Uncategorized
Kostir og ókostir í sölu á léttvínum
Umræðan um tilverurétt ÁTVR kemur reglulega upp á yfirborðið, í fjölmiðlum, samfélaginu og á Alþingi þar sem ófá frumvörp um niðurfellingu einokunar í verslun á bjór og léttvíni hafa verið borin upp en ekki náð í gegn. Rökin sem heyrast eru ýmist góð, furðuleg eða ekki-rök.
Vín er markaðsvara.
Rúmlega 78% af vínsölu ÁTVR er bjór, 18% er léttvín og styrkt vín og rúmlega 3% er sterkt áfengi. Þetta er staðreyndin þannig að þeir sem tala um að færa eingöngu bjór- og léttvínssölu í matvöruverslanir eru á villigötum. Verslun, sem myndi selja aðeins þessi 3% af áfengi sem er sterkara en 22%, myndi aldrei þrífast. Þá stöndum við frammi fyrir þessu: Eigum við að flytja allt vínið í matvöruverslanir eða ekkert?
Verð á áfengi hefur alltaf verið mjög hátt, ekki síst vegna áfengisgjalds sem er lagt á í þeim tilgangi að takmarka aðgengi að víni þannig að þeir sem flytja inn vín eða selja í smásölu hafa mjög lítið rými fyrir álagningu. Í smásölu er álagningin 13% eða 19% – og í heildsölu sjaldnast hærri en 20%. Þetta eru varla arðbær viðskipti nema í bjórnum þar sem magnafslættir og aðrar aðferðir gilda vegna samkeppninnar á milli tveggja stórra aðila. Það er líklegast á sviði bjórsins sem kaupmenn sjá von um hagnað. Vissulega munu þeir einnig selja vín … en velja þá væntanlega ódýrt og frekar ómerkilegt vín sem selt verður með vel yfir 20% álagningu. Þetta þýðir einfaldlega hærra verð fyrir minni gæði.
Og þekking starfsfólksins verður ekki nándar nærri eins víðtæk og góð og við eigum að venjast í vínbúðunum í dag.
Rök með og á móti sölu víns í matvöruverslunum
-
Í dag er vínflaskan seld á sama verði í Reykjavík og á Þórshöfn. Þar sem margir innflytjendur víns flytja ekki inn matvörur mun verðið úti á landi hækka vegna flutningsgjalds ef vínsalan færist yfir í matvöruverslanir. Landsbyggðin tapar.
-
Menn vilja geta keypt vínflösku og mat á sama stað, hvenær sem er sólarhringsins. En vínbúðirnar hafa svarað kalli markaðarins og eru opnar mun lengur en áður var. Flestar eru þær staðsettar í námunda við stórmarkaðina og þjónustustigið er mun hærra í þeim en hefðbundnum matvöruverslunum. Erlendis eru bæði stórmarkaðir og sérhæfðar vínbúðir lokaðar á kvöldin
-
Aftur á móti má reikna með því að um leið og einkaréttur ríkisins verður afnuminn muni spretta upp vínbúðir sem sérhæfa sig í betri og dýrari vínum. Það myndi líkast til auka bæði úrval og gæðin.
-
Rökin sem mæla með því að færa vín og bjór í matvöruverslanir eru fyrst og fremst þau að þá muni hagnaðurinn af sölunni renna í vasa kaupmanna í stað ríkiskassans. Hvort það telst gott eða slæmt verður hver að dæma fyrir sig.
Vínmenning í höndum ríkisins.
En það fylgja ákveðnir gallar því að ríkið ákveði hvað við megum og megum ekki drekka.
ÁTVR er eini löglegi söluaðili vína en verður á sama tíma að sjá til þess að sem minnst seljist af víni – til að vernda heilsu þegnanna. Kerfið sem ræður því hvaða vín eru á boðstólum í vínbúðunum á að tryggja jafnræði … en er í raun meingallað. Sölutölur eru allsráðandi. Þetta gerir það að verkum að ódýru vínin víkja fyrir kassavínum og dýrari vínin haldast ekki inni nema í eitt ár í senn. Sumir vínbirgjar freistast jafnvel til að kaupa eigin vín í vínbúðunum til að festa þau í sessi … en um leið gefa sölutölurnar kolranga mynd af vilja neytenda. Þetta hefur leitt til þess að meirihluti vínanna í Vínbúðunum eru ódýr vín frá Ástralíu … með ágætri álagningu.
Flestir fögnuðu því er ÁTVR fór að efna til þemadaga til að styrkja vínmenningu í landinu. Þessir þemadagar breyttust hinsvegar fljótt í hreina útsölu … með engan menningarlegan metnað þar sem aðrir en ÁTVR bera kostnaðinn. Einkaverslun gæti kannski haft hvort tveggja; annars vegar útsölu og hins vegar menningarátak.
Einnig vekur athygli að á undanförnum árum hefur sala á betri vínum að miklu leyti farið fram í Fríhöfninni, sem hefur löngum lagt mikla áherslu á að bjóða gott úrval af góðum vínum. Auk þess hefur það færst mjög í vöxt að fólk og fyrirtæki panti sitt vín í gegnum netið beint frá útlöndum. Og þá er spurningin þessi: Er einkaréttur ríkisins ekki nú þegar að fjara út?
Ég er þeirrar skoðunar að það eigi ekki að einkavæða vínsöluna … til þess eins að einkavæða. Ríkisreknu vínbúðirnar veita góða þjónustu … en mættu vera sveigjanlegri í sinni nálgun á markaðinum til að efla vínmenningu. — Og fyrst minnst er á menningu … að mínu mati er raunlækkun áfengisgjalds á léttvínunum það eina sem mun breyta verulega vínmenningunni hérlendis.
Dominique Plédel Jónsson
Eigandi Vínskólans
www.vinskolinn.is
Höfundur er eigandi Vínskólans og á aðild að FKA; Félagi kvenna í atvinnurekstri
-
Markaðurinn1 dagur síðan
Rótgróið bakarí / verslun og kaffihús til sölu eða leigu
-
Bocuse d´Or19 klukkustundir síðan
Frakkar sigruðu Bocuse d’Or 2025 – Sindri Guðbrandur í 8. sæti
-
Markaðurinn5 dagar síðan
Spennandi tækifæri
-
Bocuse d´Or22 klukkustundir síðan
Sjáðu keppnisrétti Sindra hér – Myndir
-
Bocuse d´Or1 dagur síðan
Sindri Guðbrandur hóf keppni í Bocuse d´Or í morgun – Bein útsending
-
Bocuse d´Or4 dagar síðan
Myndir: Það styttist í herlegheitin – Sindri keppir fyrir Íslands hönd 27. janúar í Bocuse d´Or
-
Bocuse d´Or3 dagar síðan
Sindri keppir í Bocuse d´Or
-
Keppni2 dagar síðan
Daníel Oddsson á Jungle hreppti Bláa Safírinn 2025 – Myndaveisla