Vertu memm

Frétt

Skyr er enn vinsæll matur – Óskað er eftir viðmælendum sem hafa reynslu af því að búa til skyr

Birting:

þann

Skyr er enn vinsæll matur - Óskað er eftir viðmælendum sem hafa reynslu af því að búa til skyr

Skyr er hefbundin íslensk afurð sem að öllum líkindum hefur verið gerð á Íslandi frá landnámi en mjólkurafurð undir þessu sama heiti var þá þekkt á öllum Norðurlöndunum. Skyrgerð virðist þó eingöngu hafa varðveist á Íslandi.

Skyr var matur fátæka mannsins

Skyrgerð var leið til að varðveita mjólk og hámarka fæðugildi en skyrið var mikilvæg grunnfæða sem hjálpaði Íslendingum að lifa af. Áður fyrr þótti smjör vera úrvalsfæða en skyrið vera matur fátæka mannsins.

Nú vitum við að vegna mikils próteininnihalds í skyri hafi það sannarlega verið hjálpræði fátækari heimila og gefið þá orku sem þurfti til daglegrar vinnu.

Skyr er enn vinsæll matur

Skyr er búið til úr undanrennu sem verður eftir þegar rjóminn er skilinn frá mjólkinni til smjörgerðar. Skyr er enn vinsæll matur og um aldir var það langalgengasta mjólkurvaran á Íslandi ásamt smjöri og mysu.

Líklega hefur skyrið á landnámsöld verið ólíkt því sem við þekkjum í dag, bæði súrara og þynnra. Mikil breyting hefur orðið á framleiðslu skyrs á síðustu öld með tilkomu verksmiðjuframleiðslu þess. Skyr er mikilvægur hluti af menningararfi okkar Íslendinga og því nauðsynlegt að öðlast meiri þekkingu á þessari afurð.

Rannsókn á íslensku skyri

Nýverið hófu Matís og Háskóli Íslands rannsókn á íslensku skyri sem líffræðilegum menningararfi. Rannsóknin leiðir saman bændur, þjóðfræðinga, mjólkufræðinga, matvælafræðinga og líffræðinga og beinir sjónum að samvinnu tegundanna sem koma að því að búa til skyrið: menn, húsdýr og örverur.

Lifandi skyrgerlar eru gott dæmi um hvernig samlífi örvera og manna í gegnum aldirnar hefur stuðlað að fjölbreyttri örveruflóru í skyri og í þörmum Íslendinga. Í verkefninu verður þessi fjölbreytileiki rannsakaður og stefnt að því að endurskapa afbrigði af skyri sem samsvara bragði og áferð fyrri tíma út frá minningum landsmanna um skyr og reynslu bænda og mjólkurfræðinga af skyrgerð. Markmiðið er að dýpka skilning á fjölbreytileika og seiglu líffræðilegs menningararfs með því að skoða margbreytileika og umbreytingu skyrs í gegnum tíðina.

Óskað er eftir viðmælendum

Óskað er eftir viðmælendum sem hafa reynslu af því að búa til skyr bæði fyrr og nú og viðmælendum sem hafa borðað skyr í marga áratugi og geta sagt frá skyri frá fyrri tíð og breytingum sem þeir hafa upplifað.

Þau sem hafa áhuga á að taka þátt í rannsókninni eru vinsamlegast beðin að hafa samband við Jón Þór Pétursson þjóðfræðing eða Þóru Valsdóttur matvælafræðing á netfangið [email protected] eða í síma 853-5118.

Sjá nánar um verkefnið á www.matis.is.

Mynd: matis.is

Smári er matreiðslumaður að mennt, en hann hefur starfað við fagið til fjölda ára, bæði sem starfsmaður og rekstraraðili. Hægt er að hafa samband við Smára á netfangið [email protected] Skoða allar greinar höfundar hér >>

Podcast / Hlaðvarp

Auglýsingapláss

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið