Vertu memm

Frétt

Gerðu þér mat úr Facebook – Finnskur frumkvöðull fjallar um sölu beint frá býli

Birting:

þann

Thomas Snellman

Thomas Snellman

  • Hvaða tækifæri felast í því fyrir smáframleiðendur að selja vörur sínar beint á Netinu?
  • Hvernig er hægt að efla sölu á mat beint frá býli og styrkja samband kaupenda og seljenda?
  • Er hægt að bæta dreifileiðir og tryggja farsæl viðskipti árið um kring?

Þetta eru spurningar sem finnski bóndinn og frumkvöðullinn Thomas Snellman og fleiri ætla að svara á ráðstefnu í Hörpu sunnudaginn 4. mars um milliliðalaus viðskipti með matvörur. Eftir erindi verður haldin vinnustofa þar sem fundargestum gefst tækifæri á að ræða þá möguleika og hindranir sem fylgja milliliðalausum viðskiptum með mat. Í fréttatilkynningu segir að Thomas er brautryðjandi í Finnlandi í sölu búvara í gegnum svokallaða REKO-hringi sem eru vel skipulagðir Facebook-hópar víðs vegar um Finnland. REKO, sem er skammstöfun á sænska hugtakinu Rejäl konsumtion, sem gæti útlagst sem sanngjörn neysla á íslensku. Thomas Snellman hlaut Embluverðlunin í fyrra fyrir REKO-hringina. Finnskir bændur og smáframleiðendur hafa náð frábærum árangri í sölu beint frá býli og mun Thomas segja frá því í Hörpu hvernig þessir aðilar hafa náð að auka veltuna í sínum rekstri umtalsvert með nýjum söluaðferðum á Netinu. Hann var orðinn leiður á því hversu lágt verð hann og aðrir bændur fengju fyrir sína framleiðslu. Snellman kynntist hugmyndinni um sölu beint frá býli í Frakklandi 2011 og árið 2013 setti hann upp söluhóp á Facebook sem býður neytendum að eiga milliliðalaus viðskipti við bændur.

Sífelld krafa um lægra verð

„Afkoman í því sem er kallaður hefðbundinn landbúnaður í Finnlandi er erfið í dag eins og víða annars staðar í heiminum. Vandi bænda í Finnlandi stafar meðal annars af innflutningi á ódýrum mat og kröfu verslunarinnar um ódýrari vörur. Í Finnlandi eru þrjú fyrirtæki ráðandi á matvælamarkaði, tvö finnsk og eitt þýskt. Þessar keðjur eru í mikilli samkeppni um að bjóða lægsta verðið og það kemur niður á verðinu til framleiðanda, sem eru bændur, auk þess sem aðföng og annar kostnaður við framleiðsluna fer hækkandi. Staða verslunarinnar er sterk og samningstaða bænda slæm og þeir þurfa að sætta sig við það verð sem verslunin vill borga ef þeir vilja fá hillupláss,“

segir Thomas Snellman.

Hröð uppbygging

Snellman segir að meðlimir á REKO-síðum árið 2013 hafi verið 15 framleiðendur og 400 kaupendur og veltan 80.000 evrur. Árið 2014 voru framleiðendurnir 750 og kaupendurnir 12.000 og veltan áætluð tvær milljónir evra. Árið 2015 fór boltinn að rúlla. Afhendingarstöðunum fjölgaði í hundrað, framleiðendum í 2.500, kaupendum í 150 þúsund og velta jókst í átta milljón evrur. Árið 2016 töldu framleiðendur sem seldu í gegnum REKO um 4.000, kaupendur 250 þúsund og áætluð velta 30 milljón evrur. Í dag eru afhendingarstaðir vara í Finnlandi 80 og reglulegir kaupendur um 330.000, sem er um 5% allra Finna og allur íbúafjöldi Íslands. Auk Thomasar mun Brynja Laxdal, framkvæmdastjóri Matarauðsins, fjalla um reynslu af matarmarkaði á Facebook hér á landi og Arnar Gísli Hinriksson, sérfræðingur í árangursmarkaðssetningu, heldur erindi sem ber nafnið „Gerðu þér mat úr Facebook“. Kristinn Hjálmarsson stjórnunarráðgjafi mun stjórna vinnustofu eftir erindin þar sem þátttakendur ræða um fundarefnið og skiptast á skoðunum.

Matarauður Íslands og Bændasamtök Íslands standa fyrir ráðstefnunni en samstarfsaðilar þeirra eru Neytendasamtökin, verslunin Búrið, Klúbbur matreiðslumeistara og samtökin Beint frá býli.

Ráðstefnan, sem er öllum opin, verður haldin í Björtuloftum í Hörpu eftir hádegi sunnudaginn 4. mars og hefst hún kl. 14.00. Á sama tíma er Matarmarkaður Búrsins í Hörpu. Skráning er á bondi.is. Enginn aðgangseyrir.

 

Smári er matreiðslumaður að mennt, en hann hefur starfað við fagið til fjölda ára, bæði sem starfsmaður og rekstraraðili. Í dag starfar Smári hjá Tónaflóði heimasíðugerð. Hægt er að hafa samband við Smára á netfangið [email protected] Skoða allar greinar höfundar hér >>

Podcast / Hlaðvarp

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið