Pistlar
Hvað vakti fyrir mönnum með bjórbanninu?
Bjórsaga okkar Íslendinga er um flest ólík þeirri í löndunum í kringum okkur enda markast hún öðru fremur af því einkennilega bjórbanni er var í gildi hér á landi lungann úr tuttugustu öldinni. Vissulega var tímabundið áfengissölubann ekki einstakt, það var einnig viðhaft á hinum Norðurlöndunum og í Bandaríkjunum. Það að leyfa sölu á öllu öðru áfengi en bjór áratugum saman er hins vegar einstakt og í raun engin leið að ætla sér að útskýra með neinum skynsamlegum rökum hvað vakti fyrir mönnum. Bjór var hins vegar ávallt að finna í einhverjum mæli þrátt fyrir bjórbannið.
Skipafloti landsmanna var duglegur við að ferja heim hinar forboðnu veigar
Ölgerðin fékk undanþágu til að brugga bjór fyrir bandamenn á stríðsárunum (Polar Beer). Þegar Bandaríkjaher tók við vörnum Íslands árið 1951 var svo að sjálfsögðu veitt undanþága til sölu á innlendum bjór til hermanna í herstöðinni á Miðnesheiði. Erlend sendiráð fengu sömuleiðis að veita bjór, enda vart hægt að banna það. Í raun var því alltaf til bjór á Íslandi en skipafloti landsmanna var einnig duglegur við að ferja heim hinar forboðnu veigar. Menn með bjórsambönd voru í miklum metum og það var talið einstaklega fínt að geta boðið upp á glas af smygluðum bjór.
Þeir sem ekki höfðu slík sambönd brugguðu margir bjór sjálfir og rétt eins og hinir íslensku heimilisvíngerðarmenn nútímans voru bruggmeistararnir sannfærðir um að afurðir þeirra væru einstakar. Lítið hefur hins vegar farið fyrir þessum heimilisiðnaði eftir að sala á áfengum bjór var heimiluð.
Hið hræðilega bjórlíki
Bjór varð vegna bannsins að dulrænu og spennandi fyrirbæri í hugum Íslendinga.
Jafnvel voru opnaðar bjórkrár þó svo að bjórinn væri enginn. Í hans stað var á níunda áratugnum fundið upp hræðilegt fyrirbæri er kallað var bjórlíki og samanstóð yfirleitt af pilsner blönduðum saman við sterkara áfengi. Var þessi drykkur seldur og hans neytt á sama hátt og bjór, oft með ægilegum afleiðingum fyrir neytendur.
Þeir sem áttu leið til útlanda gátu hins vegar fengið að teyga hinar forboðnu veigar strax í flugstöðinni og enn í dag má sjá fólk sem gerir það að sínu fyrsta verki þegar það þrammar inn á fríhafnarsvæðið að setjast niður og panta sér bjór þó svo að klukkan sé ekki nema sex að morgni.
Farþegum á heimleið var síðan á ákveðnum tímapunkti gefinn kostur á að kaupa bjór í fríhöfninni í stað annars áfengis.
Að því kom hins vegar að lokum að ekki var lengur hægt að viðhalda banninu, sem var löngu orðið farsakennt. Það breytti þó ekki því að um þetta mál var hart deilt á Alþingi og harðsnúinn hópur bjórandstæðinga á þingi reyndi að stöðva framgang frumvarpsins fram á síðustu stundu. Ýmsar breytinga- og frávísunartillögur komu fram við meðferð Alþingis og meðal annars kom upp krafa um að málinu yrði vísað til þjóðarinnar.
Þá reyndu ýmsir að nýta þetta tækifæri til að koma eigin hugðarefnum áleiðis og lagði hópur þingmanna til að fimm króna safnagjald yrði tekið af hverri sölueiningu bjórs er myndi renna í sjóð til að styrkja söfn landsins.
Bjórfrumvarpið samþykkt
Bjórfrumvarpið var að lokum samþykkt í maí 1988 og var bjórdagurinn tímasettur 1. mars árið eftir til að gefa jafnt framleiðendum og innflytjendum sem áfengisversluninni tíma til að undirbúa þessa miklu breytingu.
