Áhugavert
Plageoles – brautryðjendur í ræktun svæðisbundinna þrúgna
Rétt norðan við Toulouse í suður Frakklandi lúrir vínframleiðslusvæðið Gaillac sem með hæðóttu landslagi og hlykkjandi fljótum hefur fengið viðurnefnið Toscana Frakklands. Vínin þaðan eru lítt þekkt í dag en vel þess virði að kynna sér. Þau eru ekki bara áhugaverð, það er hægt að finna gæðavín á mjög góðu verði.
Gaillac á sér langa sögu og er talið vera eitt af elstu vínhéruðum Frakklands utan miðjarðarhafsins. Það var í miklum hávegum haft á öldum áður og vín þaðan eftirsótt bæði í Hollandi og Englandi, þar til Bordeaux vínin tóku að mestu yfir þann markað. Í kjölfarið keyptu Bordeaux vínframleiðendur upp mikið af framleiðslunni í Gaillac til að styrkja bragð sinna vína, en heitara loftslagið í Gaillac og fjarlægðin frá sjónum gerir aðstæður til vínræktunar auðveldari en í Bordeaux.
Margt hefur breyst á síðustu áratugum, áherslan á þrúgur frá svæðinu og sérstöðu þess hefur stóraukist og vínin breyst og batnað eftir því. Þetta er að meðal annars vínhúsinu Plageoles að þakka.
Plageoles
Plageoles vínhúsið er nú í höndum Florents Plageoles sem er sjöunda kynslóð fjölskyldunnar til að framleiða vín í Gaillac. Hann nýtur aðstoðar föður síns, Bernards, sem sýndi mér akrana og framleiðsluna þegar ég var í heimsókn nú í sumar.
Saga Plageoles er samofinn sögu Gaillac vínanna og þróun þeirra síðustu áratugina. Robert Plageoles afi, Florents, var brautryðjandi hvað varðar áherslu á svæðisbundna sérstæðu Gaillac vína. Hann sá fyrir sér að svæðið gæti vel staðið undir eigin nafni og hóf leit að vínvið frá svæðinu. Hann leitaði heimilda í gömlum bókum, leitaði út í náttúrunni og í fræbanka í Montpellier.
Leitin skilaði fljótlega árangri og eftir því sem árin liðu bættust fleiri tegundir við. Það var þó ekki nóg að finna vínviðinn og rækta, tegundirnar þurftu viðurkenningu frá vínráði héraðsins til að selja mætti vínið undir merkjum Gaillac. Þetta er langt ferli, sem dæmi má nefna er þrúgan verdanel í innleiðingarferli núna og hefur verið það í áratug.
Vinnan skilaði tvímælalaust góðum árangri, margar þrúgnanna reyndust góðar til víngerðar og sumar höfðu burði til að gefa af sér hágæðavín. Fljótlega tóku fleiri vínhús þrúgurnar að sér og nú er stór hluti vínsins sem er selt undir merkjum Gaillac úr þrúgum frá svæðinu.
Vínin
Vínin frá Plageoles eru ekki síður þekkt fyrir gæði en söguna. Öll framleiðslan er lífræn og við gerjun er notast við ger sem er náttúrulega til staðar á þrúgunum. Grunnlínan frá þeim eru vín sem eru aðeins gerð úr einni þrúgu hvert með lágmarksaðkomu víngerðarmannsins til að ná fram sem tærustu bragði af þrúgunni sjálfri.
Vínin eru með góðu jafnvægi, fíngerð og beinskeytt ef svo má að orði komast. Bragðið af hverri þrúgu kemur greinilega fram í bland við bragðið af kalkríkum jarðveginum á hæðinni sem akrarnir þekja. Ég var hrifin af öllum vínunum sem ég smakkaði en þau sem stóðu upp úr voru úr þrúgunum ondanc og prunelaird noir (sem er foreldri mun þekktari þrúgu, malbec).
Þeir kinka einnig kolli til hefðbundinna vína sem eiga sér langa framleiðslusögu á svæðinu með sætvínum, oxuðum vínum og freyðivínum. Freyðivínin eru gerð úr mauzac þrúgunni eftir gaillac aðferðinni, sem er svipuð ancestral aðferðinni þar sem vínið er sett á flöskur áður en að það er fullgerjað. Sætvínin eru hefðbundin síðuppskeru sætvín, annars vegar úr hvítvínsþrúgum og hins vegar úr rauðvínsþrúgum.
Það sem vakti hvað mesta athygli mína var vin de voile, sem gæti ef til vill útlagst sem slörvín á íslensku, kennt við gerið sem að vex ofan á víninu og myndar hvíta blæju ofan á því. Sama ger er notað til að búa til vin jaune frá Jura og sérrí frá Spáni. Vin de voile er mjög hefðbundin framleiðsla í Gaillac og hér fær vínið að liggja 10 ár í tunnum.
Þrátt fyrir að upphafsvínið sé hvítvín og sé ekki styrkt í ferlinu þá er lokaútkoman 17%, einfaldlega vegna uppgufunar á þessum langa tíma. Þetta stóð uppúr af öllu sem ég smakkaði. Bragðið var skemmtilega flókið og með svo góðu jafnvægi að það væri auðvelt að slysast til að drekka mun meira en hollt þætti.
Plageoles eru með aðra línu sem er allt annað en hefðbundinn. Sú er undir nafninu Terroirist og lógóið segir eiginlega allt sem segja þarf. Vínin eru blöndur og koma af vínvið af akri sem samanstendur m.a. af sjaldgæfum tegundum sem fjölskyldan hefur fundið í gegnum árin. Vínin eru ögn óhefluð, ósíuð, en bragðgóð og skemmtileg að smakka, og endurspegla svæðið ekki síður en klassíska línan bara á allt annan máta.
Ræktunin
Öll framleiðsla Plageoles er lífræn með lítið af súlfítum, jafnvel engum ef vínið leyfir. Vínberin eru handtýnd, enda vínviðurinn bundinn upp í kaleik (f. calice) og henta því ekki til véltýnslu. Kaleikurinn var hefðbundinn leið til að rækta vínivið í þessum hluta Frakklands og þó flestir ræktendur hafi skipt yfir í útfærslur sem henta betur til vélavinnu hentar kaleikurinn ekki síður í nútímanum. Vínviðurinn heldur þá vel utan um þrúguna og það er auðvelt að stjórna sólskinsmagninu að henni og hentar því vel í hitnandi heimi segir Bernard.
Sjálfur hefur hann litlar áhyggjur af því að hækkandi hitastig eigi eftir að koma niður á gæðum vínanna.
“Lykilinn að því að eiga við breyttar aðstæður og hærra hitastig er fólginn í jarðveginum og vistkerfinu. Með því að leyfa öðrum plöntutegundum að vaxa á milli raða vínviðarins fæst ekki bara flóknara vistkerfi, jarðvegurinn hitnar mun minna og gefur þar af leiðandi minni hita frá sér fram eftir kvöldi.
Þetta snýst allt um að halda náttúrulegu jafnvægi. Alkahólprósentan mun hækka, nema í mauzac þrúgunni sem stoppar sjálf þegar henni finnst komið nóg, en það er nóg bragð af víninu til að standa með því.
Hitastigið eins og allt annað er hluti af terroir-inu, eða sérkenni svæðisins.”
-
Uppskriftir5 dagar síðan
Jóla gúrkur – Asíur
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel4 dagar síðan
Nýr Indverskur veitingastaður opnar í Miðbæ Selfoss
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel14 klukkustundir síðan
Nýtt veitingasvæði rís í austurenda Smáralindar – 13 nýir veitingastaðir
-
Bocuse d´Or3 dagar síðan
Sindri Guðbrandur keppir 27. janúar í Bocuse d´Or
-
Markaðurinn2 dagar síðan
Dill opnar á ný eftir breytingar – nú með nýju borðabókunarkerfi Noona
-
Keppni19 klukkustundir síðan
Matreiðslukeppni stjórnmálaflokkana í húsi Fagfélagana
-
Markaðurinn3 dagar síðan
Ristorante Pizza Margherita komin í vöruúrval Innnes
-
Markaðurinn22 klukkustundir síðan
Desemberuppbót árið 2024 – Uppbótin er kr. 106.000