Vertu memm

Pistlar

Fróðleikur um eldhúsið á Gullfossi

Birting:

þann

Gullfoss - Fróðleikur um eldhúsið á Gullfossi

Emil Bjarnason við eldavélina

Í janúar 1962 kom ég fyrst um borð í Gullfoss, þá 16 ára gamall og var aðstoðarmaður í eldhúsinu. Mér leið vel þarna og var  í heilt ár ár í pottunum eins og það var kallað. Ég var hvattur til að fara að læra starfið.  Þá var um borð kokkur sem hét Axel Sigurðsson. Hann hafði lært í Kaupmannahöfn á sínum tíma og sá til þess að ég fékk fékk góðan stað til að læra á. Síðasta dvöl mín á skipinu var frá desember 1971 til apríl 1972, þá sem yfirmatreiðslumaður. Þar á milli var ég nokkrum sinnum um borð í styttri tíma, alls um 2 ½ ár. Hef ég því nokkuð góða þekkingu á aðstæðum um borð.

Gullfoss - Fróðleikur um eldhúsið á Gullfossi

Þetta er matsalur 1. farrýmis

Það er ekki ætlun mín að skrifa sögu Gullfoss á neinn hátt. Það er sitthvað til á prenti um Gullfoss og lífið um borð en þar er fyrst og fremst talað um farþega, yfirmenn og einstaka áhafnarmeðlimi. Aftur á móti er afar lítið farið undir yfirborðið eins og t.d. eldhúsið og vinnutilhögun. Því vil ég segja frá minni upplifun af skipinu, aðstöðu í eldhúsinu og daglegum störfum.

Um skipið

Gullfoss var skráður 3858 brúttólestir, smíðaður hjá Burmeister og Wain. skipasmiðastöðinni í Kaupmannahöfn og kom í fyrsta skifti til íslands vorið 1950. Farrýmin voru 3. Fyrsta farrýmið sem var miðskips, á B, C og D dekki, tók  110  farþega, Annað farrými sem var aftarlega á skipinu á D og E dekki tók 62 manns. Svo var þriðja farrými sett upp á sumrin. Það var í raun á lestarlúgu framarlega á skipinu á D dekki, skift í tvennt með tjöldum. Karlmenn öðrumegin og kvenfólk hinummegin. Þetta voru kojur, 2 á hæðina og þarna var pláss fyrir  44 manns. Þriðja farrými var eingöngu í gangi yfir sumartímann.

Eitt er vert að hafa í huga. Skipið var jafnt vöruflutningaskip sem farþegaskip. Á sumrin voru fastar ferðir milli Reykjavíkur og Kaupmannahafnar með viðkomu í Leith sem er hafnarborg Edinborgar. Skipið kom til Leith bæði á leiðinni út og  aftur heim. Var komið til Leith snemma morguns og farið þaðan aftur kl. 18.00. Stóðst það oft á endum að tækist að ljúka losun og lestun á þeim tíma og örsjaldan þurfti að fresta brottför um klukkutíma af þeim sökum.

Gullfoss - Fróðleikur um eldhúsið á Gullfossi

Gullfoss við Reykjavíkurhöfn árið 1968

Þessi hringur tók tvær vikur. Stoppað var 2 daga í Kaupmannahöfn og eins í Reykjavík. Á veturnar bættist Hamborg við sem fastur áfangastaður en stundum var farið til dæmis til Amsterdam eða Cuxhaven, allt eftir því hvaða vörur voru fluttar hverju sinni. Síðan var íslendingum boðið í „hringferð“ sem tók 3 vikur, stoppað fimm  daga í Kaupmannahöfn. Þarna höfðu flutningarnir forgang og farþegarnir hafðir í öðru sæti.

Sjá vídeó hér ( Þáttur um MS Gullfoss, saga hans rakin og sýnd á skjánum árið 1992. )

Áhöfn

Í áhöfn skipsins voru 65 – 70 manns, þar af um helmingur í þjónustudeildinni. Það gátu verið misjafnlega margir í áhöfn, fleiri á sumrin þegar farþegar voru fleiri. Þá kringum 35 í þjónustudeildinn.  Hér verður aðeins rætt um þjónustudeildina.