Ekki voru allir sáttir við þetta og ýmis félög og landssambönd samþykktu ályktanir þar sem þessi ákvörðun Alþingis var hörmuð. Meðal annars sendi Kvenfélagasamband Íslands ályktun til fjölmiðla þar sem varað er við þeim afleiðingum sem tilkoma bjórsins muni koma til með að hafa.
Ungmennafélag Íslands hafði einnig áhyggjur af málinu og í ályktun sem samþykkt var á fundi stjórnar UMFÍ, er haldinn var á Djúpuvík á Ströndum í september 1988, voru Alþingi og ríkisstjórn hvött til að heimila ekki sölu á bjór frá erlendum framleiðendum þar sem að óbeinar auglýsingar öflugra erlendra bjórframleiðenda gætu haft áhrif á neyslu sterks öls.
Mikil spenna á bjórdaginn
Það ríkti mikil spenna fyrir bjórdaginn 1989 og endalaust var deilt um það hvaða bjór ætti að fá að selja. Sérstaka reiði vakti það hjá þýskum bjórframleiðendum að enginn þýskur bjór var í hópi þeirra, er teknir voru í almenna sölu frá fyrsta degi. Kvörtuðu þýsk bjórfyrirtæki formlega yfir þessari mismunun til vestur-þýska landbúnaðarráðuneytisins.
Það var svo að morgni miðvikudagsins fyrsta mars 1989 að fyrsti bjórinn var seldur löglega í almennri sölu á Íslandi frá árinu 1915. Lang flestir landsmenn nýttu sér þetta tækifæri til að smakka á hinni forboðnu vöru og fyrsta daginn voru seldar um 340 þúsund dósir í verslunum ÁTVR, þar af 213 þúsund á höfuðborgarsvæðinu. Þessu til viðbótar kom svo ómælt magn er selt var á krám og veitingahúsum landsins þennan dag.
Bjórdagurinn vakti mikla athygli heimspressunnar
Örtröð var í flestum verslunum strax við opnun og stöðug og mikil umferð fólks var í búðirnar allan daginn. Mest seldu tegundirnar voru Egils Gull (5,0%) og Löwenbräu fyrsta söludaginn en á Akureyri leit dæmið þó öðruvísi út. Þar höfðu starfsmenn Sana vart undan að ferja brettin af Víking í verslanir og alls seldust 40 þúsund dósir af bjór frá Sanitas fyrsta bjórdaginn fyrir norðan en 6 þúsund dósir frá Egils.
Bjórdagurinn vakti mikla athygli heimspressunnar og hingað streymdu blaðamenn sem fylgdust í forundran með þessari þjóð sem lét eins og kvígur á vori er bjór var loks seldur í verslunum. Franska dagblaðið Libération birti heilsíðuumfjöllun um málið daginn eftir og sagði „trúarlegt andrúmsloft“ hafa ríkt á krá í Reykjavík er klippt hafi verði á borða í fánalitunum sem strengdur hafði verið á milli tveggja krana við afgreiðsluborðið.
Ítarlega umfjöllun var að finna í flestum blöðum heims og í breska blaðinu The Independent er sérstaklega tekið fram að líklega muni kaupmenn við Sauchiehall Street í Glasgow finna fyrir þessari breytingu enda hafi Íslendingar margir hverjir svalað bjórþorsta sínum þar til þessa.
Bjórbannið komst meira að segja inn í aðalfréttatíma allra helstu sjónvarpsstöðva Bandaríkjanna þennan dag.
Íslenskur bjór dafnað vel
En síðan liðu árin og smám saman fór nýjabrumið af bjórnum. Þar með er hins vegar ekki sagt að hann njóti ekki vinsælda. Þvert á móti, hins vegar varð hann að eðlilegum þætti í okkar lífi. Íslendingar byrjuðu ekki að drekka í vinnutímanum eins og Danir líkt og margir bjórandstæðingar höfðu spáð og þótt hverfiskrár hafi sprottið upp víða er enn langt í að þær verði jafn snar þáttur í okkar daglega lífi eins og í Þýskalandi og Bretlandi. Hins vegar hefur þróast breytt neyslumynstur. Íslendingar drekka minna af sterku áfengi og meira af bjór og víni.
Það varð líka snemma ljóst að Íslendingar rétt eins og flestar aðrar þjóðir drekka sinn heimabjór öðrum fremur þótt þeim finnist einnig hinn innflutti sopi góður. Íslensku bjórframleiðendurnir tveir, Egils og Sól-Víking, hafa dafnað og njóta afurðir þeirra mikilla vinsælda, jafnt þær alíslensku sem þær er bruggaðar eru samkvæmt leyfi erlendra framleiðenda, s.s. Tuborg og Carlsberg.
Elsta brugghúsið á Íslandi
Ölgerð Egils Skallagrímssonar er elsta brugghúsið á Íslandi en upphaflega var fyrirtækið stofnað af Tómasi Tómassyni í tveimur herbergiskytrum í kjallara Þórshamars við Templarasund. Tómas hafði á átjánda ári ráðist til starfa hjá gosdrykkjaverksmiðjunni Sanitas á Seltjarnarnesi og starfað þar undir handleiðslu Gísla Guðmundssonar. Fyrsta framleiðsluafurð Tómasar eftir að hann hóf eigin rekstur var kölluð Maltextrakt og fyrstu flöskunum hlóð hann í handvagn sinn og fór með í sölu í apríl 1913.
Maltextraktið varð strax gífurlega vinsælt og varð hann að færa reksturinn úr Þórshamri yfir í Thomsenshúsin við Hafnarstræti árið 1914. Árið 1915 hélt hann til Danmerkur og nam ölgerð við Bryggeriet Stjernen og kom einnig við í Þýskalandi til að sækja sér fræðslu.
Heim kom hann árið 1917 og reisti þá ölsuðuhús, gerjunar- og átöppunaraðstöðu við Njálsgötu en á þessum tíma var hægt að kaupa tæki úr brugghúsum fyrir lítið verð í Þýskalandi en landið var í sárum eftir heimsstyrjöldina fyrri. Það var í kjölfar þessara fjárfestinga sem að framleiðsla á undirgerjuðu öli hófst hjá Agli en til þessa hafði framleiðslan verið einskorðuð við maltöl og hvítöl.
Egils Pilsner kom á markaðinn 1917 en var áfram í þróun um nokkurra ára skeið meðan á uppbyggingu fyrirtækisins stóð. Pilsnerinn er enn í dag einhver vinsælasta afurð Ölgerðarinnar og sérstök að því leyti að pilsner er framleiddur sem bjór sem er 2,25% að styrkleika en ekki bruggaður sterkari og síðan þynntur eins og algengt er með annan pilsner.
Hernámsárin voru mikil gósentíð fyrir íslensku brugghúsin enda bresku hermennirnir duglegir að teyga ölið og flutti Ölgerðin framleiðslu sína að hluta á Rauðarárstíg á þessum árum. Framleiðslan hélt áfram þar og við Njálsgötu en að lokum kom að því að fyrirtækið varð að færa sig um set.
Jafnt þurfti að koma til móts við íbúa í grennd við ölgerðirnar (hver kannast ekki við humal-lyktina yfir Þingholtunum) og einnig varð fyrirtækið að hafa svigrúm til að stækka og byggja upp brugghús og verksmiðju samkvæmt nýjustu tækni. Ölgerðin fékk úthlutaðri lóð við Grjótháls 1979.
Árið 1985 flyst starfsemin að Grjóthálsi en ölsuðan hélt áfram á Njálsgötu þar til nýtt ölgerðarhús var tekið í notkun árið 2000, búið allri fullkomnustu tölvutækni sem völ er á til ölframleiðslu. Þá fyrst lauk starfseminni á Njálsgötu.
Einn vinsælasti bjór Íslands
Við afnám bjórbannsins kom Egils Gull á markaðinn og hefur að segja má frá fyrsta degi verið einn vinsælasti bjór Íslands. Klassískur og frískur lagerbjór með meðalbeiskju. Aðrar afurðir sem komið hafa á markað frá Ölgerðinni eru Egils Sterkur, sem er ljós bjór 6,2% að styrkleika og svo Spegils sem kom á markaðinn vorið 2001. Hann er aðeins veikari en Gullið eða 4,6% og markar fyrst og fremst tímamót fyrir framsækna markaðssetningu og umbúðir.
Ölgerðin hefur einnig bruggað ýmsa bjóra samkvæmt leyfi frá erlendum brugghúsum.
