Markaðurinn
Von um bjartari tíma
Óhætt er að segja að skammt hafi verið stórra högga á milli á árinu sem nú er að líða undir lok. Fyrir sléttu ári hafði þjóðinni tekist að kveða aðra bylgju kórónaveirufaraldursins í kútinn og beið í ofvæni eftir fréttum af bóluefnum og því hvenær hægt yrði að kveðja þennan vágest.
Smit voru tiltölulega fá fyrri part ársins og allar takmarkanir á samkomum voru felldar úr gildi undir lok júní. Í því fólst meðal annars fullt afnám grímuskyldu, nándarreglu og fjöldatakmarkana. Landið tók að rísa hratt og vonarneisti kviknaði hjá veitingamönnum og öðrum sem reiða sig á óheft ferðalög og samkomur. Fljótt varð skortur á fagmenntuðu fólki í okkar greinum.
Þegar leið á sumarið hafði tekist að fullbólusetja stærstan hluta fullorðinna. Það voru þess vegna gífurleg vonbrigði þegar þriðja bylgja faraldursins reis eins og þverhnípt fjall úr lygnum sæ, seinnipart júlí. Nýfengnar væntingar um líf án takmarkana runnu út í sandinn og kunnuglegar reglugerðir um hömlur á samkomum litu dagsins ljós. Þær bitnuðu illa á veitingamönnum, sem fyrr. Þriðju bylgjunni var vart lokið þegar sú fjórða lét á sér kræla. Við sjáum enn ekki fyrir endann á henni.
Mikil eftirspurn eftir okkar fólki
Þær miklu sveiflur sem einkennt hafa árið hafa varpað ljósi á að brýn þörf er á að fjölga fagmenntuðu fólki í veitingagreinum. Þegar ferðaþjónustan nær sér á strik á nýjan leik mun skortur á faglærðu fólki í okkar greinum verða áþreifanlegri, eins og reynslan frá því í sumar kenndi okkur.
Þessari staðreynd er brýnt að halda að ungu fólki, enda eru óvíða betri atvinnumöguleikar að námi loknu – eða samhliða námi – en í veitingagreinum. Það verður ekki annað sagt en að framtíð þeirra sem kjósa kjötiðn, matreiðslu, bakstur og framreiðslu, sé björt. Margir staðir gætu þegar í stað tekið við nemum á samning.
Samstarf eflt á Stórhöfðanum
Samvinna iðnfélaganna á Stórhöfða 29-31, eða 2F, er sífellt að taka á sig skýrari mynd. Nýlega undirritaði MATVÍS uppfærðan samstarfssamning við hin félögin en markmiðið með honum er að þétta raðirnar enn betur og samnýta krafta okkar og reynslu í þágu félagsmanna.
Elmar Hallgríms Hallgrímsson, sem áður stýrði Samiðn, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri 2F. Ráðning hans undirstrikar þann metnað félaganna að efla samstarfið og styrkja félögin sem eina heild. Elmar mun hafa það hlutverk að leita leiða til frekari samvinnu, okkur öllum til heilla.
Við hjá MATVÍS höfum lagt á það áherslu að undanförnu að auka hlut rafrænna lausna í starfi okkar. Allar umsóknir eru nú fylltar inn á rafrænu formi auk þess sem rafræn upplýsingagjöf félagsins hefur verið stórefld á því ári sem nú er að líða. Við tókum fyrir ári síðan í gagnið nýja heimasíðu og höfum nýtt hana til að flytja tíðari fréttir af starfi félagsins og öðru því sem snertir félagsmenn.
Undirbúningur kjarasamninga
Nýtt ár hefst á kjarasamningsbundnum launahækkunum. Taxtar hækka um áramótin um 25 þúsund krónur á mánuði. Almenn hækkun launa verður 17.250 krónur. Að því búnu hefst undirbúningur vegna næstu kjarasamninga, en samningar verða lausir 1. nóvember næstkomandi.
Ný ríkisstjórn kveður í sáttmála sínum á um að styrkja þurfi hlutverk ríkissáttasemjara og stuðla að bættum vinnubrögðum og aukinni skilvirkni við gerð kjarasamninga, að höfðu samráði við aðila vinnumarkaðarins. Þó að sporin hræði þá er það einlæg von okkar að samningar við viðsemjendur okkar dragist ekki á langinn.
MATVÍS lagði kjarakönnun nýlega fyrir félagsmenn. Helstu niðurstöður hennar verða birtar hér á síðunni um leið og þær liggja fyrir. Svör félagsmanna munu reynast félaginu dýrmætur efniviður í þeirri vinnu sem fram undan er við undirbúning kjarasamninga.
Færri veikjast alvarlega
Kórónuveirufaraldurinn hefur eins og áður segir sett stórt strik í reikning flestra þeirra sem starfa í veitingageiranum. Af því hafa meðlimir MATVÍS ekki farið varhluta. Félagsmenn okkar hafa hins vegar sýnt það í gegn um þennan fordæmalausa tíma að þeir eru bæði úrræðagóðir og fljótir að bregðast við krefjandi aðstæðum. Á þá mannkosti mun sjálfsagt reyna áfram.
Þó að bólusetningar sumarsins hafi ekki komið í veg fyrir nýjar bylgjur smita, þá hefur hlutfallslega mjög dregið úr dauðsföllum og alvarlegum veikindum. Hjá því verður heldur ekki litið að vísindamenn eru sammála um að þriðja sprautan – örvunarskammturinn – sé í reynd afar öflug vörn gegn veirunni. Vonandi tekst okkur sem þjóð að vinna okkur út úr þessari stóru bylgju smita sem fyrst. Samstillt átak þarf enn og aftur til svo við getum aflétt takmörkunum. Öll él styttir upp um síðir.
MATVÍS færir félagsmönnum og landsmönnum öllum bestu kveðjur um gleðileg jól og farsæld á komandi ári.
Óskar Hafnfjörð Gunnarsson
formaður MATVÍS
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun3 dagar síðan
Ný vefbók fyrir matvælakennslu og áhugafólk um matreiðslu – Þér er boðið í útgáfupartý
-
Markaðurinn5 dagar síðan
Koffmann er loksins fáanlegt á Íslandi
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel4 dagar síðan
Matargestir ferðast aftur í tímann til villta vestursins – Myndir og vídeó
-
Vín, drykkir og keppni4 dagar síðan
Fyrsti viðburður ársins hjá Kampavínsfjelaginu – 6 rétta matseðill með kampavíns pörun
-
Keppni15 klukkustundir síðan
Ertu lærður matreiðslumaður eða matreiðslunemi og langar til að komast í ungkokkalandsliðið?
-
Markaðurinn2 dagar síðan
Uppskrift – Poke skál með kjúklingi og salatosti
-
Keppni4 dagar síðan
Graham’s Blend Series Kokteil keppni 2025
-
Frétt5 dagar síðan
Óhæfar saxaðar döðlur til neyslu