Fyrst skal nefna brytann. Svo var aðstoðarbryti (skrifstofumaður) sem sinnti daglegri umgengni við farþega. Fjórar þernur voru á fyrsta farrými og tvær á öðru farrými. Sex þjónar voru á fyrsta farrými og tveir á öðru. Tveir barþjónar, tveir birgðaverðir. Í eldhúsinu störfuðu fimm kokkar, þrír í heita eldhúsinu og tveir í því kalda. Auk þess var einn bakari og tveir aðstoðarmenn í heita eldhúsinu. Svo voru tveir uppvaskarar. Þá er eftir að nefna ungþjóna og messa.

Gullfoss - Fróðleikur um eldhúsið á Gullfossi

Úr búrinu. Þorkell Gunnarsson og Bjarni Sigurjónsson

Eldhúsið var miðskips, stjórnborðsmegin í skipinu á E dekki sem var neðanþilja. Fremst á þessu þilfari voru lestarrými. Þar fyrir aftan var borðsalur fyrsta farrýmis. Hann náði þvert yfir skipið, frá stjórnborða til bakborða og tók rúmlega 110 manns í sæti. Þar aftan við – stjórnborðsmegin – kom kalda eldhúsið eða búrið eins og það var yfirleit kallað. Þar fyrir aftan kom uppvaskið, þar fyrir aftan heita eldhúsið og bakaríið. Aftan við eldhúsið var herbergi birgðavarða, þá komu matsalir fyrir áhöfnina, alltaf kallaðir messar. Þeir voru fjórir, einn fyrir yfirmenn, einn fyrir háseta, einn fyrir dagmenn í vél  og svo einn fyrir þjónustufólkið. Þjónar, þernur, eldhúsfólkið.

Gullfoss - Fróðleikur um eldhúsið á Gullfossi

Börge Rasmussen, Valdís María Valdimarsdóttir og Jón Sæmundsson

Þar aftanvið kom svo borðsalur fyrir annað og þriðja farrými.  Þetta var að mörgu leyti ágætis fyrirkomulag, eldhúsið miðsvæðis. Hinsvegar voru allar geymslur, kælir og frystar einni hæð neðar og þurfti að bera allar matvörur og aðrar birgðir upp og niður stiga. Það var engin lyfta. Sem dæmi, þá kom mjólkin um borð í 50 líta brúsum og var það t.d. starf aðstoðarmanna sem yfirleitt voru 15 – 18 ára strákar að ná í mjólkurbrúsa og bera hann upp tröppurnar, mjög oft í góðum veltingi. Hélt maður þá í hankana á brúsanum og bar hann „á öldunni“ upp stigann, eina tröppu í einu. Ekki veit ég hvað vinnulöggjöfin segði við þessu í dag.

Gullfoss - Fróðleikur um eldhúsið á Gullfossi

Þórir jónsson, Emil Bjarnason, Börge Rasmussen og Bjarni Sigurjónsson

Fyrirkomulag: Í hádeginu var kalt borð á fyrsta farrými og einn heitur réttur, yfirleitt eitthvað einfalt. Kalda borðið var hlaðborð með köldum réttum og verður hér kallað kalda borðið eins og alltaf tíðkaðist. Þá var heitur matur á öðru og þriðja farrými og fyrir áhöfnina. Svo snérist þetta við á kvöldin, þá var kalt borð fyrir áhöfn, annað og þriðja farrými og heitur matur á fyrsta farrými. Morgunmaturinn var hefðbundinn, t.d. egg og beikon alla morgna á fyrsta farrými. Búrið, eða kalda eldhúsið sá um álegg og brauð fyrir morgunverðinn. Heita eldhúsið sá um hafragraut og soðin egg. Á fyrri árum var alltaf fjögurra rétta kvöldmáltíð á fyrsta farrými en síðustu árin voru einungis þrír réttir. Þjónustunni fór hrakandi síðustu árin í takt við fækkun farþega og minni áhuga íslendinga á þessum ferðamáta, flugið var að taka við.

Tími á hádegismat: Fyrsta farrými, annað farrými og áhöfn kl. 12.00. Þriðja farrými kl. 13.00.

Tími á kvöldmat: Fyrsta farrými kl. 19.00.  Áhöfn kl. 18.00. Annað farrými kl. 18.00 og þriðja   farrými. Kl. 19.00.   Sami borðsalur var fyrir annað og þriðja farrými svo þetta var ansi mikil keyrsla.

Gullfoss - Fróðleikur um eldhúsið á Gullfossi

Fjölbreyttur matseðill var á kalda borðinu, Omeletta Surprise, Perur Magdalena, Skjaldbökueftirlíking svo fátt eitt sé nefnt

Gullfoss - Fróðleikur um eldhúsið á Gullfossi

Kalda borðið

Vinnutími

Dagurinn byrjaði kl 6 alla morgna og þá unnið til kl. 13 – 13.30, eftir aðstæðum. Um miðjan daginn var hvíldartími og langoftast lögðu menn sig þá. Kl. 16.00 var byrjað aftur að vinna og þá unnið þar til búið var að afgreiða allan mat, taka til og hafa til það sem þurfti fyrir næsta dag. Aðstoðardrengirnir sáu svo um að þrífa og skúra gólfið.   Að sjálfsögðu var unnið alla daga sem skipið var á sjó. Í Reykjavík áttu allir í eldhúsinu frí. Í Kaupmannahöfn þurfti einn kokkur og einn búrmaður að vinna því áhöfnin þurfti að fá sinn mat. Á veturnar þegar farþegar voru um borð í erlendum höfnum var reynt að sjá til að einn gæti verið í fríi hvern dag, þannig að allir fengju einn frídag.  En bakarinn þurfti að mæta alla daga og hafa til nýbökuð rúnstykki með morgunmatnum. Það var engin miskun.

Gullfoss - Fróðleikur um eldhúsið á Gullfossi

Þórir Jónsson

Tæki í eldhúsi

Í heita eldhúsinu var eldavélin að sjálfsögðu hjartað. Þetta var dönsk vél sem ég man ekki hvað hét en hún var ágæt á þeirra tíma mælikvarða, ferkantaðar hellur sem þöktu allt yfirborðið. Undir hellunum voru 2 ofnar, nógu stórir til að rúma það kjötmagn sem steikja þurfti hverju sinni.

Stór 150 lítra soðpottur. Ekki var hægt að velta honum en við botninn var góður spons svo auðvelt var að tæma soðið. Það var oft verið að sjóða bein í soð. Neðarlega í pottinum voru grindur þar sem beinin voru sett í. Þá var auðvelt að taka beinin uppúr þegar ekki fékkst úr þeim meiri kraftur. Súpur voru svo lagaðar í stórum pottum á eldavélinni. Einnig grugghreinsun fyrir kjötseyði.

Gufa. Vélarrýmið var miðskips meðfram endilöngu eldhúsinu. Þaðan fékkst gufa sem var leidd á þrjá staði. Í fyrsta lagi inn í bakaríið. Þá í stóra soðpottinn, það þurfti bara að skrúfa frá krana og suðan kom upp á ótrúlega skömmum tíma. Einnig var gufuofn. T.d. tók 20 mínútur að sjóða kartöflur. Þetta var frumstætt en gerði sitt gagn.

Kartöfluskrælari var notaður  til að skræla kartöflur sem síðan voru turneraðar. Þetta var fyrst og fremst notað fyrir fyrsta  farrými. Annars voru kartöflur soðnar og skrældar.

Djúpsteikingarpottur notaður fyrir franskar kartöflur, kartöfluflögur og djúpsteiktan fisk.  En þá mátti ekki vera slæmt í sjóinn. Ein stór hrærivél var í bakaríinu.

Salamander var þó nokkuð notaður.

Hakkavél.

Stór dósaopnari var náttúrulega á sínum stað. Á þessum tíma var mikið af dósamat, grænmeti og ávöxtum.

Auglýsingapláss

Snitselvél kom á seinni árum; þá er kjötsneiðum rennt nokkrum sinnum í gegnum vél sem tætir kjötið svo það verður auðtuggið. Öðrum tækjum man ég ekki eftir.

Gullfoss - Fróðleikur um eldhúsið á Gullfossi

Jón Sæmundsson

Bakaríið var í einu horni eldhússins. Ekki var það stórt, ég giska á 5-6 fermetra. Það var pláss fyrir stóran bakarofn, vinnsluborð, ca 1,5  metra langt. Þetta var öðru megin. Hinummegin var einn plöturekki, ein stór hrærivél og  brekkvél. Það var allt bakað um borð, jafnt samlokubrauð, súpurúnstykki og tartalettur sem sætabrauð og kökur fyrir miðdegiskaffið. Úrvalið var mjög gott enda góðir bakarar alla tíð sem gerðu frábæra hluti í þröngu og takmörkuðu plássi.

Kalda borðið á Gullfossi var margrómað og þótti bera af í samanburði við önnur slík.   Á því var t.d. síld,  reyktur lax, soðinn heill lax og matvæli sem þekktust ekki heima eins og reyktur áll og humar sem þá var ekki byrjað að veiða hér við land. Söltuð  eða ný nautatunga, roastbeef, hangikjöt, spægipylsa, svínasteik, skinka, ný og úr úr dós. Svínasulta sem var löguð í eldhúsinu úr svínahausum, kalkúnn, kjúklingar salöt.

Þó nokkuð úrval af ostum sem komu aðallega frá Danmörku.  Mikið var lagt upp úr nýtni og hagkvæmni. Þegar t.d. kalda borðið kom fram að loknum hádegisverði á fyrsta farrými var strax bætt á fötin og gengið frá þeim þannig að þau væru tilbúin fyrir annað farrými um kvöldið.  Ýmislegt var gert til að skreyta borðið með eins og íssökklar. Þeir voru notaðir bæði á fyrsta og öðru farrými.

Gullfoss - Fróðleikur um eldhúsið á Gullfossi

Matseðill. Eimskip hélt stundum veislur um borð fyrir viðskiptavini sína þegar skipið lá í höfn í Reykjavík. Þetta er matseðill frá einni slíkri veislu.

Gullfoss - Fróðleikur um eldhúsið á Gullfossi

Heitir réttir með kalda borðinu: Nefna má tartalettur með t.d. skinku og grænmeti, plokkfisk, lobescoves. bixemat með Bearnaisesósu í stað eggja, vínarpylsur, stroganoff. Stundum var skjaldbökueftirlíking sem er í dag alveg horfin af matseðlum veitingahúsa. Hún var gerð af kálfahausum sem voru soðnir í vel krydduðu vatni. Af soðinu var lagað gott demiglace. Í sósuna fóru hausarnir, beinhreinsaðir, kældir og skornir í bita. Einnig litlar soðnar og steiktar kjöt og fiskbollur. Á toppinn fóru svo hálf linsoðin egg. Þetta var góður réttur en tímafrekur.

Heiti maturinn. Yfirleitt var alltaf súpa, uppbökuð eða seyði. Á fyrsta farrými var milliréttur, yfirleitt fiskur, t.d. lax. Stundum var ferskur aspas þegar hann fékkst. Þessi milliréttur lagðist síðan af frá 1975 – 1980.  Millirétturinn var oft fiskur, stundum ferskur aspas    Af heitum réttum má nefna svínahrygg, hamborgarhrygg, lambasteik, roastbeef,  kálfasnitsel, endur, kjúklingar. Af fiski má nefna lax, lúðu og rauðsprettuflök.

Stundum kom nautahryggur um borð í Skotlandi. Þá var hann notaður heilsteiktur á fyrsta farrými.  Ábætisréttir gátu verið fjölbreyttir; búðingar, frómas, ís, kökur, t.d. eplakökur, karamellurönd. Svo voru Perur Magdalena, vinsæll eftirréttur. Í honum voru dósaperur sem var raðað í silfurskálar, kremsósu hellt yfir, toppað með kókosmjöli og gratinerað. Toppurinn var þó Omeletta Surprise. Lagaðar voru stórar omelettur jafnmargar þjónunum, svona sex stk. Notuð voru aflöng silfurföt (fiskiföt). Á botninn af fatinu var svamptertubotn, síðan vanilluís, þá ávextir. Svo var þetta stinkað með líkjör (appelsínu).

