Vertu memm

Vín, drykkir og keppni

Santa Cristina – 2004 árgangurinn sá besti frá upphafi?

Birting:

þann

Undanfarin ár hafa verið hagstæð ítalskri víngerð ef undan er skilið hið erfiða ár 2002. Vínáhugamenn bíða spenntir eftir því hvernig uppskera síðasta hausts kemur út en veðurfar var einkar hagstætt. Árin á undan, 2003 og 2004, voru mjög góð á Ítalíu eins og fram kemur í annarri grein hér á opnunni um vín frá Suður-Ítalíu. Misjafnt er eftir vínum og svæðum hvernig útkoman var en hún var oftast mjög góð og í sumum tilfellum framúrskarandi. Sem dæmi má nefna að 2004-árgangurinn af hinu kunna borðvíni Santa Cristina þykir einn sá besti frá upphafi. Til dæmis var vínið valið vín vikunnar í Wine Spectator og fékk hæstu einkunn fyrir verð og gæði í biblíu ítalskra vína, Gambero Rosso.

Fá rauðvín hafa verið jafn lengi fáanleg á Íslandi og Santa Cristina. Það hefur áratugum saman verið mest selda vínið frá Toskana hérlendis. Vínið hefur tekið miklum breytingum í áranna rás og er eitt besta dæmið um hve þróunin í ítalskri víngerð hefur verið mikil en þar hefur Antinori greifi verið brautryðjandi. Hann breytti víninu á níunda áratugnum, tók það úr tágaflöskunni og gerði það þéttara og kraftmeira. Síðar hóf hann að blanda merlot-þrúgunni við hina klassísku sangiovese-þrúgu til að gera vínið mýkra og meira aðlaðandi. Þessar breytingar hafa viðhaldið vinsældum Santa Cristina og hefur það hlotið fjölmörg verðlaun og nánast verið áskrifandi að titlinum „bestu kaup“ í ítölskum vínum. Vín sem hentar með grillinu og með flestum pastaréttum þar sem kjöt kemur við sögu. Einnig hentar það með fiskréttum ef vínið er aðeins kælt.

Antinori-fjölskyldan hefur ræktað vín óslitið í sex aldir. Útflutningur var hins vegar lítill er Piero Antinori tók við en hann hefur gert fyrirtækið að alþjóðlegu stórveldi á sviði vínframleiðslu. Undanfarin ár hefur framganga dætranna Allegra, Albiera og Alessia vakið mikla athygli en þær hafa sýnt mikla hæfileika í víngerð.

Verð í Vínbúðum 1.090 kr.
Fæst einnig í hálfflöskum á 590 kr.

Vísir.is greindi frá.

Heiðar Birnir Kristjánsson

Viltu birta grein á Veitingageirinn.is? Sendu okkur póst [email protected]. Með pistlinum þarf að fylgja nafn höfundar, titill og mynd.

Podcast / Hlaðvarp

Auglýsingapláss

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið