Smári Valtýr Sæbjörnsson
Viðtal við Hallgrím | Kominn á fullt í veitingarekstur eftir alvarlegt slys fyrir ári síðan
Hallgrímur Friðrik Sigurðarson matreiðslumeistari er kominn á fullt í veitingarekstur eftir mjög alvarlegt slys fyrir ári síðan, en þá lenti hann í slæmu vélsleðaslysi á páskadag þegar hann var ásamt hópi manna á snjósleða í Bíldsárskarði í Eyjafirði. Hallgrímur brotnaði nánast á öllum vinstri helmingi líkamans eftir slysið, báðir fæturnir voru brotnir, vinstri handleggurinn og níu rifbein.
Veitingastaðurinn Örkin hans Nóa á Akureyri opnaði í maí 2011, en eigendur eru hjónin Kristján Eldjárn Jóhannesson og Helga Jóhannsdóttir. Kristján og Helga hafa staðið vaktina frá því að húsinu var breytt úr húsgagnaverslun í veitingastað. Nú á dögunum varð breyting á rekstrinum og inn koma tveir ferskir og flottir strákar en það eru þeir Hallgrímur Friðrik Sigurðarson matreiðslumaður sem verður veitingastjóri, Örvar Bessason er yfirkokkur og Kristján Eldjárn er framkvæmdastjóri.
Staðurinn hefur ekki verið með heilsársopnun og er nú breyting á, þar sem staðurinn verður opinn allt árið.
Við hittum Hallgrím eða Halla eins og hann er oft kallaður og spurðum hann út í reksturinn, sérstöðu staðarins og fleira.
Hvert er þitt hlutverk á staðnum?
Ég er titlaður veitingastjóri og er einn af þremur eigendum. Ég mun sinna markaðsmálum mikið ásamt almennri matseðlagerð, gæðastjórn og rekstri.
Er þetta nýr staður á Akureyri?
Nei hér hefur verið rekinn veitingastaður síðustu 2-3 árin, en ekki verið heilsársopnun. Nú erum við Örvar vinur minn komnir inní reksturinn og markmiðið er að verða besti sjávarréttaveitingastaður á Akureyri/landinu, opinn allt árið.
Hverjir eru eigendur staðarins?
Kristján Eldjárn og Helga konan hans hafa staðið vaktina frá því að húsinu var breytt úr húsgagnaverslun í veitingastað. Nú verður eignarhaldið þrískipt, Ég sem veitingastjóri, Örvar sem yfirkokkur og Kristján framkvæmdastjóri.
Þú segir sjávarréttaveitingastaður, hver er/verður sérstaða ykkar?
Við notum aðeins hráefni frá Norðurlandi og okkar nánasta umhverfi, eldum og berum fram alla aðalrétti á pönnum. Við erum komnir með sérverkað grísalæri að ítölskum sið sem við gefum öllum að smakka af. Forréttir og eftirréttir eru breytilegir og við sleppum okkur kannski aðeins í þeim, en annars eru tileinkunnarorð okkar fyrir erlenda ferðamenn; Local food – Local beer – Local art. En húsið er fullt af fallegri list, utan sem innan. Kristján er mikill listamaður sem og tengdapabbi hans Nói, en þeir eiga mikið af verkum hérna sem og aðrir norðlenskir listamenn.
Þú varst eigandi og yfirmatreiðslumaður á 1862, veitingastaðnum í Hofi, ertu hættur þar?
Jaaaa, ég er búinn að skipta um vinnu a.m.k., ég varð fyrir því óláni að lenda í mjög alvarlegu slysi fyrir rúmu ári síðan sem ég er enn að eiga í og er því miður enginn maður í að standa kokkavaktina, og óvíst hvenær það verður aftur – ef einhvern tímann. Það er valinn maður í hverju rúmi í Hofi og ég skil við það verkefni með eftirsjá, því að ég byggði þar upp með félögum mínum góðan og mikinn rekstur úr engu. Ég á ennþá minn hlut í því fyrirtæki og svo sem ekki fyrirsjáanleg breyting á því. En það gengur vel og afar skemmtilegt að sjá árangur af vinnu sinni. Nú er ég kominn í nýtt spennandi verkefni og helli mér 120% í það, eða a.m.k. eins og ég hef heilsu til.
Þú hefur verið að gera sjónvarpsþættina Matur og menning á N4. Ertu ennþá í því?
Já það er verkefni sem mér var boðið að taka að mér, og á þeim tíma var ég ekki mikill bógur eftir að hafa verið rúmliggjandi í nokkra mánuði og í hjólastól í framhaldi af því. En ég lét samt slag standa og hellti mér í dagskrárgerð á hækjunum, sem endaði í 22 þáttum af frábæru matartengdu sjónvarpsefni. Okkur langar svo að gera a.m.k. eina seríu enn og fara þá meira útá land og hitta skemmtilegt fólk. Þættirnir mældust með frábært áhorf hjá Capacent gallup yfir allt landið. Starfsfólk N4 er að öllu leyti frábært og drifkrafturinn þar gaf mér mikið þegar ég var að berjast við að halda bæði líkamlegri og andlegri heilsu eftir slysið. En ég held að Sverrir vinur minn losni ekki við mig af skjánum alveg strax ?
Hér er upprifjunar þáttur Matar og menningar:
Nú er samkeppnin sífellt að aukast á Akureyri, ertu ekkert banginn við hana?
Nei, hér eru margir frábærir veitingastaðir og held ég að fólk finni hvergi jafngóða flóru af veitingastöðum í 18 þús. manna bæjarfélagi eins og á Akureyri. Hér, eins og annarsstaðar, er mikil aukning ferðamanna og því teljum við gott pláss fyrir okkur. Við teljum okkur vera að gera eitthvað annað en hinir, og þannig ætlum við að byggja upp okkar viðskipti. Ferskur fiskur úr firðinum sem þú horfir á útum gluggann hjá okkur, eldaður með virðingu og varkárni getur ekki klikkað. Trip advisor comment hafa gefið okkur mikinn vind í seglin og greinilegt að ferðamenn nota þann vef mikið. Við teljum að góðir veitingastaðir geti bara hafið hvern annan upp og er það skylda okkar veitingamanna að virða hvorn annan, stækka markaðinn sameiginlega frekar en að vera í einhverjum smákóngaleik.
Myndir: af facebook síðunni Örkinni hans Nóa.
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun4 dagar síðan
Glæsilegt Þorrablót Íslendinga á Gran Canaria – Kristján Frederiksen matreiðslmeistari fór á kostum – Myndir
-
Bocuse d´Or5 dagar síðan
Frakkar sigruðu Bocuse d’Or 2025 – Sindri Guðbrandur í 8. sæti
-
Starfsmannavelta3 dagar síðan
Snædís Xyza Mae Jónsdóttir ráðin yfirmatreiðslumeistari á Fröken Reykjavík Kitchen & Bar
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun1 dagur síðan
Lúxus á útsölu – Fairmont Grand Hotel selur innanstokksmuni fyrir breytingar – Talið vera stærsta uppboð sinnar tegundar í Evrópu
-
Keppni2 dagar síðan
Ashley Marriot vann Barlady keppnina á Íslandi – Myndir
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel22 klukkustundir síðan
Kaffipressan kaupir Kaffistofuna – styrkir sérkaffimenningu á Íslandi
-
Vín, drykkir og keppni2 dagar síðan
Er Guinness 0 algjörlega áfengislaus?
-
Markaðurinn2 dagar síðan
Ómótstæðileg Grísa baby rif á góðum afslætti