Gullfoss - Fróðleikur um eldhúsið á Gullfossi

Kalda borðið

Að lokum var þetta svo smurt upp í háa, fallega omelettu með marengs. Skreyting sprautuð með marengs. Þetta var svo sett í salamender og bakað hæfilega.  Á toppinn fyrir miðju var settur börkur af hálfri appelsínu, hellt var í börkinn koníaki og kveikt í um leið og þjónarnir gengu í röð með fötin ínn í borðsalinn þar sem búið var að slökkva ljósin að mestu. Vakti þetta mikla lukku. Þetta var yfirleitt boðið uppá á fyrsta farrými í lok hverrar siglingar.

Matur fyrir áhöfnina var svona meira heimilislegur. Oft var það það sama og fyrir farþegana en líka var oft kjötsúpa, saltkjöt og baunir og soðin, þverskorin ýsa. T.d. var alltaf saltfiskur á laugardögum.

Uppistaðan af kjöti og fiski var frystivara en oft var reynt að fá nýtt og ófrosið, t.d. nýjan lax. Lambaskrokkarnir komu heilir. Að kvöldi áður en átti að nota þá voru þeir teknir upp í eldhús og hengdir upp á króka  kringum eldavélina. Það fóru tíu skrokkkar í hvert skifti. Þeir voru svo úrbeinaðir og hlutaðir. T.d. var engin kjötsög um borð og var spaðkjöt því hoggið.

Nautakjöt kom frosið í kössum. Í hverjum kassa var einn fjórðungur, fram- eða afturpartur. Þetta var hálfúrbeinað og fylgdu þá beinin með. Það sama gilti um kálfakjöt. Svínið kom meira í stykkjum, læri, hryggir og svo auðvitað hamborgarhryggir í kössum. Endur, súpuhænur og kjúklingar voru svo í venjulegum kössum.

Gullfoss - Fróðleikur um eldhúsið á Gullfossi

Kalda borðið

Fiskur.  Lax kom heill, frosinn. Rauðspretta kom heil en snyrt og hauslaus. Stórlúða kom heil frosin.  Nýtt grænmeti var ekki sérlega fjölbreytt. Kartöflur, rófur, gulrætur,laukur,  blaðlaukur, seljurót,  agúrkur, tómatar, salathöfuð, steinselja. Stundum kom svo eitthvað nýtt eins og heill aspas.

Yfirleitt kom allt kjöt, fyrir utan lambakjöt, um borð í Kaupmannahöfn. Fiskur í Reykjavík.

Vert er að hafa í huga að á þessum árum var afar takmarkað framboð af matvælum á Íslandi. Það var innflutningsbann á kjöti og grænmeti var mjög takmarkað. Grænmetisverslun ríkisins  mátti ein flytja inn og versla með grænmeti. Ekkert var flutt inn nema kartöflur.  Það sem keypt var til landsins var annaðhvort skemmt eða hálfgert skepnufóður. Innlent grænmeti var ekki mikið annað en rófur, hvítkál, eitthvað til af gulrótum og lauk. Og það  þýddi ekkert að kvarta.  Því var hráefnisúrval á Gullfossi allt annað en íslenskir kokkar höfðu vanist. Hlutir eins og endur, áll, og humar, bæði leturhumar eins og við veiðum hér við land en einnig stór humar höfðu varla sést hér á landi. Það var því engin furða hve vinsælt var fyrir matreiðslunema að nota sumarfríið til að leysa af um borð.

Gullfoss - Fróðleikur um eldhúsið á Gullfossi

Kalda borðið

Á fyrsta farrými var maturinn bakkaður upp á silfurföt, silfursósukönnur og skálar Á öðru farrými voru stálföt. Silfurfötin gátu verið ansi þung þegar búið var að bakka upp á þau. Það hefur því verið álag fyrir þjónana að bera þau um og skammta af þeim, sérstaklega í sjógangi þegar skipið hjó ölduna.

Gullfoss - Fróðleikur um eldhúsið á Gullfossi

Kalda borðið

Hér má minna á að á þessum tíma var allur matur á veitingahúsum borinn fram á fötum. Diskar voru notaðir á kaffiteríum.  Þetta var ríkjandi hefð um allan heim og breyttist ekki fyrr en um 1980.

Mannskapur

Ég mun hér nefna þá sem voru í ábyrgðarstöðum í eldhúsinu. Það hefur verið erfitt að fá upplýsingar um þá sem voru um borð fyrsta áratuginn. Síðustu árin var orðið erfiðara að fá góða fagmenn um borð, sérstaklega kokka. Glansinn var farinn.

