Vertu memm

Markaðurinn

Frambærilegir og flottir fulltrúar frá Íslandi – tilnefndir til norrænu matvælaverðlaunanna Emblunnar

Birting:

þann

Embla Food Award - Logo

Sex norræn Bændasamtök, þar á meðal Bændasamtök Íslands, standa að baki norrænu matvælaverðlaununum Emblunni, sem haldin eru annað hvert ár og styrkt af Norrænu ráðherranefndinni. Markmiðið er að lyfta norrænni matarmenningu og skapa aukinn áhuga á henni utan svæðisins. Embluverðlaunin fara fram í mars á næsta ári í Osló og er nú ljóst hverjir hafa verið tilnefndir í flokkunum sjö fyrir Íslands hönd.

Eftirfarandi eru tilnefndir fyrir hönd Íslands:

Jökla

Jökla

Norrænn matarfrumkvöðull – Pétur Pétursson – Jökla rjómalíkjör
Pétur Pétursson mjólkurfræðingur er aðdáandi íslenska kúakynsins og afurða þeirra. Hann ákvað fyrir 14 árum síðan að búa til séríslenskan rjómalíkjör. Fyrsta framleiðsla og sala var í maí 2021. Stofnað var fyrirtækið Jöklavin sem er i eigu Péturs og konu hans Sigríði Sigurðardóttur viðskiptafræðings.

Jökla, fyrsti íslenski mjólkurlíkjörinn, hefur fengið frábærar viðtökur neytanda bæði á Íslandi og erlendis vegna hins sérstæða ferska bragðs og eftirbragðs. Jökla  fæst í öllum verslunum vínbúðum og Fríhöfninni á Keflavíkurflugvelli. Stefnt er að koma Jöklu á markað á norðurlöndunum innan skamms og eru framtíðarhorfur bjartar.

Matartíminn

Matartíminn

Norrænn matur fyrir börn og ungmenni – Matartíminn
Matartíminn var stofnaður árið 2017 undir merkjum Sölufélags garðyrkjumanna og er því alfarið í eigu grænmetisbænda. Starfið er margþætt en í grunninn má skipta markmiðum Matartímans í tvennt. Annars vegar er unnið að því að draga úr matarsóun með fullnýtingu uppskerunnar frá íslenskum grænmetisbændum.

Hins vegar hefur Matartíminn unnið að því að bæta aðgengi íslenskra skólabarna að ferskri og hollri næringu. Í dag þjónar Matartíminn að jafnaði 4.500 börnum hvern dag í leikskólum og grunnskólum og leggja áherslu á að sinna þörfum allra af alúð.

Norrænn mataráfangastaður  – Vestmannaeyjar
Vestmannaeyjar hafa alltaf verið matarkista og stærsti iðnaður eyjanna í kringum fisk. Með breyttum áherslum í sveitarfélaginu er annar iðnaður búinn að vera ryðja sér til rúms á undanförnum árum og það er ferðamannaiðnaðurinn. Með bættum ferðamannastraumi þá hefur opnast tækifæri að opna enn betri veitingastaði en áður því fleiri eru viðskiptavinirnir sem kunna sérstaklega að meta staðbundna matreiðslu.

Á síðustu árum hefur metnaðarfullt fólk úr matvælageiranum opnað veitingastaði í Vestmannaeyjum sem margir myndu flokka á heimsmælikvarða. Sérstaða flestra staða er aðgangurinn að hágæða hráefni sem er undirbúið með mikilli virðingu.

Dominique Plédel Jónsson

Dominique Plédel Jónsson

Norrænn matur fyrir marga – Dominique Plédel Jónsson
Dominique Plédel Jónsson er fædd í Frakklandi og flutti til Íslands árið 1970. Hún er landfræðingur að mennt og bjó í 10 ár í Danmörku og Noregi. Síðastliðin 18 ár hefur hún rekið eigin vínskóla fyrir fagfólk og leikmenn með alþjóðlega vottun, þar sem hún fylgir að mörgu leyti hugmyndafræði Slow Food um lífræn og náttúrleg vín. Frá árinu 2008 hefur Dominique verið formaður Slow Food Reykjavík og frá 2019 fyrir Slow Food á Norðurlöndunum.

