Frétt
Fyrsti Icelandic Lamb skjöldurinn settur upp á veitingastað í Japan
Markaðsstofan Icelandic lamb hefur undanfarin misseri unnið að markaðssetningu á íslensku lambakjöti í Japan í samvinnu við kjötútflytjendur og japanska innflutningsfyrirtækið Global Vision. Fyrirtækið flytur inn ýmsar sérvörur til Japans frá Evrópu og Norður Ameríku og selur til veitingastaða, svæðisbundinna dreifingaraðila og sérverslana. Íslenskt lamba- og hrossakjöt er það nýjasta í vörulínu japanska fyrirtækisins sem hefur lagt töluvert undir við markaðssetningu á íslenskum afurðum. Nú þegar er íslenskt lambakjöt komið á matseðla um 100 veitingastaða í Japan og fæst auk þess í völdum verslunum. Í verkefninu er horft til næstu fimm ára en hingað til hefur sala verið afar góð og líkur á aukinni markaðshlutdeild á næstu árum. Sala undir hatti verkefnisins nam um 200 tonnum í fyrra.
Erlendir ferðamenn og sérverkefni í útlöndum
Í fréttatilkynningu segir að helsta verkefni markaðsstofunnar Icelandic lamb snýr að því að kynna íslenskt lambakjöt og aðrar sauðfjárafurðir fyrir erlendum ferðamönnum á Íslandi. Þegar hefur verið komið á samstarfi við um 160 aðila í veitingarekstri, framleiðslu, hönnun og nýsköpun. Þar af eru um 120 íslenskir veitingastaðir í samstarfi um að setja lambakjöt í öndvegi. Að auki vinnur markaðsstofan að sérstökum útflutningsverkefnum.
Samstarf við japanskan sérvöru innflytjenda
Icelandic lamb og Global Vision gerðu með sér samstarfssamning 2017 sem gerir ráð fyrir stigvaxandi markaðshlutdeild íslenska lambakjötsins á Japansmarkaði. Í honum felst einnig að allt markaðsefni Icelandic lamb sé þýtt á japönsku, sett verði upp japönsk heimasíða og samvinna um markaðsefnis fyrir samfélagsmiða. Ráðist verður í samfélagsmiðlaherferð í Japan síðar á þessu ári. Að sögn Svavars Halldórssonar, framkvæmdastjóra Icelandic Lamb, hefur stuðningur utanríkisráðuneytisins og sendiráðsins í Japans verið ómetanlegur við að koma verkefninu af stað.
Vöruþróun vegna sérstakra japanskra rétta
Sölunni á íslenska lambakjötinu má einkum skipta í tvo megin hluta. Annars vegar eru fluttir út dýrari bitar á góðu verði sem fara til veitingastaða og sérverslana. Hins vegar eru fluttir út feitir frampartar sem fara á veitingastaði sem sérhæfa sig í mongólsku grilli eða Ghengis Khan. Einnig fór af stað í ár vöruþróunarverkefni á sérstökum lambakjötsrúllum úr íslensku lambakjöti sem m.a. eru nýttar í japanska rétti eins og Shabu Shabu. Í báðum tilfellum elda viðskiptavinir réttina sjálfir við borðið og íslenskt lambakjöt þykir hafa sérstaka eiginleika sem nýtast vel á þessari tegund veitingastaða.
Fyrsti formlegi samstarfs-veitingastaðurinn utan Íslands
Á dögunum var skrifað undir fyrsta formlega samstarfssamning Icelandic Lamb við veitingastað erlendis. Samningurinn er gerður við veitingastaðinn Yuki Daruma í Tókýó en nafnið þýðir snjókarl og eigandi staðarins er fyrrum frægur súmó-glímukappi. Staðurinn er einn af þekkustu veitingarstöðum Tókýóborgar sem bjóða upp á mongólskt grill. Staðurinn er sérstaklega þekktur fyrir að veggir hans eru þaktir eiginhandaráritunum frægra íþróttamanna og leikara. Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra Íslands, setti upp fyrsta Icelandic Lamb skjöldinn á Yuki Daruma, en hann var á dögunum í opinberri heimsókn til Japan. Fimmtán aðrir veitingastaðir hafa þegar óskað eftir því að gera sambærilegan samstarfssamning og skuldbinda sig um leið til þess að bjóða eingöngu upp á íslenskt lambakjöt og hafa það ávallt á matseðli. Að auki verða fljótlega opnaðir þrír mongólskir grillstaðir til viðbótar sem munu sérhæfa sig í íslensku lambakjöti en þess má geta að ekkert annað kjöt verður á matseðli.
Myndir: aðsendar
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel4 dagar síðan
Nýr Indverskur veitingastaður opnar í Miðbæ Selfoss
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel1 dagur síðan
Nýtt veitingasvæði rís í austurenda Smáralindar – 13 nýir veitingastaðir
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel10 klukkustundir síðan
Nýr veitingastaður á Laugarvatni – Sunneva og Sæþór: Við viljum að allir sem koma líði eins og þeir séu heima hjá sér
-
Keppni10 klukkustundir síðan
Grétar Matthíasson er Meistari meistaranna
-
Bocuse d´Or4 dagar síðan
Sindri Guðbrandur keppir 27. janúar í Bocuse d´Or
-
Markaðurinn3 dagar síðan
Dill opnar á ný eftir breytingar – nú með nýju borðabókunarkerfi Noona
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun11 klukkustundir síðan
Kristinn Frímann bauð upp á glæsilegt jólahlaðborð á togaranum Kaldbak – Myndir
-
Keppni2 dagar síðan
Matreiðslukeppni stjórnmálaflokkana í húsi Fagfélagana