Brytinn hét Guðmundur Þórðarson og var hann um borð frá upphafi til loka. Hann var valinn úr þeim hópi bryta sem störfuðu hjá Eimskip. Meðan skipið var í smíðum sendi Eimskip  hann um borð í erlend skemmtiferðaskip til að kynna sér rekstur þeirra og aðstæður. Þar fékk hann til dæmis hugmyndir að kalda borðinu. Guðmundur var farsæll og hélt vel utanum rekstur veitingadeildarinnar. Hann gat verið allt í senn, strangur, gamansamur og mannlegur.

Gullfoss - Fróðleikur um eldhúsið á Gullfossi

Við eldavélina. Þórir Jónsson í forgrunni. Emil Bjarnason baka til. ( 1955 )

Gullfoss - Fróðleikur um eldhúsið á Gullfossi

Börge Rasmussen við kalda borðið

Yfirmatreiðslumenn

Þórir Jónsson var fyrsti yfirmatreiðslumaður og starfaði nokkuð lengi. Hann mun hafa verið mjög góður fagmaður.

Emil Bjarnason  lærði á Hótel d´Angleterre sem var og er einn af toppstöðunum í Kaupmannahöfn. Hann starfaði lengi um borð, fyrst sem matreiðslumaður og tók síðan við af Þórir

Auglýsingapláss

Börge Rasmussen tók við af Emil. Hann var lengi yfirmatreiðslumaður um borð. Byrjaði fyrst sem afleysingamaður árið 1957. Kom svo um borð í fasta vinnu árið eftir og var um borð til til 1969. Börge og Emil voru á sama tíma í námi á d´Angleterre.   Þeir urðu góðir vinir og fékk Emil Börge til að koma um borð í Gullfoss. Af því leiddi að Börge kynntist Stellu, systur Emils. Úr þessu varð farsælt hjónaband. Þau bjuggu fyrst í Maribo en fluttu svo til Nyköbing Falster í Danmörku.  Börge var mjög góður fagmaður og hélt vel utanum starfsemina.  Hann var einstakt ljúfmenni, þægilegur í umgengni og alltaf var stutt í húmorinn, happafengur fyrir áhöfn jafnt sem farþega.

Eftir þetta urðu örari breytingar en Axel Sigurðsson mun hafa tekið við af Börge og starfað sem yfirmatreiðslumaður í 18 mánuði.

Gullfoss - Fróðleikur um eldhúsið á Gullfossi

Þorkell Gunnarsson, Guðmundur Júlíusson og Börge Rasmussen

Búrmenn

Bjarni Sigurjónsson var fyrsti yfirbúrmaður og starfaði sem slíkur í um 3 ár. Seinna leysti hann af bæði í búri og eldhúsi.

Þorkell Gunnarsson tók við af Bjarna og var lengi um borð eða  u.þ.b.  20 ár.

Sigþór Hersir var lengi um borð. Vann fyrst með Þorkeli og varð síðan yfirbúrmaður.

Gullfoss - Fróðleikur um eldhúsið á Gullfossi

Egill Egilssson, Alli bakari og Sveinn Friðfinnsson á góðri stund

Bakarar

Alli bakari var aldrei kallaður neitt annað. Menn vissu varla hvað hann hét fullu nafni en það mun hafa verið Aðalsteinn. Hann var um það bil fyrstu 13 árin um borð, léttur í lund og úrvalsbakari.

Ingibergur Sigurðsson, alltaf kallaður Ingi, kom um borð fljótlega eftir að Alli hætti og var með smáhléum um borð þar til skipið var selt. Það vantaði aldrei neitt af góðu bakkelsi hjá honum.

Gullfoss - Fróðleikur um eldhúsið á Gullfossi

Börge, Egill Egilsson og Halldór Júlíusson, síðar veitingamaður í Glæsibæ

Að vinna úti á sjó

Það er ýmislegt sem þarf að taka tillit til um borð í skipi. Það þýðir ekki að leggja hluti frá sér hvar sem er. Allt þarf að skorðast af, pottarnir á eldavélinni og skurðarbrettin en undir þau voru sett rennvot viskustykki. Sérstaklega þarf að passa upp á hnífana.   Dúkarnir undir kalda borðinu voru vættir vel. Svo má nefna að í borðsalnum voru borðdúkarnir stinkaðir með vatni, mismikið eftir sjólagi.

