Frétt
Ísland á Evrópumetið í áfengissköttum – Ísland hækkaði áfengisskatta langmest um áramótin
Ísland á eins og mörg undanfarin ár Evrópumetið í áfengissköttum, samkvæmt nýjum samanburði Spirits Europe, Evrópusamtaka áfengisframleiðenda, og eykur heldur forskot sitt á nágrannalöndin. Flest Evrópuríki héldu sköttum á áfengi óbreyttum um áramótin en af þeim tíu ríkjum sem breyttu sköttum hækkaði Ísland áfengisskatta langmest miðað við verðbólgu.
Eingöngu eitt Evrópuríki hækkaði áfengisskatta meira en Ísland. Það er Tyrkland, þar sem verðbólgan á síðasta ári var 64,3% miðað við samræmda vísitölu neysluverðs. Um þetta er fjallað á vef Félags atvinnurekenda.
Áfengisskattar hér á landi hækkuðu almennt um 7,7% um áramótin. Auk þess hækkaði áfengisskattur á áfengum drykkjum í fríhafnarverslunum um 169%. Af þessu leiðir að Ísland eykur enn forskot sitt á nágrannalöndin í fjárhæð áfengisskatta, sem yfirleitt eru föst fjárhæð sem leggst á hvern sentilítra hreins vínanda. Í samanburði Spirits Europe er notuð einingin evrur á hektólítra hreins vínanda.
Áfengisskatturinn á sterku áfengi á Íslandi er þannig u.þ.b. sexfaldur á við Danmörku, 2,5-faldur sænski skatturinn og hátt í fjórum sinnum hærri en í Bretlandi. Skatturinn á léttvín er rúmlega fimm sinnum hærri en í Danaveldi og skatturinn á bjór meira en áttfaldur.
Á móti kemur að virðisaukaskattur á áfengi er lægri á Íslandi en víðast hvar í Evrópu, eða 11%. Í öðrum Evrópuríkjum er algengt að hann sé í kringum 20%. Það breytir ekki því að eina tilvikið sem finna má um að samanlögð skattlagning á áfengum drykkjum sé meiri í evrópsku ríki en á Íslandi er skattur á bjór í Noregi. Áfengisskattar á aðrar tegundir áfengis í Noregi eru hins vegar langtum lægri en á Íslandi eins og sést á myndinni að ofan.
Samanburður Spirits Europe tekur til 36 Evrópuríkja. Langflest héldu þau áfengissköttum óbreyttum um áramótin þrátt fyrir að verðbólga hafi verið sögulega mikil í öllum löndum álfunnar árið 2022. Hækkanir á áfengissköttum á Íslandi voru réttlættar með vísan til verðbólgu. Tíu ríki breyttu áfengissköttum. Króatía lækkaði þá lítið eitt en önnur hækkuðu. Næstmesta hækkunin var á Íslandi eða 7,7%. Tyrkland hækkaði mest, um heil 22,3% en horfa verður til þess að þar í landi ríkir óðaverðbólga, var 64,3% á síðasta ári mæld með samræmdri vísitölu neysluverðs. Sú vísitala mælir með samræmdum hætti breytingar á verðlagi á Evrópska efnahagssvæðinu.
Verðbólga á Íslandi var á síðasta ári 7,2% samkvæmt samræmdu vísitölunni og var því hækkun áfengisskatta umfram verðbólgu, nánar tiltekið tæplega 107%. Þegar litið er til annarra landa sem hækkuðu áfengisskatta nam hækkunin í öllum tilvikum langtum lægra hlutfalli af verðbólgu ársins eins og sjá má á myndinni að ofan, sem sýnir breytingar á skatti á sterku áfengi sem hlutfall af verðbólgunni. Hækkanir á sköttum á öðrum áfengistegundum eru alla jafna svipaðar.
Stjórnvöld stuðla að verðhækkunum
„Með hækkunum sínum á áfengissköttum og öðrum krónutölusköttum stuðluðu stjórnvöld beinlínis að verðhækkunum í byrjun ársins,“ segir Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA. „Samanburðurinn sýnir enn og aftur að skattlagning á þessari neysluvöru er algjörlega út úr korti miðað við Evrópulönd, bæði sjálf upphæð skattsins og hækkun hans um áramótin. Stjórnvöld í öðrum Evrópuríkjum sem töldu nauðsynlegt að hækka áfengisskatta reyndu augljóslega að halda aftur af þeim hækkunum, ólíkt stjórnvöldum hér á landi. Skattlagning á þessari einu neysluvöru er komin út fyrir öll skynsamleg mörk og bitnar harkalega á neytendum, innlendri áfengisframleiðslu og á ferðaþjónustunni. Einhvern tímann hlýtur að þurfa að segja stopp í þessari skattpíningu.“
Myndir: atvinnurekendur.is
-
Markaðurinn3 dagar síðan
Girnilegt camembert jólatré með döðlu og pekan krönsi
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel3 dagar síðan
Mikil uppbygging framundan á Hofsstöðum – Veitingastaðurinn með eigin framleiðslu og hráefni úr heimabyggð
-
Markaðurinn3 dagar síðan
Ekta rjómaís með hvítu súkkulaði og piparkökum – Fullkominn á veisluborðið yfir hátíðarnar
-
Markaðurinn4 dagar síðan
Hátíðar opnun Hafsins
-
Frétt1 dagur síðan
34 veitingastaðir birtu matseðil og annað kynningarefni bara á ensku
-
Markaðurinn2 dagar síðan
Uppskrift – Fylltar kjúklingabringur með eplum, Dala höfðingja og rósmarín-hlynsírópsgljáa
-
Markaðurinn8 klukkustundir síðan
Wolt “wrapped” samantektin – Það sem Íslendingar pöntuðu á árinu 2024
-
Markaðurinn19 klukkustundir síðan
Kalkúnaveisla með öllu tilheyrandi