Vertu memm

Frétt

Tveir veitingastaðir loka daglega í Bretlandi árið 2025

Birting:

þann

Restaurant - Veitingastaður

Mynd úr safni. Þó veitingastaðurinn á myndinni sé ekki meðal þeirra sem hafa lokað, dregur hún upp þá mynd sem nú hverfur smám saman úr bresku mannlífi.

Veitinga- og vínmenning Bretlands heldur áfram að dragast saman. Samkvæmt nýrri skýrslu frá CGA by NIQ og AlixPartners hafa að meðaltali tveir staðir lokað á dag það sem af er ári. Á fyrstu sex mánuðum ársins hefur stöðum fækkað um 374, sem jafngildir 62 lokunum á hverjum mánuði.

Í fréttatilkynningu frá NIQ kemur fram að í lok júní voru skráðir 98.746 staðir í rekstri. Sé miðað við stöðuna í mars 2020, rétt áður en heimsfaraldurinn skall á, hefur markaðurinn dregist saman um 14 prósent. Samtals hefur yfir 16.000 stöðum verið lokað á fimm árum.

Pöbbar þrauka, en matsölustöðum fækkar

Sérstaklega hefur dregið úr rekstri staða þar sem matur er í forgrunni. Slíkum stöðum hefur fækkað um 2,9 prósent á síðustu tólf mánuðum. Pöbbar sýna hins vegar meiri stöðugleika og jafnvel örlítið vöxt, samkvæmt greiningu CGA.

Þá kemur fram að sjálfstæð fyrirtæki og minni aðilar standi höllum fæti. Veitingakeðjur og stærri fyrirtæki virðast búa yfir betri mótstöðu, ekki síst þar sem umfang og aðgangur að fjármagni gerir þeim kleift að mæta auknum kostnaði.

Skattar og launakostnaður grafa undan rekstrargrundvelli

Frá og með apríl hafa nýjar reglur um hærri lágmarkslaun og aukin tryggingargjöld tekið gildi í Bretlandi. Samkvæmt skýrsluhöfundum hefur þetta þegar haft veruleg áhrif á afkomu margra staða. Launakostnaður hefur hækkað töluvert, og margir minni aðilar standa frammi fyrir erfiðum ákvörðunum um framtíð rekstursins.

Samtök veitinga- og ferðaþjónustu, UK Hospitality og fleiri, hafa ítrekað kallað eftir aðgerðum stjórnvalda. Meðal þess sem lagt er til er lækkun virðisaukaskatts á veitingarekstur, endurskoðun á fasteignagjöldum og stuðningur við nýsköpun og sjálfbærni í greininni.

Á meðan samdráttur mælist í flestum borgum landsins, er Manchester sú eina af stærri borgunum sem skilar raunverulegri fjölgun staða frá mars til júní. Þar hafa bæði nýjar keðjur og sjálfstæðir aðilar opnað staði, og margir rekja það til sterkrar stefnumótunar í borginni sem styður við blómlegt mannlíf og matarmenningu.

Smári er matreiðslumaður að mennt, en hann hefur starfað við fagið til fjölda ára, bæði sem starfsmaður og rekstraraðili. Hægt er að hafa samband við Smára á netfangið [email protected] Skoða allar greinar höfundar hér >>

Vínkjallarinn

Auglýsingapláss

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið