 manns eru í hópnum. Þeir fara í fræðsluferðir árlega og hittast í eftirmiðdagskaffi á veitingastaðnum LaugaÁsi einu sinni í mánuði, klæddir kokkatreyju, í svörtum buxum og svörtum skóm. Helsta umræðuefnið kemur ekki á óvart. „Við tölum um matreiðslu, hvað er að gerast í faginu og hvernig við fórum að í gamla daga,“ segir Lárus. Hann segir tækninni hafa fleygt svo fram að þessir eldri og reyndari standi hreinlega á gati.

„Í okkar hópi eru menn sem voru sérfræðingar í matseld á kolaeldavél, þurftu að hugsa fyrir öllu, en nú eru tækin orðin svo tæknileg að í sumum tilvikum nægir að ýta á takka og á svipstundu er dýrindismáltíð tilbúin! Við þurftum að búa allt til frá grunni, fengum skrokka í heilu lagi og skárum niður, en nú má fá steikurnar tilbúnar á pönnuna eða í ofninn.

Okkur gamlingjunum finnst að sjálfsögðu meiri glans yfir því liðna en ungu, framsýnu og frábæru kokkarnir eru örugglega ekki á sama máli.“

Brautryðjendur

Karl Finnbogason er æðstur og elstur lávarðanna, var lengi yfirmatreiðslumeistari á Hótel Loftleiðum. Stefán Bjarni Hjaltested var fyrsti yfirmatreiðslumeistari á Hótel Holti, byrjaði að bjóða upp á graflax og innleiddi Holtsvagninn svokallaða, sem fullur af mat var dreginn á milli borða.

Bragi Ingason var fyrsti yfirmatreiðslumeistari í Klúbbnum, þegar hann var upp á sitt besta, og síðar á Hótel Sögu auk annarra staða. Ib Wessman var yfirmatreiðslumeistari í Naustinu, þegar það fyrst veitingahúsa byrjaði að bjóða upp á þorramat og fyrsti forseti KM 1972. Og svo má lengi telja.

„Þessir menn og fleiri ruddu brautina, eru fyrirmyndir okkar sem á eftir komum,“ segir Lárus.

Hann leggur áherslu á að íslensk matargerð sé á pari við það besta sem gerist í heiminu en ekki megi gleyma brautryðjendunum, sem voru bestir á sínum tíma.

„Umræðan vill oft verða þannig að menn sjá bara sig og sína,“ segir hann og vísar í fótboltann, en hann var lengi þjálfari félagsliða og unglingalandsliða í fótboltanum.

„Oft er hávær umræða um hver sé bestur, en hún er yfirleitt ekki djúp, því hringurinn er svo þröngur að jafnvel menn á besta aldri og hvað þá eldri eru ekki nefndir á nafn.“

Fleiri fréttir af Lávarðadeild KM hér.

Mynd: Kokkafréttir KM

Powered by Issuu
Publish for Free

Smári er matreiðslumaður að mennt, en hann hefur starfað við fagið til fjölda ára, bæði sem starfsmaður og rekstraraðili. Hægt er að hafa samband við Smára á netfangið smari@veitingageirinn.is Skoða allar greinar höfundar hér >>

Podcast / Hlaðvarp

Auglýsingapláss

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið

Veitingageirinn.is - Allt um veitingageirann - Fréttavefur um mat og vín - Netfang: frettir@veitingageirinn.is
RSS - Molar