Vertu memm

KM

Samstarfssamningur KM & SS/Reykjagarðs

Birting:

þann


Alfreð Ómar Alfreðsson forseti KM og Steinþór Skúlason forstjóri SS/Reykjagarðs

20. maí s.l. var formlega undirritaður silfur – samstarfssamningur milli KM og Sláturfélag Suðurlands/ Reykjagarður. Gerðu þeir það Steinþór Skúlason forstjóri og Alfreð Ómar Alfreðsson forseti KM í höfuðstöðvum SS.
SS hefur um árabil verið einn okkar helsti styrktar- og samstarfsaðili og samvinnan verið til mikils sóma. Að þessu sinni bætist dótturfyrirtæki SS, Reykjagarður í samstarfið.

Samningur þessi er til næstu fjögurra ára og er afar mikilvægur fyrir okkur hjá KM.
Hann mun styrkja mjög hið faglega sjálfboðaliðastarf sem unnið er og það er von stjórnar KM að félagsmenn sjái hag sínum vel borgið með viðskiptum við þessi ágætu fyrirtæki. 

Eins og flestir vita þá státar SS af löngum og farsælum ferli og er sannkallaður brautriðjandi þegar kemur að gæðaframleiðslu matvara.
Kærar þakkir fyrir stuðning gegnum árafjöld.

Stjórn Klúbbs Matreiðslumeistara

————————————————————————————

Hér er ágrip af sögu SS sem spannar liðlega 102 ár

Auglýsingapláss

Í framhaldi af afnámi verslunarhafta sem viðloðandi höfðu verið um margra alda skeið á íslensku þjóðinni var byrjað um aldamótin að stofna íslensk verslunarfélög til að greiða fyrir sölu búvara á erlenda markaði. Um aldamótin 1900 voru ýmsir erfiðleikar í afurðasölumálum. Árið 1890 var innflutningur lifandi fjár til Bretlands bannaður, en fram til þess tíma hafði hann verið ein aðaltekjulind bænda. Varð því að auka slátrun í landinu en á því voru miklir byrjunarannmarkar, þar sem skipulögð sauðfjárslátrun hafði ekki tíðkast, heldur slátrun heima á bæjum við ófullkomnar aðstæður. Frystitækni var ókunn, geymsluaðferðin var því eingöngu söltun kjötsins og öll sölumeðferð á frumstæðu stigi. Það er upp úr þessum jarðvegi að Sláturfélag Suðurlands er stofnað við Þjórsárbrú 28. janúar 1907 af 565 stofnendum.

Eftir stofnun félagsins urðu miklar framfarir í vinnslu og sölu landbúnaðarafurða á Íslandi, sem hefur orðið bæði framleiðendum og neytendum til hagsbóta. Á fyrsta starfsári félagsins var reist sláturhús á aðalmarkaðssvæðinu, í Reykjavík, og síðar á helstu stöðum á Suðurlandi.

Árið 1920 hóf Sláturfélagið niðursuðu á kjöti og reisti síðan fullkomna niðursuðuverksmiðju árið 1929. Niðursuða var lengi mikilvægur þáttur í starfsemi félagsins en var aflögð í kjölfar breyttra neysluvenja.

Árið 1908, strax á öðru rekstrarári félagsins, var hafinn rekstur fyrstu matvöruverslunarinnar, Matardeildarinnar í Hafnarstræti. Verslunum Sláturfélagsins fór síðan fjölgandi og á tímabili voru umsvif verslunardeildar félagsins veruleg. Í kjölfar breyttra áherslna hafa verslanir félagsins verið seldar.

Sláturfélagið hóf rekstur sútunarverksmiðju árið 1965 að Skúlagötu 20, Reykjavík, en síðar var verksmiðjan rekin á Grensásvegi 14. Rekstri sútunarverksmiðju var hætt á árinu 1988 og vélar og annar búnaður seldur.

Kjötvinnsla Sláturfélagsins var flutt á árinu 1991 til Hvolsvallar frá Reykjavík þar sem hún hafði verið frá upphafi. Stórgripa- og sauðfjársláturhús á Hvolsvelli var lagt niður og tekið undir kjötvinnsluna ásamt því að húsnæði hennar var stækkað til muna. Lokið var við 1.800 fermetra stækkun kjötvinnslunnar á Hvolsvelli á árinu 1998. Starfsstöð félagsins á Hvolsvelli er rúmir 8.000 fermetrar. Um er að ræða stærstu og fullkomnustu kjötvinnslu landsins og er stefnt að því að fá heimild fyrir útflutningi til landa ESB ríkja innan fárra ára.

Auglýsingapláss

Að Fosshálsi 1 í Reykjavík er söludeild og skrifstofustarfsemi, en á árinu 1993 sameinaðist öll starfsemi félagsins á höfuðborgarsvæðinu á einum stað að Fosshálsi 1. Húsnæðið var síðan keypt á árinu 1997 og viðbót á árinu 1998, alls tæpir 3.700 fermetrar.

Á árinu 2008 var vörudreifing félagsins flutt frá Fosshálsi til starfstöðvarinnar á Hvolsvelli.

 

Sláturfélag Suðurlands svf, Fosshálsi 1, 110 Reykjavík, Sími 575-6000 Fax 575-6090

 

Auglýsingapláss

Smári er matreiðslumaður að mennt, en hann hefur starfað við fagið til fjölda ára, bæði sem starfsmaður og rekstraraðili. Hægt er að hafa samband við Smára á netfangið [email protected] Skoða allar greinar höfundar hér >>

Click to comment

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Podcast / Hlaðvarp

Auglýsingapláss

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið