Smári Valtýr Sæbjörnsson
Myndir frá Fiskideginum mikla
Vegagerðin gaf út tilkynningu þess efnis að yfir 33.000 manns hafi heimsótt Dalvíkurbyggð þessa þrjá daga sem hátíðin Fiskidagurinn mikli stóð yfir, þá er ótalinn allur sá fjöldi sem var kominn fyrir þann tíma. Í fréttatilkynningu segir að umferð og öll samskipti fólks gengu mjög vel, engar líkamsárásir, engin kynferðisbrotamál, engin fíkniefnamál og enginn tekinn ölvaður við akstur.
Vináttukeðjan – Fjöldaknús
Föstudaginn 5. ágúst var dagskrá í kirkjubrekkunni sem er nokkurskonar setningarathöfn fyrir Fiskidaginn mikla. Vináttukeðjan er hlý og notaleg stund þar sem að staldrað er við og hugað að vináttunni og náungakærleikanum. Þar er tónlistarflutningur og vinátturæðuna flutti forseti Íslands Guðni Th. Jóhanesson með eftirminnilegum hætti. Heimamenn færðu gestum fléttuð vináttuarmbönd, vináttufána, knúskort og í lokin var innilegt fjöldaknús til að leggja línurnar fyrir helgina og það má með sanni segja það það hafi enst út helgina.
Fiskisúpukvöldið mikla – Forsetahjónin hrifin
Á föstudagskvöldinu buðu um 120 fjölskyldur í Dalvíkurbyggð uppá fiskisúpu og vinalegheit. Hver sá sem bauð uppá súpu var með sína uppskrift. Einstaklega gott og ljúft kvöld í blíðskaparveðri. Gaman var að sjá forsetahjónin rölta um allan bæ og heimsækja allflesta súpustaði og njóta samvista við heimamenn og gesti.
Fiskidagurinn mikli – Fjölbreyttasti matseðillinn – Þór og Þyrlan
Laugardaginn 6. ágúst milli kl 11.00 og 17.00 var Fiskidagurinn mikli haldinn hátíðlegur í sextánda sinn á hafnarsvæðinu á Dalvík og einn eitt skiptið sól og blíðu. Yfir 120.000 matarskammtar runnu ljúflega ofan í gesti Fiskidagsins mikla. Matseðillinn var sá fjölbreyttasti frá upphafi. Mjög fjölbreytt dagskrá var á sviði og hátíðarsvæðinu allan daginn. Um 150 manns komu fram í frábærri og vel heppnaðri dagskrá á sviðinu og á svæðinu.
Varðskipið Þór var sérstakur gestur Fiskidagsins mikla og var skipið til sýnis og vakti mikla lukku, þyrla landhelgisgæslunnar kom óvænt í heimsókn og vakti ekki síður athygli. Fiskasýningin var á sínum stað þar sem að um 200 tegundir af ferskum fiski eru sýndir og gestir gátu séð einstakan og mjög sjaldgæfan fisk eða Kragaháf uppstoppaðan.
Ógleymanleg stund í kvöldblíðunni
Hátíðinni lauk síðan með Fiskidagstónleikum og flugeldasýningu af stærri gerðinni í boði Samherja. Boðið var uppá einstakan tónlistarviðburð. Í farabroddi voru heimamennirnir Friðrik Ómar, Matti Matt, Eyþór Ingi. Meða annara sem komu fram voru: Helena Eyjólfsdóttir, Salka Sól , Jóhanna Guðrún, KK, Laddi, Magni Ásgeirsson, Gissur Páll, Hulda Björk Garðarsdóttir, Regína Ósk, Selma Björnsdóttir, Dagur Sigurðsson, BMX brós, Karlakór Dalvíkur, Salka kvennakór frá Dalvík. Flugeldasýning Björgunarsveitarinnar á Dalvík setti lokapunktinn á einstaka fjölskylduhátíð. Aldrei hafa fleiri verið samankomnir í einu fyrir neðan kaupfélagsbakkann, mannhafið var gríðarlegt. Fólk á öllum aldri skemmti sér saman og allt fór afar vel fram og gestir til fyrirmyndar og fyrir það ber að þakka.
Fiskidagurinn mikli 2016 heiðrar
Frá upphafi hefur fiskidagurinn mikli heiðrað einstaklinga, starfsemi eða fyrirtæki sem hafa skipt sérstöku máli varðandi sjávarútveg á Dalvík, og jafnvel víðar.
Fiskidagurinn mikli 2016 heiðrar Ottó Jakobsson fyrrum sjómann og stofnanda sjávarútvegsfyrirtækja á Dalvík, en hann hefur nú komið að atvinnurekstri í sjávarútvegi á Dalvík í 45 ár.
Ottó varð ungur sjómaður, stýrimaður og skipstjóri. Hann var m.a. á síld og fór á vetrarvertíðir og kynntist þannig ýmsum hliðum sjómennsku og langri fjarveru frá fjölskyldu.
Árið 1971 stofnaði hann í félagi við Matthías Jakobsson og Ægi Þorvaldsson fyrirtækið Blika hf. Fyrsti bátur þeirra var Bliki EA 12, 20 tonn að stærð. Aflinn var til að byrja með unninn af þeim sjálfum og fjölskyldum þeirra, enda tilgangurinn einkum sá að skapa sér og sínum atvinnu heimafyrir. En fyrirtækið stækkaði fljótt, eins og gjarnan gerist hjá duglegu fólki, bátarnir urðu stærri, fiskverkunin einnig og starfsfólkinu fjölgaði.
Bliki hf. varð þátttakandi í þeirri þróun sem varð í sjávarútvegi á þessum árum. Hús og skip stækkuðu og auk bolfiskveiða var fyrirtækið í rækjuveiðum. Sífellt var brugðist við breyttum aðstæðum og nýrra leiða leitað til að tryggja vinnslunni hráefni til að treysta atvinnu hér á Dalvík. Meðal annars varð togarinn Bliki einn af þeim sem sóttu á fjarlæg mið á tíunda áratugnum eins og í Smuguna.
Já, það að treysta atvinnu á Dalvík var frá upphafi leiðarstjarna fyrirtækisins, bæði við uppbyggingu þess og síðan við sameiningu við önnur fyrirtæki í sjávarútvegi, en fyrirtækið Bliki varð við sameiningar fyrirtækja hér á svæðinu hluti af útgerð og hinni glæsilegu fiskvinnslu Samherja hér á staðnum.
Eftir að Bliki hf. varð þannig hluti af stærri heild stofnaði Ottó enn til atvinnurekstrar, bæði með með útgerð smábáta og fiskvinnslu. Þannig hefur hann haldið áfram að skapa störf hér á Dalvík.
Af þessu tilefni fékk Ottó Jakobsson afhent heiðursskjal og einnig verðlaunagrip sem hannaður er og smíðaður af Jóhannesi Hafsteinssyni hagleiksmanni úr Miðkoti.
Ljósmyndari Bjarni Eiríksson
-
Keppni3 dagar síðan
Þessir veitingastaðir og Íslendingar eru tilnefndir til BCA 2025 – Myndaveisla
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun20 klukkustundir síðan
Fyrsta heildstæða kennsluefnið í matreiðslu gefið út eftir 70 ára kennslusögu – Myndir frá útgáfuteitinu
-
Keppni3 dagar síðan
Ertu lærður matreiðslumaður eða matreiðslunemi og langar til að komast í ungkokkalandsliðið?
-
Nemendur & nemakeppni22 klukkustundir síðan
Reynir Grétarsson matreiðslumeistari með áhugavert fræðsluerindi um súkkulaðigerð – Myndir
-
Markaðurinn4 dagar síðan
Uppskrift – Poke skál með kjúklingi og salatosti
-
Markaðurinn2 dagar síðan
Uppskrift – Rjómalöguð tómatsúpa og grillað ostabrauð
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun55 minutes síðan
100 myndir frá hátíðarkvöldverði KM
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun2 dagar síðan
Hótel og heilsulind Bláa Lónsins á meðal 10 bestu hótelum heims – Michelin