Viðtöl, örfréttir & frumraun
Lávarðadeildin í KM – Lárus: „meiri glans yfir því liðna en ungu, framsýnu og frábæru kokkarnir eru örugglega ekki á sama máli“
Íslenskir matreiðslumenn kunna sitt fag og félagar í Lávarðadeildinni svokölluðu gera sitt til þess að minnast gamalla og góðra tíma og halda matreiðslu frumherjanna á lofti. „Í þessum hópi eru ekkert nema snillingar, sem flestir lærðu réttu handtökin fyrir um 50 til 60 árum,“ segir Lárus Loftsson.
„Við erum að sjálfsögðu í Klúbbi matreiðslumeistara, KM, en Lávarðadeildin er á öðru og eldra sviði en nútíminn, talar annað tungumál, ef svo má segja.“
Þegar „lávarðarnir“ voru ungir var ekki í mörg hús að venda til þess að læra réttu handtökin. „Við erum flestir á aldrinum 75 til 80 ára og höfðum ekki úr mörgu að velja á sínum tíma,“ segir Lárus.
„Helstu staðirnir sem tóku nema voru Hótel Saga, Hótel Loftleiðir og Naustið.“
Um 20 manns eru í hópnum. Þeir fara í fræðsluferðir árlega og hittast í eftirmiðdagskaffi á veitingastaðnum LaugaÁsi einu sinni í mánuði, klæddir kokkatreyju, í svörtum buxum og svörtum skóm. Helsta umræðuefnið kemur ekki á óvart. „Við tölum um matreiðslu, hvað er að gerast í faginu og hvernig við fórum að í gamla daga,“ segir Lárus. Hann segir tækninni hafa fleygt svo fram að þessir eldri og reyndari standi hreinlega á gati.
„Í okkar hópi eru menn sem voru sérfræðingar í matseld á kolaeldavél, þurftu að hugsa fyrir öllu, en nú eru tækin orðin svo tæknileg að í sumum tilvikum nægir að ýta á takka og á svipstundu er dýrindismáltíð tilbúin! Við þurftum að búa allt til frá grunni, fengum skrokka í heilu lagi og skárum niður, en nú má fá steikurnar tilbúnar á pönnuna eða í ofninn.
Okkur gamlingjunum finnst að sjálfsögðu meiri glans yfir því liðna en ungu, framsýnu og frábæru kokkarnir eru örugglega ekki á sama máli.“
Brautryðjendur
Karl Finnbogason er æðstur og elstur lávarðanna, var lengi yfirmatreiðslumeistari á Hótel Loftleiðum. Stefán Bjarni Hjaltested var fyrsti yfirmatreiðslumeistari á Hótel Holti, byrjaði að bjóða upp á graflax og innleiddi Holtsvagninn svokallaða, sem fullur af mat var dreginn á milli borða.
Bragi Ingason var fyrsti yfirmatreiðslumeistari í Klúbbnum, þegar hann var upp á sitt besta, og síðar á Hótel Sögu auk annarra staða. Ib Wessman var yfirmatreiðslumeistari í Naustinu, þegar það fyrst veitingahúsa byrjaði að bjóða upp á þorramat og fyrsti forseti KM 1972. Og svo má lengi telja.
„Þessir menn og fleiri ruddu brautina, eru fyrirmyndir okkar sem á eftir komum,“ segir Lárus.
Hann leggur áherslu á að íslensk matargerð sé á pari við það besta sem gerist í heiminu en ekki megi gleyma brautryðjendunum, sem voru bestir á sínum tíma.
„Umræðan vill oft verða þannig að menn sjá bara sig og sína,“ segir hann og vísar í fótboltann, en hann var lengi þjálfari félagsliða og unglingalandsliða í fótboltanum.
„Oft er hávær umræða um hver sé bestur, en hún er yfirleitt ekki djúp, því hringurinn er svo þröngur að jafnvel menn á besta aldri og hvað þá eldri eru ekki nefndir á nafn.“
Fleiri fréttir af Lávarðadeild KM hér.
Mynd: Kokkafréttir KM
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun4 dagar síðan„Þetta er galið“ segir Gunnar Karl – Þriðja svindlsíðan komin í loftið
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel3 dagar síðanAlfreð, fyrrverandi landsliðskokkur, tekur við veitingarekstri á Urriðavelli
-
Kokkalandsliðið6 dagar síðanKM, Kokkalandsliðið og 3D Verk skrifa undir nýjan samstarfssamning
-
Markaðurinn6 dagar síðanPampero og hefðin á bak við eitt þekktasta romm Venesúela
-
Vín, drykkir og keppni6 dagar síðanÍslenskir barþjónar og barir tilnefndir í áttunda sinn til BCA-verðlauna
-
Markaðurinn3 dagar síðanLe Tribute – Hágæða drykkjarvörur koma á íslenskan markað
-
Markaðurinn6 dagar síðanStóreldhúslausnir á einum stað hjá Bako Verslunartækni
-
Markaðurinn3 dagar síðanKlassískar kjúklingabringur í rjómasósu sem slá í gegn