Stungin voru göt á brennivínstappa eða flösku með skrúfuðu loki. Síðan var flaskan fyllt með vatni og „stinkað“ yfir borðdúkana sem annars væru fljótir að hendast í næsta vegg með öllu sem á því er.

Til gamans má segja frá þjóni sem var búinn að starfa lengi til sjós. Hann hættir síðan til sjós og fer að vinna á Hótel Borg. Það tók nokkurn tíma að fá hann til að hætta að stinka borðin.

Gullfoss - Fróðleikur um eldhúsið á Gullfossi

Börge Rasmussen að störfum

Sögur

Að sjálfsögðu gerðist ýmislegt í eldhúsinu, eins og í öðrum eldhúsum.  Ég ætla ekki að eltast við neinar kjaftasögur sem gæti verið nóg af en læt hér fylgja tvær meinlausar.

Börge kunni manna best að sjá það fyndna í lífinu og hafði gaman af því að segja frá. Hér kemur saga frá honum:  Það var eitt sinn kokkanemi um borð sem notaði sumarfríið til  að fara einn túr. Morgun einn var Börge búinn að setja yfir svínahausa sem áttu að fara í sultu. Hausarnir voru soðnir um það leyti sem hádegismaturinn var búinn og hann segir við strákinn að klára að laga sultuna áður en hann fari í miðdegishlé. Hann segir stráknum til, hreinsa öll bein frá og annað sem má missa sig og bætir svo við: „Ef það er eitthvað sem þú gætir ekki hugsað þér að borða, þá hendirðu þvi“. Þegar Börge kemur aftur í eldhúsið finnur hann ekki sultuna svo hann spyr strákinn sem kom aftur skömmu siðar. Strákurinn svarar: „Veistu hvað. Ég hefði ekki getað hugsað mér að borða þetta svo ég henti því öllu“.

Þegar Börge varð fimmtugur var hann byrjaður að sanka að sér hráefni í veisluna. Meðal annars koníaki. Honum dettur í hug að taka nokkrar flöskur í land umfram það sem hann hafði hreimild til, hann bjó í Danmörku. Hann vildi nú vera alveg öruggur um að þetta fyndist ekki svo kvöldinu áður saumaði hann þessar flöskur inn í lambaslög og batt um, þetta leit út eins og þessar fínustu rúllupylsur og lágu í vatni í potti á eldavélinni. Morguninn eftir, skipið kom snemma í höfn, hafði Axel Sigurðsson kokkur vaknað óvenjusnemma og var mættur á undan Börge í eldhúsið. Og það fyrsta sem hann gerði var að setja rúllupylsurnar yfir og sjóða !!

Sögulok

Gullfoss var seldur í árslok 1973 til Saudi-Arabíu. Rekstur skipsins hafði gengið brösuglega, sérstaklega síðustu árin. Gullfoss hét eftir það  Mecca og sigldi með pílagríma.  Sökk á Rauðahafi í árslok 1976.   Þá voru um borð 1000 farþegar. Það kviknaði í sennilega út frá því að pílagrímarnir kveiktu bál á dekkinu til að elda sér mat.   Allir komust lífs af.

Flestar myndirnar eru fengnar hjá Thorsten Rasmussen og eru birtar hér með góðfúslegu leyfi hans. Thorsten er sonur Börge Rasmussen og sigldi oft með föður sínum. Sumar myndir hafa feðgarnir tekið en óvíst er um uppruna annarra.

 

Sigurvin Gunnarsson - Matreiðslumeistari

Sigurvin Gunnarsson – Matreiðslumeistari

 

† 1945 - 2019 | Sigurvin Gunnarsson er matreiðslumeistari að mennt og hefur starfað við fagið til tugi ára. Í dag nýtur Sigurvin þess nú á efri árum að fara um landið og heimsækja hina margbreytilegu veitingastaði sem bjóða upp á þjóðlegan mat, oftast úr eigin héraði. Hægt er að hafa samband við Sigurvin á netfangið [email protected]

Podcast / Hlaðvarp

Auglýsingapláss

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið