Freisting
Kenndi börnunum æðruleysisbænina
Við mikilvægustu krossgötur lífsins standa sjaldnast vegvísar. Í slíkum sporum getur reynt á að hlusta, meðtaka og treysta áður en lengra er haldið. Að staldra örlítið við er oft eina leiðin til að halda áfram.
Sigurður Gíslason er Vestmannaeyingur og stoltur af uppruna sínum. Hann segist hafa verið alinn upp við afar mikilvægi gildi eins og hjálpsemi, vinnusemi og metnað og að líta á alla sem jafningja. Eins og með annað fólk hafi hann farið út í lífið með fastmótaðar og kassalaga hugmyndir um sjálfan sig, ímyndina sem hann vildi vera út á við. Ekkert mátti gerast til að breyta henni.
Hann var um tíma í landsliði matreiðslumeistara og hefur keppt fyrir Íslands hönd með góðum árangri víða um heim. Einnig hefur hann starfað á virtum veitingastöðum í Frakklandi, Bandaríkjunum og á Bahamaeyjum. Í dag er hann framkvæmdastjóri Veisluturnsins í hæstu byggingu landsins. Hann er hamingjusamlega giftur og afar stoltur af börnum sínum þremur.
Þegar Sigurður er spurður um stærsta afrek sitt segir hann það vera ákvörðunina um að segja skilið við Bakkus bróður fyrir nokkrum árum. Hamingjan tók kúvendingu eftir það. Hann var meira en til í að lýsa því betur því það er hans hjartans mál.
Fyrir þessa stóru ákvörðun var margt í lífinu sem gekk út á afneitun, réttlætingu og flótta. Allt til að halda í ímyndina sem sjálfsvirðingin hékk á. Alkahólismi hefur áhrif á alla þætti lífs manns og fyrir vikið er maður ekki frjáls.
Þegar litið er yfir farinn veg segir hann að það sé alveg merkilegt að í raun hafi oft rofað til og hann hafi séð tækifæri til þess að fara í meðferð en frestað því. Hann segir afar mikilvægt að grípa og halda fast í svona tækifæri því þau koma ekki að ástæðulausu og eru ekki sjálfgefin.
Að vera kominn á þann stað í dag að þurfa ekki að spá í hvað öðrum finnst, heldur treysta sjálfum sér til að njóta lífsins á eigin forsendum segir hann algjör forréttindi. Auðmýktin gefur svo mikið frelsi og þakklæti; hafa kjark í að gefast upp fyrir því sem verður ekki stjórnað og taka inn andlegan þroska í staðinn. Í það leggur hann allan sinn metnað í dag. Hann segist í því sambandi hafa kennt eldri börnum sínum æðruleysisbænina sem hann segir góðan grunn fyrir lífið. Þau nota hana t.a.m. þegar þau eru að rífast eða eru pirruð, með fínum árangri.
Spurður um hvort hann hafi ekki kviðið breyttu lífsmynsti, s.s. hvað kæmi í staðinn, segir hann að vissulega var hann smeykur um að finnast leiðinlegt í samkvæmum og fleira. Raunin varð bara öll önnur. Lífið varð ánægjulegra og lífsfyllingin fékkst úr tilverunni sjálfri og samverustundir urðu meira gefandi.
Gaman-staðallinn breyttist bara. Ég hélt t.d að það væri gaman að fara á djammið og hella sig mökk-ölvaðan, röfla eitthvað við vini sína sem enginn hvort sem er var að hlusta á og muna svo sjálfur eftir litlu daginn eftir. Helgi eftir helgi. Ég sagði sjálfum mér líka það að mínar bestu hugmyndir kæmu á nóttinni þegar ég sötraði rauðvín. Eða af því rauðvín er svo gott eða ískaldur bjór. Ekki fer ég út í búð í dag að kaupa mér kippu af kókómjólk og klára þær í einum rykk þegar ég hem heim, bara af því kókómjólk er góð! segir hann og hlær við.
Þegar umræður fara að snúast um íslenskt samfélag og efnahagshrunið segir Sigurður að hann hafi upplifað heilmikla stéttaskiptingu í góðærinu. Það varð einhver furðuleg siðgæðishnignun. Samskipti einkenndust víða af hugarfari sem einkennir líka alkóhólista: hroki, vanvirðing og tillitsleysi. Að gera ekkert fyrir aðra nema fá eitthvað í staðinn. Honum finnst hrunið hafa í raun ýtt mörgum aftur í stólinn og margir séu að hugsa sinn gang.
Hann skorar því á landa sína að tileinka sér þetta viðhorf:
,,Ef þú ert beðin/n um að gera eitthvað fyrir aðra, gerðu það með bros á vör, sama hvað það er lítilvægt. Þú færð það margfalt til baka á annan hátt en þig grunar.“
© Olga Björt Þórðardóttir
Greint frá á vefnum Pressan.is
-
Starfsmannavelta4 dagar síðan
Er Bryggjan hætt starfsemi?
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun12 klukkustundir síðan
Ný vefbók fyrir matvælakennslu og áhugafólk um matreiðslu – Þér er boðið í útgáfupartý
-
Markaðurinn2 dagar síðan
Koffmann er loksins fáanlegt á Íslandi
-
Markaðurinn5 dagar síðan
Wolt hefur sendingar á Stokkseyri og Eyrarbakka
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel2 dagar síðan
Matargestir ferðast aftur í tímann til villta vestursins – Myndir og vídeó
-
Vín, drykkir og keppni1 dagur síðan
Fyrsti viðburður ársins hjá Kampavínsfjelaginu – 6 rétta matseðill með kampavíns pörun
-
Keppni1 dagur síðan
Graham’s Blend Series Kokteil keppni 2025
-
Frétt2 dagar síðan
Óhæfar saxaðar döðlur til neyslu