Vertu memm

Bocuse d´Or

Viðtal: Friðgeir Ingi er næsti Íslenski kandídat í Bocuse d´Or 2007

Birting:

þann

Friðgeir Ingi Eiríksson

Friðgeir Ingi Eiríksson

Friðgeir Ingi er næsti Íslenski Candidate í hinni virtu keppni Bocuse d´Or 2007 sem verður haldin dagana 23-24 janúar næstkomandi í bænum Lyon í Frakklandi. Friðgeir er fæddur 16 nóvember árið 1978 og lærði hann fræðin sín á Hótel Holti árin 1997 – 2001.

Philippe Girardon er einn af þjálfurum Friðgeirs en hann hefur þjálfað alla bocuse d´Or canditata Íslands.

Freisting.is hafði samband við kappann og lagði fyrir hann nokkrar spurningar um undirbúningin fyrir keppnina ofl.

Hvenær hófst undirbúningurinn fyrir Bocuse d´Or 2007?
Eftir keppnina árið 2005 var ég staðráðinn í því að reyna að komast næst og þá hófst undirbúningurinn að einhverju leyti. Síðan þegar ég var valinn sem keppandi fyrir Ísland og fyrir hönd Klúbbs Matreiðslumeistara þá byrjaði undirbúningurinn af meiri alvöru.
Strax í janúar 2006 byrjaði undirbúningurinn á fullu. Það þarf að undirbúa á öllum vígstöðum, þ.e.a.s. aðstæður, t.d. vinnustað því það eru ekki allir vinnuveitendur tilbúnir í að veita manni frí til þess að fara í eitthvað svona.

Það er mjög mikilvægt að hafa góða aðstoðarmenn en ég er með tvo rosalega vel upp alda stráka, Viktor Örn Andrésson og Halldór Einir Guðbjartsson en við Viktor höfum verið að vinna saman hérna úti í rúmt ár.

Síðan þarf að undirbúa sig í hausnum og vera tilbúin andlega og líkamlega.
Fyrri partur ársins fer mestmegnis í að þróa hugmyndir og finna “contacta” fyrir hitt og þetta og síðan síðustu þrjá mánuði fyrir keppni eru stífar æfingar í eldhúsinu.

Hvað ertu núna að taka margar æfingar, til að mynda á viku?
Við æfum 5 daga í viku en í desember og janúar eykst það eitthvað en við reiknum með að ná 9 dögum í viku í janúar 😉

Hvar fara æfingarnar fram?
Á vinnustað mínum, Domaine de clairefontaine í Frakklandi þar sem ég hef unnið sl. 4 ár hjá Philippe Girardon. En eldhúsið mitt er á öðru hóteli sem Philippe og fjölskylda eiga einnig, en þar er lokað núna svo að ég hef það til umráða eins og ég vil og þess má geta að það er einungis 10m frá íbúðinni minni.

Er fjölskyldan stödd hjá þér í Frakklandi?
Já við höfum búið í Frakklandi síðustu 4 ár og fæddist sonur okkar hérna úti.

Er aðstoðarfólk þitt með í öllum æfingum?
Já Viktor Örn Andrésson og Halldór Einir Guðbjartsson og Julie Björk Gunnarsdóttir

Hvernig fjármagnar þú fyrir keppnina, þ.e.a.s. laun, hráefniskostnað, ferðakostnað osfr.?
Það eru ýmsir styrktaraðilar sem standa að baki, en þar sem ég fer fyrir hönd Klúbbs matreiðslumeistara hugsa þeir að sjálfsögðu vel um mig.

Hvers vegna valdirðu Tónaflóð við endurhönnun á heimasíðunni þinni?
Það var Freistingarmeðlimur sem benti mér á það að Smári og kona hans væru með vefsíðufyrirtæki og þar sem að Smári hefur séð um Freistingarsíðuna leist mér vel á það. Enda er síðan stórglæsileg! Ég veit hvert ég get leitað í framtíðinni í sambandi við hönnun á heimasíðum eða annað.

Áttu einhverjar fyrirmyndir úr íslensku og erlendu matargerðarmenningunni?
Mínar fyrirmyndir úr geiranum á Íslandi er að sjálfsögðu þeir yfirkokkar sem voru yfirmenn mínir á námstímanum á Hótel Holti; Hallgrímur Þorláksson, Hákon Már Örvarsson og Ragnar Ómarsson. Þeir lögðu grunninn að því sem ég kann í dag.

