Vertu memm

Pistlar

Priorat: hitt hágæðavínhéraðið á Spáni

Birting:

þann

Vínhéraðið Priorat er eitt tveggja héraða með hæsta gæðastaðal

Í um 150 kílómetra fjarlægð frá Barselóna er að finna hrópandi þversögn við borgina, vínhéraðið Priorat. Seinfarnir sveitavegir hlykkjast um landslag sem er rammað inn af háum fjöllum og klettum, og það sem meira er, þar er hljóðlátt.

Eitt tveggja héraða með hæsta gæðastaðal

Priorat er eitt af aðeins tveimur héruðum á Spáni sem hefur hæsta gæðastaðal, DOCa (DOQ á katalónsku), hitt er Rioja. Hið síðarnefnda er flestum kunnugra enda eru vín þaðan mun algengari. Vínrækt í Rioja nær yfir um 30 sinnum stærra svæði og hver vínviður þar getur gefið mun meira af sér en í Priorat, framleiðslan er þar af leiðandi margföld.  Þrátt fyrir að liggja við svipaða breiddargráðu, tilheyra sama landinu og framleiða aðallega rauðvín verða ólíkar áherslur, reglugerðir um framleiðslu og ólíkar þrúgur til þess að vín frá svæðunum svipar ekki mikið til hvors annars.

Vínhéraðið Priorat er eitt tveggja héraða með hæsta gæðastaðal

Breyttar áherslur

Priorat hefur í gegnum tíðina verið þekkt fyrir stór og mikil rauðvín, allt að því þykk, með áberandi eik og hárri alkóhólprósentu. Þetta hefur breyst með breyttum smekk neytenda, yngri vínframleiðendum og áherslu á sérstöðu héraðsins. Rauðvínin frá Priorat verða seint kölluð léttmeti, landslagið sér til þess, en það er betra jafnvægi í þeim en áður. Sýra og steinefni koma oftar en ekki fram í bragði vínsins. Þau endurspegla hæðina vínviðurinn er ræktaður í og llicorella flögubergið sem er einkennandi fyrir stóran hluta svæðisins.

Vínhéraðið Priorat er eitt tveggja héraða með hæsta gæðastaðal

Mas Doix

Minni framleiðsla, meira bragð

Vínekrurnar í Priorat liggja frá 200-700m hæð og eru flestar í bröttum hlíðum sem engin tæki geta farið um og því eru þrúgurnar yfirleitt handtýndar. Jarðvegurinn er grýttur og næringarsnauður og það rignir lítið á svæðinu sem sólin bakar á sumrin en kaldar nætur og miðjarðarhafsvindur kæla á móti.

Þetta kann að hljóma eins og ómögulegar aðstæður til að rækta nokkurn skapaðan hlut en þetta eru kjöraðstæður fyrir góð og bragðmikil vín. Vínviðurinn þarf að hafa mikið fyrir því að lifa af og að framleiða vínber. Útkoman verða fáar þrúgur en bragðmiklar, kjörvaldar fyrir gæðavín.

Erfiðar aðstæður þýða að mikil vinna er á bakvið hverja flösku, sem endurspeglast í verðinu. Það er fátt um ódýr vín frá Priorat en það er mikið um framúrskarandi framleiðslu.

Grikkir, rómverjar og munkar

Vínrækt kom til Katalóníu með grikkjum og síðar rómverjum, en fyrsta ræktun að ráði í Priorat var á vegum Chartruse munka sem stofnuðu klaustrið Scala Dei þar árið 1194. Í gegnum árin stækkaði klaustrið og munkarnir urðu svo áhrifamiklir að héraðið hefur nafn sitt frá þeim (priorat þýðir klaustur á katalónsku).  Árið 1835 voru þeir hraktir í burtu, klaustrinu að mestu rústað og heimamenn tóku við framleiðslunni.

Vínhéraðið Priorat er eitt tveggja héraða með hæsta gæðastaðal

Scala Dei

Scala Dei

Einn af þekktari framleiðendum Priorat sem átti stóran þátt í því sem má kalla endurvakningu Priorat vína og aðlögun að nútímaframleiðslu er staðsettur í þorpinu við klaustrið og ber sama nafn, Scala Dei. Rauðvínin eru flest í klassískum Priorat stíl en þar eru einnig framleidd létt og fersk hvítvín og rósavín, sem eru ekki algeng framleiðsla í héraðinu.

Víngerðin er í gömlu hlöðnu húsi og allt í kring minnir á sögulegar rætur þorpsins og vínsins.

Mas Alta

Mas Alta

Mas Alta

Mas Alta er í glæsilegu húsi í lítilli lægð á milli hæða og fjalla þar sem kyrrðin ræður ríkjum. Þar er framleitt breitt úrval af vínum frá öllum svæðum Priorat (flokkunin er svipuð og í Frakklandi, þar sem héraðinu er skipt upp í village). Framleiðslan er mjög vistvæn þó ekki sé hægt að kalla útkomuna náttúruvín.

Notast er við ger sem finnst náttúrulega á þrúgunni við gerjun vínsins, súlfítnotkun er í lágmarki og tveir mest sjarmerandi starfsmenn fyrirtækisins eru múlasnar sem ráfa um lítinn akur við hlið víngerðarinnar þegar þeir eru ekki á ferð um akrana. Flest vínin sem Mas Alta framleiða eru eilítið léttari en hefðbundinn Priorat vín og almennt er mjög gott jafnvægi á milli ávaxtar, sýru og eikar, þar sem hún til staðar.

Vínhéraðið Priorat er eitt tveggja héraða með hæsta gæðastaðal

Mas Alta vín

Vínhéraðið Priorat er eitt tveggja héraða með hæsta gæðastaðal

Mas Doix vín

Mas Doix

Mas Doix er með sína framleiðslu á hæðartoppi í húsi sem stingi ekki mikið í stúf á Íslandi, með stóra glugga og mínímalíska hönnun. Útsýnið yfir vínekrurnar og nágrannaþorp í katalónskum stíl er hins vegar allt annað. Vínin eru ekki mörg en fjölbreytt og sérstaklega skemmtilegt að smakka vín sem eru brugguð á sama hátt, úr sömu þrúgum en af vínviði sem er misgamall. Bragðið eykst eftir aldri plöntunnar sem ber færri og bragðmeiri ber eftir því sem árin líða.

Krúnudjásn framleiðslunnar er Cariñena af vínvið sem var plantað árið 1902. Vínið er mjög bragðgott og eitt af aðeins þremur vínum til að hafa titilinn Gran Vinya Clasificada, sem er hæsti gæðastimpill í Priorat, en hver verður að dæma fyrir sig hvort vínið sé virði ríflega 400 evru verðmiðans á flöskunni.

Sóley Björk Guðmundsdóttir er vínfræðingur með brennandi áhuga á mat. Hún hefur lokið WSET 2 og WSET 3 stigum hjá Wine and Spirit Education Trust auk þess að sækja fjölda námskeiða um mat og vín í Barselóna þar sem hún býr. Meðfram víngrúski starfar hún við textasmíði, býður upp á vínsmakkanir og heldur úti Instagramsíðunni: A table for one in Barcelona. Hægt er að hafa samband við Sóleyju á netfangið: [email protected]

Podcast / Hlaðvarp

Auglýsingapláss

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið