Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel
Pizzabakarinn opnar á Siglufirði – Theodór Dreki: „Við hættum ekki fyrr en pizzan var fullkomin“
Í dag, 10. apríl, opnar nýr pizzastaður – Pizzabakarinn – við Aðalgötu 26 á Siglufirði. Í tilefni opnunarinnar verður boðið upp á sérstök opnunartilboð frá klukkan 18:00 til 22:00.
Fyrstu dagana verður opið frá 10. til 20. apríl. Þá verður lokað á öðrum í páskum svo starfsfólkið geti notið sín í páskafríinu. Fastur opnunartími verður svo kynntur síðar.
Gestir geta annað hvort komið í Pizzabakarann og borðað á staðnum eða tekið pizzurnar með sér. Netpantanir verða einnig í boði á næstu vikum, og verður það auglýst þegar þar að kemur.
Tvö rekstrarform undir einu þaki
Pizzabakarinn deilir húsnæði með Aðalbakaríi, sem verður opið til kl. 16:00 yfir vorið. Pizzastaðurinn opnar síðan kl. 18:00. Yfir sumarið verður bakaríið opið frá kl. 08:00 til 16:00 og Pizzabakarinn tekur svo við frá kl. 18:00 til 22:00.
Þannig geta gestir notið góðra veitinga allan daginn, frá morgni til kvölds – með dásamlegu kaffibrauði fyrir hádegi og ilmandi súrdeigspizzum um kvöldið.
Theodór og Tinna við stjórnartaumana
Rekstraraðilar Pizzabakarans eru matreiðslumaðurinn Theodór Dreki Árnason og eiginkona hans Tinna Björk Ingvarsdóttir. Theodór segir pizzuna byggja á súrdeigi sem er þróað og unnið frá grunni í bakaríinu.
„Ég fór suður og vann að deiginu með Axel Þorsteins bakara og konditor hjá Hygge. Við hættum ekki fyrr en við vorum komin með uppskrift sem smellpassar fyrir okkar stað. Mig langar að þakka Axel sérstaklega fyrir frábæra aðstoð,“
segir Theodór í samtali við Veitingageirinn.is.
„Við höfum byggt upp frábært eldhús innan bakarísins og með hækkandi sól verða fleiri spennandi breytingar. Ég verð sjálfur á staðnum að baka og fjölskyldan flytur norður í sumar þegar krakkarnir eru búin í skólanum.
Eiginkonan verður einnig í rekstrinum með mér, þannig að við höldum áfram sem fjölskyldurekstur og byggjum ofan á það sem Jakob, Elín og fjölskyldan hafa skapað með mikilli elju í gegnum árin.“
Rótgróið bakarí með nýja vídd
Aðalbakarí er rótgróið og vinsælt bakarí og kaffihús við Aðalgötu í hjarta Siglufjarðar. Það var stofnað árið 1995 af hjónunum Jakobi Erni Kárasyni og Elínu Þór Björnsdóttur og hefur notið mikilla vinsælda um land allt.
Bakaríið býður upp á nýbakað brauð, kökur, hágæða kaffi, fjölbreytt smurbrauð og hina margrómuðu sýrópsköku og ástarpunga. Vörur bakarísins eru einnig fáanlegar í verslunum Samkaupa um land allt.
Með tilkomu Pizzabakarans bætist ný vídd við þessa sögu – þar sem súrdeig, ástríða og fjölskyldugildi fara saman undir einu þaki.
Matseðil Pizzabakarans má skoða hér að neðan:
Myndir: Smári / veitingageirinn.is

-
Markaðurinn3 dagar síðan
Veitingastaður á Arnarstapa til sölu – einstakt tækifæri í töfrandi umhverfi
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel1 dagur síðan
Nýr kafli í Fiskbúð Fjallabyggðar – veitingastaður tekur við af fiskborðinu
-
Keppni3 dagar síðan
Uppfært: Brauðtertukeppni fagmanna frestað
-
Markaðurinn2 dagar síðan
Opnunartími Innnes yfir páskahátíðina
-
Starfsmannavelta4 dagar síðan
Nýr veitingastjóri á Strikinu – Elísabet Ingibjörg tekur við keflinu
-
Frétt3 dagar síðan
Hilton Nordica og Reykjavík Natura fá nýjan rekstraraðila og andlitslyftingu
-
Markaðurinn1 dagur síðan
Gabríel Kristinn – Kokkur ársins 2025 – leiðir þig í gegnum fullkomna páskamáltíð
-
Markaðurinn2 dagar síðan
Hlaðborðsvörur í úrvali hjá Bako Verslunartækni