Pistlar
Hvernig stofnun Klúbbs Matreiðslumeistara bar að 1972
Kæru matreiðslumenn og konur.
Á sínum tíma árið áður en Klúbbur Matreiðslumeistara var stofnaður, kallaði Ib Wessman, sem var á þessum árum yfirmatreiðskumaður í Naustinu, saman nokkrum matreiðslumönnum til að ræða um að stofna einhvers konar samtök Matreiðslumeistara.
Ib hafði verið í stjórn hjá Félagi Matreiðslumanna sem er verkalýðsfélag og fundið þar 3 bréf um boð um að gerast meðlimir í Nordisk Kökenchef Federation, NKF. Stjórn Félags Matreiðslumanna hafði af einhverjum ástæðum engan áhuga á öðru en kaupum og kjörum, – hafði engan áhuga á framhaldsnámi fyrir kokka, keppnum eða að taka þátt í samnorrænu starfi sem var búið að vera í gangi í nokkuð mörg ár.
Ib vildi stofna samtök Matreiðslumeistara sem væri ekki í nokkurri samkeppni við Verkalýðsfélagið, en mundi snúast að öllu um fagleg mál matreiðslumanna, framhaldsnám, matreiðslukeppnir og norræn samskipti. Ib kallaði saman nokkra kokka og kynnti þessa hugmynd. Fundirnir voru haldnir á barnum sem var á annari hæð í Naustinu.
Ekki man ég nákvæmlega hverjir voru á þessum fyrstu fundum en minnir að þarna hafi verið Haukur Hjaltason, Stefán Hjaltested, Bragi Ingason, Birgir Pálsson og undirritaður. Okkur leist ágætlega á hugmyndina og smátt og smátt fjölgaði í hópnum. Ákveðið var að nefna hópinn „Klúbb Matreiðslumeistara“ og yrðu allir að vera með meistarabréf. Við sömdum lög fyrir klúbbinn. Ég bjó til merki klúbbsins og var það samþykkt.
Síðan var ákveðið að stofndagurinn yrði 16. febrúar 1972. Stofnfundur var haldinn og kosin 5 manna stjórn. Fyrsti forseti var að sjálfsögðu Ib Wessman. Gjaldkeri: Sverrir Þorláksson, Ritari: Stefán Hjaltested, Meðstjórnendur: Haukur Hjaltason og Hilmar B Jónsson. Endurskoðendur: Karl Finnbogason og Kristján Sæmundsson. Til viðbótar í klúbbnum voru: Bragi Ingason, Gústaf Guðmundsson, Harrý Kjærnested, Hafsteinn Gilsson, Jón Sigurðsson, Páll Ingimarsson og Tómas Guðnason.
Af einhverri ástæðu héldu þessir undirrituðu ekki áfram í klúbbnum. Samkvæmt þessu voru 14 stofnendur.
Strax árið eftir stofnunina gengum við í NKF og fórum við Ib á kokkaþing í Þrándheimi 1974 í Noregi og var okkur fagnað sem litla bróður. Starf klúbbsins var strax mjög öflugt þrátt fyrir að það væru engir peningar til. Við vorum gerðir ábyrgir fyrir að stofna landslið matreiðslumanna.
Í fyrsta skipti sem við sendum í keppni fóru tveir á matreiðslukeppni, þeir Birgir Pálsson og Stefán Hjaltested fóru á fiskikeppni í Noregi og komu þeir til baka með sérstök verðlaun. Síðan fóru 3 aðilar í 13 landa keppni í Bellacenter í Kaupmannahöfn, það voru Gísli Thoroddsen, Sigurvin Gunnarsson og Hilmar B. Jónsson og teljast þeir vera fyrsta landslið sem keppti á alþjóðlegri keppni, en þarna voru 13 evrópulönd að keppa.
Við komum heim með silfur fyrir kalda matinn og gull fyrir heita matinn. Á þessari keppni var Ib boðið að vera dómari og var það líka í fyrsta sinn sem Íslendingur var dómari í alþjóðakepni í matreiðslu, mikill heiður fyrir Ib.
Enn og aftur átti klúbburinn enga peninga og þetta er löngu fyrir þann tíma að það var búð að finna upp orðið “Styrktaraðili” svo við sem fórum greiddum allt úr eigin vasa. Það hjálpaði að ég flaug á frímiðum öll fyrstu árin en borgaði samt jafnt og hinir.
Mun senda inn söguna um þetta við tækifæri.
Norðurlanda þingin voru haldin annað hvert ár og minnir mig að næsta þing hafi verið í haldið í Svíþjóð. (Gæti verið rangt) Á því þingi var Ib heiðraður með heiðursorðu NKF sem nefnist Cordon Rouge fyrir að stofna klúbbinn og undirritaður fékk einnig Cordon Rouge, en Ib mælti með að ég fengi hana þar sem ég hafi verið honum mest til hjálpar.
Klúbbur matreiðslumeistara hefur vaxið og dafnað og er landi og þjóð og ekki síst matreiðslustéttinni til mikils sóma.
© Höfundur er Hilmar Bragi Jónsson matreiðslumeistari
-
Uppskriftir3 dagar síðan
Jóla gúrkur – Asíur
-
Keppni5 dagar síðan
Grétar Matthíasson keppir í kokteilagerð um helgina í stærsta spilavíti í Evrópu
-
Markaðurinn5 dagar síðan
Vel heppnað eftirréttanámskeið Iðunnar og Ólöfu Ólafsdóttur Konditor og eftirréttameistara – Myndir og vídeó
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel2 dagar síðan
Nýr Indverskur veitingastaður opnar í Miðbæ Selfoss
-
Markaðurinn5 dagar síðan
Fullbúin bás til sölu á besta stað í Mathöll Höfða
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun4 dagar síðan
Girnilegt smurbrauð hjá Skál á nýjum jólamatseðli
-
Frétt4 dagar síðan
KS hyggst kaupa B. Jensen – Ágúst Torfi: Ég get staðfest að það eru alvarlegar viðræður í gangi…
-
Markaðurinn4 dagar síðan
Jól á Ekrunni