Hún hefur verið virkur meðlimur í Slow Food frá árinu 1996 og var stofnandi félagsins hér á landi. Dominique hefur alla tíð verið óþrjótandi að kynna og fræða um svæðisbundin hráefni og smáframleiðendur. Hún hefur ferðast um Ísland í mörg ár til að opna á samtalið við kokka, bændur, framleiðendur, skólastjórnendur um möguleikana og þá nauðsyn að þróa svæðisbundna rétti og til að sýna fram á hagkvæmni og ástæðunni fyrir því að framleiða góðan, hreinan og sanngjarnan mat á Íslandi.

Norrænn matvælaframleiðandi  – Nordic Wasabi
Ný­sköp­un­ar­fyr­ir­tækið Jurt, sem Johan Sindri Hansen og Ragnar Atli Tómasson, stofnuðu, settu sína fyrstu vöru á markað, Nordic wasa­bi, eða ferskt íslenskt wasabi, fyrir fjórum árum sem er hreint wasa­bi og ræktað á sjálf­bær­an hátt í há­tækni­gróður­hús­i á Eg­ils­stöðum þar sem jarðhiti og raf­magn eru nýtt til fram­leiðslunn­ar.

Í dag reka Ragnar og Óli Hall, sölu- og markaðsstjóri Jurtar, fyrirtækið. Jurt starfar samkvæmt Nordic Food Manifesto, þar sem áherslan er lögð á hreinleika, ferskleika og einfaldleika eða sjálfbæra framleiðslu frá upphafi til enda. Ferskt wasa­bi er unnið úr stilk wasa­bi-plönt­unn­ar og er 100% hrein afurð án allra auka­efna.

Gunnar Karl Gíslason

Gunnar Karl Gíslason

Norrænn matvælamiðlari – Gunnar Karl Gíslason – DILL
Gunnar Karl Gíslason, eigandi veitingastaðarins DILL, sem hefur hlotið Michelin-stjörnu, er óþrjótandi að vinna með íslenskt hráefni. Árið 2009 opnaði hann sinn eigin veitingastað, DILL, í Norræna húsinu í Reykjavík. Draumur hans var að opna stað þar sem norræna eldhúsið myndi blómstra og var markmið hans að komast yfir allt það norræna hráefni sem hann gæti. Síðar togaði íslenskt hráefni sterkar og sterkar í hann.

Svæðisbundin matvæli eru alltaf í forgrunni og er DILL einn af þekktustu veitingastöðum landsins, með eina Michelin-stjörnu og hefur fengið viðurkenninguna Besti veitingastaður á Íslandi af White Guide Nordic. Þar að auki hefur Gunnar gefið út sína eigin matreiðslubók, North: The New Northern Cuisine of Iceland þar sem hann fer yfir íslenskt hráefni, framleiðendur, villtar plöntur og hefðir í íslenskri matargerð.

Brúnastaðir

Brúnastaðir

Norrænn matvælalistamaður – Brúnastaðir ostagerð
Hjónin og bændurnir Jóhannes H. Ríkharðsson og Stefanía Hjördís Leifsdóttir búa á Brúnastöðum í Fljótunum með fjórum börnum sínum. Þegar þau fluttu að Brúnastöðum árið 2000 urðu þau að finna tækifæri til að skapa sér störf í heimabyggð og úr varð að þau fóru að gera tilraunir með geitamjólk sem síðan vatt upp á sig. Þau fengu Guðna Hannes, ostagerðarmann í lið með sér og árið 2020 komu fyrstu vörurnar á markað og selja þau nú nokkrar tegundir af geitaosti.

Þar að auki gera þau einnig sauðaost en í mun minna magni. Geiturnar ganga lausar í fjöllunum fyrir ofan bæinn á sumrin og éta jurtirnar sem þeim líkar best. Þetta skilar sér í bragði geitamjólkurinnar sem er rík af fitu og próteini. Þar að auki éta geiturnar notað hveiti og bygg sem fellur til í nálægu brugghúsi sem hefur einnig áhrif á gæði mjólkurinnar. Á þennan hátt má segja að hringrásarhagkerfið kristallist og leggja bændurnir sig í líma við að koma í veg fyrir matarsóun.

Sjá einnig:

Opnað fyrir tilnefningar í norrænu matvælaverðlaunin Emblu 2021

Podcast / Hlaðvarp

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið