Frétt
Fréttir helst sóttar á vefsíður fréttamiðla
Helmingur landsmanna sækir helst fréttir af vefsíðum fréttamiðla. Þetta sýna niðurstöður nýrrar könnunar MMR sem framkvæmd var dagana 3. ágúst til 10. ágúst. Þá kváðust 18% helst sækja fréttir í sjónvarp og 9% í útvarp. Athygli vekur að einungis 4% kváðust helst sækja fréttir í dagblöð en 9% sækja helst fréttir af samfélagsmiðlum.
Spurt var: Hvert sækir þú helst fréttir?
Svarmöguleikar voru:
- Af vefsíðum fréttamiðla – 50%
- Í sjónvarp – 18%
- Af samfélagsmiðlum – 9%
- Í útvarp – 9%
- Af öðrum vefsíðum – 5%
- Í dagblöð – 4%
- Úr símaforriti (appi) – 2%
- Til vina – 0%
- Til kunningja eða ættingja – 1%
- Annars staðar frá – 0%
- Ég fylgist ekki með fréttum – 2%
- Veit ekki/vil ekki svara – 0%
Alls tóku 957 einstaklingar, 18 ára og eldri þátt í könnuninni sem valdir voru handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Munur eftir hópum
Konur (13%) reyndust líklegri en karlar (5%) til að sækja helst fréttir af samfélagsmiðlum en hærra hlutfall karla (58%) en kvenna (50%) kvaðst helst sækja fréttir sínar af vefsíðum (fréttamiðlum eða öðrum).
Kynslóðamunur var á svörum eftir aldri. Af ungu fólki á aldrinum 18-29 ára kváðust 62% helst sækja fréttir sínar af vefsíðum fréttamiðla. Hlutfalli þeirra sem sækja helst fréttir á vefsíður fréttamiðla fór lækkandi í takt við hækkandi aldur en einungis 15% þeirra 68 ára og eldri kváðust helst sækja fréttir af vefsíðum fréttamiðla. Svarendur elsta aldurshópsins kváðust aftur á móti helst sækja sér fréttir í sjónvarp (43%), útvarp (26%) eða dagblöð (12%). Þá er ljóst að sjónvarpsmiðlar, útvarp og dagblöð eiga á brattan að sækja hjá ungu fólki en einungis 2% þeirra á aldrinum 18-29 ára kváðust helst sækja sér fréttir í sjónvarp, 1% í útvarp og 1% í dagblöð en 6% kváðust ekki fylgjast með fréttum. Unga fólkið reyndist aftur á móti líklegra en aðrir aldurshópar til að sækja sér fréttir af samfélagsmiðlum en 17% þeirra 18-29 ára kváðust helst sækja sér fréttir í gegnum samfélagsmiðla og 8% þeirra 30-49 ára.
Af þeim sem lokið höfðu háskólamenntun kváðust 60% helst sækja sér fréttir af vefsíðum fréttamiðla, samanborið við 46% þeirra sem höfðu hæst lokið framhaldsskóla og 44% þeirra með grunnskólamenntun. Þá kváðust 12% sem lokið höfðu grunnskólamenntun sækja helst fréttir af samfélagsmiðlum, samanborið við 8% þeirra með framhaldsskóla- eða háskólamenntun.
Þegar litið var til stjórnmálaskoðana mátti sjá að 66% stuðningsfólk Pírata og 59% stuðningsfólks Viðreisnar sögðust helst sækja fréttir af vefsíðum fréttamiðla. Aðeins 35% af stuðningsfólki Flokks fólksins kvaðst helst sækja sér fréttir af vefsíðum fréttamiðla en 20% þeirra kváðust hins vegar helst sækja fréttir í útvarp og 11% í dagblöð. Af stuðningsfólki Vinstri grænna kváðust 28% helst sækja fréttir í sjónvarp, samanborið við aðeins 9% stuðningsfólks Pírata. Þá var stuðningsfólk Sjálfstæðisflokksins (13%) líklegast til að sækja helst fréttir á samfélagsmiðla en stuðningsfólk Pírata (4%) og Samfylkingarinnar (3%) var líklegast til að segjast ekki fylgjast með fréttum.
Mynd: úr safni
-
Markaðurinn3 dagar síðan
Girnilegt camembert jólatré með döðlu og pekan krönsi
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel3 dagar síðan
Mikil uppbygging framundan á Hofsstöðum – Veitingastaðurinn með eigin framleiðslu og hráefni úr heimabyggð
-
Markaðurinn4 dagar síðan
Ekta rjómaís með hvítu súkkulaði og piparkökum – Fullkominn á veisluborðið yfir hátíðarnar
-
Frétt2 dagar síðan
34 veitingastaðir birtu matseðil og annað kynningarefni bara á ensku
-
Markaðurinn5 dagar síðan
Hátíðar opnun Hafsins
-
Markaðurinn12 klukkustundir síðan
Wolt “wrapped” samantektin – Það sem Íslendingar pöntuðu á árinu 2024
-
Markaðurinn2 dagar síðan
Uppskrift – Fylltar kjúklingabringur með eplum, Dala höfðingja og rósmarín-hlynsírópsgljáa
-
Markaðurinn23 klukkustundir síðan
Kalkúnaveisla með öllu tilheyrandi