Hinn stóri framleiðandinn er Sól-Víking sem hefur aðsetur á Akureyri. Raunar má rekja sögu fyrirtækisins allt aftur til stofnunar Efnagerðar Siglufjarðar árið 1939 og formlegu samstarfi fjögurra smjörlíkisgerða í Reykjavík sama ár undir nafninu Smjörlíki hf. Smjörlíki hóf framleiðslu á drykkjarvörum árið 1972 og nafni fyrirtækisins þá breytt í Sól.
Efnagerð Siglufjarðar flutti hins vegar til Akureyrar árið 1945 og tók upp nafnið Efnagerð Akureyrar. Mikil uppbygging var á árunum 1962-1963 og var þá nafni Efnagerðarinnar breytt í Sana, en það hafði fram til þess verið eitt þekktasta vörumerki hennar.
Ölgerð fyrirtækisins var öll endurnýjuð árið 1988 til að fyrirtækið væri í stakk búið að hasla sér völl á hinum nýja bjórmarkaði. Tólf gerjunar- og lagertönkum var komið upp við hús fyrirtækisins auk tveggja maltkornssílóa. Þá var brugghúsið endurnýjað að miklu leyti og stækkað. Var þetta gert í samvinnu við danskt ráðgjafafyrirtæki, Alfred Jörgensen, sem jafnframt lét Sana fá nokkrar uppskriftir.
Viking og Thule voru þegar þekkt vörumerki frá Sana áður en bjórbanninu var aflétt en Thule hafði verið bruggaður sem léttur pilsner fram til þessa. Að auki var nú hafin framleiðsla á Sanitas Pilsner sem var 4,5% að styrkleika og Sanitas Lageröl sem var 5,5% að styrkleika. Til viðbótar hinum innlendu bjórum fékk Sana framleiðslurétt á hinum þekkta þýska Löwenbräu bjór.
Nú eru þrír af bjórum Sól-Víking kenndir við Víking. Það eru Víking gylltur (5,6%), Víking rauður (4,6%) og Víking sterkur (7,0%) auk þess sem Thule (5,0%) er ennþá bruggaður. Þá hefur Carlsberg tekið við sem hið erlenda vörumerki fyrirtækisins.
Verulegar breytingar hafa orðið á rekstri og eignarhaldi Sól-Víking síðastliðinn áratug. Árið 1997 voru hlutafélögin Sól og Víking sameinuð eða arftakafyrirtæki Efnagerðar Siglufjarðar og Smjörlíkis. Í febrúar 2001 sameinaðist fyrirtækið Vífilfelli og boðuðu hinir nýju eigendur fyrirtækisins við það tækifæri að í framtíðinni yrði ekki síður horft til erlendra markaða fyrir bjórana Thule og Víking.
Thule-bjórinn hóf raunar sína landvinninga árið 1998 er hann lenti í þriðja sæti í árlegri smökkun Danska bjórnautnafélagsins. Alls voru 514 bjórar smakkaðir af Dönunum og sögðu þeir við fjölmiðla á þessum tíma að gæði íslenska bjórsins hefðu komið gleðilega á óvart.
Grein þessi birtist á strik.is þann 18. febrúar 2003 og er birt hér með góðfúslegu leyfi strik.is.
Myndir: úr safni
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun6 dagar síðan
La Barceloneta er fyrsti veitingastaðurinn á Íslandi sem hlýtur ICEX viðurkenningu
-
Uppskriftir5 dagar síðan
Vinsælustu uppskriftirnar árið 2024
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun4 dagar síðan
Þessi réttir stóðu upp úr hjá Michelin eftirlitsmönnum á árinu 2024
-
Frétt4 dagar síðan
Mest lesnu fréttir ársins 2024 á Veitingageirinn.is
-
Markaðurinn1 dagur síðan
Myndaveisla – Franski bakarameistarinn Remy Corbet Daniel Jean kynnti aldagamlar aðferðir við súrdeigs- og sætabrauðsbakstur
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun3 dagar síðan
Fálkahúsið og Kokka verðlaunuð fyrir bestu jólaskreytingarnar á árinu sem var að líða
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun2 dagar síðan
Ertu frumkvöðull í íslenskri matvælaframleiðslu? 20 milljónir í boði fyrir matarfrumkvöðla
-
Markaðurinn1 dagur síðan
Fagfélögin taka í notkun nýjar Mínar síður