Viðtöl, örfréttir & frumraun
Slippurinn lokar eftir 14 áhrifarík sumur: „Ekki bara vinnustaður – heldur miðpunktur í okkar lífi“
Einn áhrifamesti veitingastaður landsins síðustu ár, Slippurinn í Vestmannaeyjum, mun hefja sitt fjórtánda og jafnframt síðasta starfsár miðvikudaginn 21. maí. Þetta markar lok tímabils sem hefur haft djúpstæð áhrif á íslenska matarmenningu, þar sem fjölskyldurekinn metnaður, frumkvæði og nán tengsl við náttúru og hráefni hafa verið í forgrunni frá sumrinu 2012.

F.v. Indíana Auðunsdóttir, Katrín Gísladóttir, Auðunn Arnar Stefnisson og Gísli Matthías Auðunsson
Mynd: Gunnar Freyr Gunnarsson
Slippurinn var stofnaður af þeim Katrínu Gísladóttur og Auðunni Arnari Stefnissyni ásamt börnum þeirra, matreiðslumeistaranum Gísla Matthíasi Auðunssyni og Indíönu Auðunsdóttur. Fjölskyldan breytti gömlu og niðurníddu vélaverkstæði í líflegt og fallegt rými, þar sem matargerð, sköpun og samvera mættust á áhrifamikinn hátt, allt án utanaðkomandi fjármagns.
„Slippurinn hefur mótað okkur meira en við gátum ímyndað okkur þegar við hófum þetta verkefni. Hann varð ekki bara vinnustaður, heldur miðpunktur í okkar lífi og skapandi rými sem við deildum með gestum og starfsfólki,“ segir Gísli Matt.
„Þetta hefur verið ótrúlegur skóli í samvinnu, fagmennsku og tengingu við umhverfið.“
Slippurinn varð fljótt þekktur fyrir einstakan matseðil sem byggði á hráefnum úr nærsamfélaginu og árstíðabundinni sýn á íslenskan mat. Hann hefur ekki einungis haft djúp áhrif á matarmenningu hér á landi heldur einnig vakið athygli á alþjóðavettvangi með umfjöllunum í virtum miðlum á borð við The New York Times, BBC, Vogue og The Wall Street Journal.
Þekkingarsetur fyrir fagfólk í veitingageiranum
Í gegnum tíðina hafa um 200 einstaklingar starfað á Slippnum, allt frá kokkum og þjónustufólki til nemenda og ræstitækna. Margir hafa haldið áfram ferli sínum innan veitingageirans með verðmæta reynslu og menningu Slippsins í farteskinu.
„Við höfum reynt að skapa rými þar sem fólk getur vaxið og lært, og vonandi tekið eitthvað með sér áfram. Við trúum því að matargerð byggist á samvinnu og virðingu fyrir efninu og fólkinu,“ segir Gísli.
Síðasta tækifærið til að heimsækja Slippinn
Veitingastaðurinn verður opinn miðvikudaga til sunnudaga kl. 17:00 fram til 13. september. Lokakvöldið verður auglýst síðar, en undirbúningur þess stendur þegar yfir. Slippurinn mun í sumar einnig taka á móti hópum, hvort sem um ræðir starfsmannaferðir, árshátíðir eða aðrar uppákomur þar sem tilefni gefst til að fagna eða kveðja.
„Ef veitingafólk vill koma með sitt teymi, þá finnum við lausn. Þetta sumar er einstakt fyrir okkur, og við viljum deila því með fólki sem skilur hvað það er að reka veitingastað af heilindum,“ segir Gísli. „Það væri okkur virkilega ánægjulegt að fá gesti úr bransanum í heimsókn í síðasta sinn.“
Arfleifð Slippsins lifir áfram
Þó Slippurinn ljúki starfsemi sinni í núverandi mynd, er arfleifð hans djúp. Verkefnið hefur lagt grunn að nýjum viðmiðum um fagmennsku, virðingu fyrir hráefni og tengingu við samfélagið. Í myndbandi sem gefið var út í fyrra, og nú deilt að nýju í tilefni síðasta sumarsins, má skyggnast inn í þessa sögu sem spannar þrettán sumur.
Horfa á myndband Slippsins – „Lokasumarið 2025“
Þær eru ófáar fréttirnar sem hafa verið skrifaðar um Slippinn hér á veitingageirinn.is, sjá fréttayfirlit hér.
– Myndir: Karl Petersson
– Slippurinn opinn miðvikudaga til sunnudaga kl. 17:00 fram til 13. september
– Bókanir og hópauppýsingar: www.slippurinn.com
-
Bocuse d´Or4 dagar síðanSnædís keppir í Bocuse d´Or í stað Hinriks
-
Keppni4 dagar síðanÍslenskir og hollenskir veitingastaðir í úrslitum á National Fish & Chip Awards 2026
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel3 dagar síðanBrasa tekur á móti fyrstu gestum í Smáratorgi. Sjáðu stemninguna frá opnunarpartýinu
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun20 klukkustundir síðanVendoro einfaldar pantanir og samskipti í veitingageiranum: Árni Þór Árnason matreiðslumaður segir frá þróun appsins
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun3 dagar síðanSmassaður jólaborgari með purusteik og camembert sló í gegn – Myndir
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun5 dagar síðanTom Kerridge stígur til hliðar frá Pub in the Park
-
Markaðurinn4 dagar síðanParmaskinka á 50% afslætti hjá Stórkaup
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun5 dagar síðanUppselt á hátíðarkvöldverð Klúbbs matreiðslumeistara í Hörpu