Þar sem Hákon og Raggi hafa báðir farið í Bocuse d´Or leita ég ráða hjá þeim og að sjálfsögðu Sturlu Birgissonar sem er minn annar þjálfari fyrir keppnina.
Ég hef komist langt á því sem ég lærði á Hótel Holti hér í Frakklandi en ég hef unnið hér í rúmlega 4 ár undir sama lærimeistaranum,  Philippe Girardon sem einnig mín fyrirmynd.

Hvernig hafa æfingarnar gengið fram að þessu?
Okkur miðar jafnt og þétt áfram með hverri æfingu en við eigum langt í land, en erum einnig langt á veg komnir.

Auglýsingapláss

Er einhver í keppninni sem þú telur sigurstranglegan, þ.e.a.s. fyrir utan þig.
Maður fær allar fréttir beint í æð hérna úti, þ.e.a.s. hverjir eru að æfa hvar og annað. En ég reikna með Frakklandi, Noregi, Danmörk, Svíðþjóð verði við toppinn eins og vanalega en hins vegar reikna ég með að Japan og USA eiga eftir að verða mun ofar en venjulega og jafnvel í toppsæti. – en maður veit aldrei.

Núna stendur m.a. Hótel Holt að baki þér, en er það ekki rétt skilið hjá mér að allir Íslensku canditatarnir fyrir utan Sturlu Birgis. hafi unnið hjá Hótel Holti sem einnig stóð að baki á þeim?
Ég er fimmti keppandi sem fer fyrir Íslands hönd í keppnina og sá þriðji sem kemur frá Hótel Holti. Ég lærði á Hótel Holti undir stjórn þriggja yfirkokka, Hallgríms Þorlákssonar, Hákons Má Örvarssonar og Ragnars Ómarsonar. Hákon og Raggi eru báðir búnir að keppa í Bocuse d´or og kepptu þeir báðir sem matreiðslumenn frá Hótel Holti. Holtið stendur við bakið á mér en ég keppi þó ekki sem kokkur frá þeim, þar sem ég er í vinnu í Frakklandi.

Ég stend samt sem áður í mikilli þakkarskuld við Hótel Holt þar sem ég lærði mannganginn í þeim húsum og fékk tækifæri til þess að vinna með frábærum matreiðslumönnum.

Núna stendur yfir undirbúningur hjá Klúbbi Matreiðslumanna að sælkeraferð til Lyon á sjálfa keppnina og þar koma örugglega margir stuðningsmenn úr þeim hópi til með að sitja uppí áhorfenda stúkunni.  En fyrir þá sem ekki vita, þá er hægt að líkja stemmningunni í stúkunni við ekta heimsmeistarakeppni í fótbolta, því  að fagnaðarhrópin eru slík á meðan keppnin stendur yfir að sjaldan heyrir maður annað eins.  Eru einhver skilaboð sem þú vilt koma á framfæri til þinna stuðningsmanna?
það er víkingaþema hjá okkur að þessu sinni og óskum við þess að hafa brjálaða víkinga okkur til stuðnings í keppninni.

Það hefur rosalega mikla þýðingu fyrir landið að vera með í þessari keppni og þetta er svakalega mikil landkynning. Ég hef orðið var við það hérna í Frakklandi og ekki skemmir það að Ísland hefur náð góðum árangri í keppninni og er ég því mjög stoltur að því að fá að fara fyrir hönd Íslands á vegum Klúbbs Matreiðslumeistara.

Hvað er framhaldið hjá þér eftir Bocuse d´Or?
Ég verð eitthvað áfram á Domaine de Clairfontaine en annars er framtíðin óákveðin.

Heimasíða Friðgeirs: www.fridgeir.is

Freisting.is þakkar Friðgeiri fyrir viðtalið og óskar honum um leið velfarnaðar í Bocuse d´Or 2007.

Freisting.is kemur til með að fylgjast vel með kappanum og færa ykkur fréttir af undirbúningnum og í sjálfri keppninni. Sjá nánar hér.

Mynd: galleryrestaurant.is

Smári er matreiðslumaður að mennt, en hann hefur starfað við fagið til fjölda ára, bæði sem starfsmaður og rekstraraðili. Hægt er að hafa samband við Smára á netfangið [email protected] Skoða allar greinar höfundar hér >>

Podcast / Hlaðvarp

Auglýsingapláss

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið