Frétt
Íslenskur saltfiskur í fararbroddi á matarhátíð í Barcelona
Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra flutti ávarp við opnun matarhátíðarinnar Ruta de Bunyols de Bacallá (Á saltfiskbolluslóðum) í Barcelona nú í vikunni. Hátíðin fór fram samhliða Seafood Expo Global, stærstu sjávarútvegssýningu heims.
Alþjóðlega sjávarútvegs- og sjávarútvegstæknisýningin Seafood Expo og Seafood Processing Global fór fram dagana 25. – 27. apríl í Barcelona. Rúmlega 40 íslensk fyrirtæki voru með bása á sýningunni þetta árið. Sýningin er sú stærsta sinnar tegundar í heiminum og sækja hana um 30 þúsund manns frá u.þ.b. 150 löndum. Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra heimsótti sýninguna á opnunardaginn ásamt Unni Orradóttur Ramette, sendiherra Íslands á Spáni. Þær kynntu sér starfsemi sýnenda á svæðinu og áttu góðar samræður við fulltrúa íslensku fyrirtækjanna.
Ruta de Bunyols de Bacallá er samstarf markaðsverkefnisins Bacalao de Islandia, Gremi de Bacallaners de Cataluña (félag saltfisksölumanna í Katalóníu), Olis Bargalló (Katalónskur framleiðandi ólífuolíu) og Mercats de Barcelona (matarmarkaðir Barcelonaborgar). Á hátíðinni munu 25 veitingastaðir og 10 matarmarkaðir í Barcelona bjóða upp á sína útgáfu af Bunyols de bacallá (saltfiskbollur) úr íslenskum fiski frá 26. apríl til 12. maí.
Rétturinn er vinsæll skyndibiti víða í Katalóníu og þekkja hann allir Barcelonabúar, jafnt ungir sem aldnir. Þá verður einnig boðið upp á vinnustofur fyrir börn á matarmörkuðum þar sem þau geta lært að elda Bunyols de Bacallá, að sjálfsögðu úr íslenskum fiski.
Formleg opnun hátíðarinnar fór fram á hinum þekkta matarmarkaði La Boqueria í miðborg Barcelona og flutti Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra ávarp við það tækifæri fyrir blaðamenn og aðra gesti. Að opnun lokinni hélt ráðherra ásamt föruneyti til hádegisverðar á Mercat Ninot, þar sem fleiri þátttakendur í La Ruta de Bunyols de Bacallá er að finna. Nánari upplýsingar um Ruta de Bunyols de Bacallá má nágast á vef verkefnisins, larutadelsbunyols.cat.
Íslandsstofa skipuleggur þátttöku íslensku fyrirtækjanna á Seafood Expo Global ásamt því að reka markaðsverkefnið Bacalao de Islandia, sem starfrækt hefur verið frá því 2013.
Myndir: islandsstofa.is
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel1 dagur síðan
Iðunn Mathöll á Akureyri opnar í dag
-
Frétt4 dagar síðan
34 veitingastaðir birtu matseðil og annað kynningarefni bara á ensku
-
Markaðurinn2 dagar síðan
Wolt “wrapped” samantektin – Það sem Íslendingar pöntuðu á árinu 2024
-
Markaðurinn3 dagar síðan
Kalkúnaveisla með öllu tilheyrandi
-
Frétt10 klukkustundir síðan
Atvinnurekanda skylt að greiða matreiðslumanni 1,4 milljónir króna vegna vangreiddra launa
-
Markaðurinn4 dagar síðan
Uppskrift – Fylltar kjúklingabringur með eplum, Dala höfðingja og rósmarín-hlynsírópsgljáa
-
Frétt3 dagar síðan
Innköllun á sviðasultu frá Kjarnafæði
-
Markaðurinn3 dagar síðan
Fallegur og girnilegur jólakrans bar sigur úr býtum