Frétt
Fordómar gagnvart geitfjárrækt
Fyrir um þremur mánuðum síðan úthlutaði Matvælasjóður í fyrsta sinn og var það Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem kynnti fyrstu úthlutun Matvælasjóðs en alls hlutu 62 verkefni styrk að fjárhæð allt að 480 milljónir að þessu sinni. Alls bárust 266 umsóknir um styrki upp á 2,7 ma.kr.
Matvælasjóður úthlutar í fyrsta sinn: 62 verkefni hljóta styrk
Um þessar mundir má finna fjölbreyttar umfjallanir og líflegar umræður um geitfjárrækt á ýmsum frétta- og samfélagsmiðlum.
Kveikjan að þessu var umsögn með höfnun sem barst umsækjanda í Matvælasjóð en sá var eini umsækjandinn úr hópi geitfjárræktenda á Íslandi.
Anna María Flygenring, formaður Geitfjárræktarfélags Íslands, segir í sjálfu sér ekkert um það að segja, sumir umsækjenda fengu styrki, aðrir ekki. Hún velti hins vegar fyrir sér umsögn sem fylgdi með höfnuninni og finnst að hún lýsi fádæma fordómum. Bjartsýni á að geitfjárrækt eigi sér framtíð á Íslandi hafi minnkað til muna eftir lestur umsagnarinnar.
Hún hljóðar svo:
„Hversu umhverfisvæn er ræktun geita? Geitur ganga hart að umhverfi sínu og þar sem íslensk náttúra á frekar undir högg að sækja þegar kemur að gróðurþekju og er á mörgum stöðum örfoka skýtur skökku við að ætla að stækka bústofn tegundar sem er ágeng á gróður.
Einnig spyr maður sig af hverju vinsældir hafa ekki náð sér á strik á þessum 1000 árum, virðist lítill vilji vera fyrir því að læra að elda og nýta geitakjöt.
Nú þegar eru bændur í vandræðum með að losa sig við lambakjöt, hví bæta annarri kjötafurð við.“
Segir að lokum í umsögninni.
„Ég var afskaplega hissa þegar ég las þessa umsögn og mér þykir hún lýsa miklum fordómum, fáfræðin um geitur og hegðun þeirra er mikil,“
segir Anna María í samtali við Bændablaðið.
Geitfjárræktarfélag Íslands hefur verið starfrækt í 30 ár en hlutverk félagsins er að stuðla að verndun og ræktun íslenska geitfjárstofnsins og leita leiða til að bæta nýtingu og auka verðmæti geitaafurða.
Matís hefur til að mynda unnið að allnokkrum verkefnum með félaginu en þau hafa öll haft það að markmiði að kanna, eða þróa gæði og nýtingarmöguleika geitfjárafurða og miðla upplýsingum um þetta efni til geitfjárbænda og almennings. Lykilniðurstaðan er að afurðir íslenskra geita henta ágætlega í fjölbreytt matvæli sem eru holl og hafa margvíslega sérstöðu.
Hjá Matís voru teknir saman einblöðungar um þetta efni, t.d. einblöðungur um gæði geitfjárafurða í alls kyns matvæli. Einnig hafa verið gefnar út skýrslur um geitfjárafurðir, til dæmis um næringargildi geitfjárafurða og sérstöðu afurða íslenskra geita með áherslu á þá ótal möguleika sem eru á vöruþróun og framleiðslu.
Sjá einnig:
Mynd: úr safni
-
Markaðurinn2 dagar síðan
Mesta úrval Japanskra hnífa á Íslandi
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel3 dagar síðan
Nýr veitingastaður á Laugarvatni – Sunneva og Sæþór: Við viljum að allir sem koma líði eins og þeir séu heima hjá sér
-
Keppni3 dagar síðan
Grétar Matthíasson er Meistari meistaranna
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel4 dagar síðan
Nýtt veitingasvæði rís í austurenda Smáralindar – 13 nýir veitingastaðir
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun3 dagar síðan
Kristinn Frímann bauð upp á glæsilegt jólahlaðborð á togaranum Kaldbak – Myndir
-
Markaðurinn3 dagar síðan
Mijita er fyrsti 100% glútenfríi veitingastaðurinn í Wolt appinu
-
Keppni4 dagar síðan
Matreiðslukeppni stjórnmálaflokkana í húsi Fagfélagana
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel2 dagar síðan
Úrvalslið veitingageirans fagnaði opnun þriggja nýrra veitingastaða á Keflavíkurflugvelli – Myndir