Vertu memm

Pistlar

Maís – ein af meginstoðum matvælaframleiðslu í heiminum

Birting:

þann

Maís - Zea mays

Fornleifarannsóknir benda til að ræktun á maís sé allt að 12.000 ára gömul iðja. Í dag er maís ein af meginstoðum matvælaræktar í heiminum og framleiðslan í kringum milljarður tonna á ári. Mest er ræktað af maís í Bandaríkjunum og Kína og mest af framleiðslunni fer í dýrafóður.

Áætluð heimsframleiðsla á maís fyrir 2014 til 2015 er 988 milljón tonn eða 988.000.000.000 kíló sem er minna en á næsta ræktunartímabili þar á undan þegar framleiðslan var 1,016 milljón tonn. Maís er jafnframt sú planta sem næstmest er ræktuð í heiminum um þessar mundir. Spá á heimasíðu Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) benda til að maís verði mest ræktaða planta í heimi eftir fimm ár og að ræktun hennar muni tvöfaldast, í tvo milljarða tonna, fyrir 2050.

Bandaríkin eru langstærsti framleiðandinn, en þar kallast maís korn, með áætlaða landsframleiðslu á um 360 milljónum tonna. Kínverjar rækta 215 milljón tonn, Brasilía er í þriðja sæti með 75 og Úkraína í því fjórða með 27 milljón tonn.

Í Bandaríkjunum er maís ræktaður á rúmlega 40 milljón hekturum lands, aðallega í norðausturríkjunum eins Iowa, Nebraska, Illinois, Indiana og reyndar víðar. Maísrækt í Kína hefur aukist mikið síðustu þrjá áratugi og land undir maís aukist úr rúmum 20 milljón hekturum í tæpa 35 milljón. Er svo komið að land sem fer undir maís í Kína er meira en fer undir hrísgrjónarækt og teygir maísbelti Kína sig frá norðausturhéruðum landsins í þau suðvestri eða frá Heilongjiang í norðri suður til Yunnan.

Maís er nánast í öllu

Maís - Zea mays - Súpa

Stærstur hluti maísframleiðslu heimsins fer í dýrafóður. Í Bandaríkjunum er áætlað að um 80% maísframleiðslunnar sé notað innanlands og í útflutning sem fóður fyrir búfé, aðallega nautgripi, í alifuglarækt og fiskeldi. Hluti þess fer í orkugjafa fyrir farartæki, í málningu, kerti, snyrtivörur, tannkrem, bleiur, flugelda, liti, lím, sandpappír, bíldekk, plastpoka, skósvertu, bóluefni og pípur sem voru vinsælar hér á landi í eina tíð, svo dæmi séu tekin.

Beint til manneldis fara um 12% og er maís notaður beint eða sem íblöndunarefni í ýmis matvæli eins og matarolíu, matarlit og sætuefni. Maís er að finna í barnamat, ís, hnetusmjöri, snakki, ediki, tómatsósu, morgunkorni, salatsósu og fjölda annarra matvæla. Í drykkjarvörum er maís notaður við framleiðslu á sumum ávaxtasöfum og gosdrykkjum eins og kóka kóla, bjór og viskí.

Portúgalar hófu ræktun á maís í nýlendum sínum í Afríku á 16. öld. Þaðan hefur maís breiðst út víða um álfuna og er mikilvæg fæða þar í dag. Í Afríku er útplöntun, umhirða og uppskera maís að mestu unnin með höndunum og aðallega konur sem sjá um ræktunina eins og reyndar á öðrum nytjaplöntum.

Allt að 600 maískorn á kólfi

Maís - Zea mays

Maís, Zea mayz, er af grasaætt og því einkímblöðungur. Plantan getur hæglega náð 2,5 metrum á hæð og til eru mælingar á plöntum sem hafa náð 8 metra hæð. Rótarkerfið er lítið. Stöngullinn er þykkur og líkist bambus í útliti, blöðin mörg, löng og mjó, um 9 sentímetra breið og 120 sentímetrar á lengd. Karlblómin mynda punt ofan við efstu blaðöxl og berast frjó þeirra með vindi til kvenblóma sem þroskast við neðri blaðaxlir. Fræin þroskast í löngum kólfi og þar myndast hin eiginlegu maískorn sem þroskast í nokkuð beinum röðum. Í hverjum kólfi geta verið allt að 600 korn og myndar hver planta yfirleitt tvo kólfa.

Maískorn eru stundum kölluð gular baunir vegna litarins en baunir á mismunandi afbrigðum eru í fjölda lita, bleikar, rauðar, hvítar og nánast svartar og geta kólfarnir verið marglita.

Í tæknivæddum landbúnaði er maís sáð beint eða hann forræktaður í um 15 sentímetra hæð og plantað út. Hæfilegt bil á milli plantna er fet og það tekur þrjá til fimm mánuði fyrir hana að ná fullum þroska.

Rótarkerfið er lítið og leitar grunnt en plantan er frek á áburð og kýs helst jarðveg sem er ríkur af lífrænum næringarefnum og nitri. Hún þolir illa þurrk og fellur auðveldlega blási eitthvað að ráði. Kjörhitastig í vexti er 20° Celsíus en maís blómstrar við 10° Celsíus. Verulega dregur úr vexti fari hitinn undir 8° Celsíus og plantan drepst við frostmark.

Barbara McClintock fékk Nóbelsverðlaunin í lífeðlis- og læknisfræði árið 1983 fyrir rannsóknir sínar á erfðafræði maísplantna og að greina það sem er kallað stökkgen. Árið 2008 var lokið við að kortleggja erfðamengi maís sem samanstendur af 32.540 genum.

Rannsóknir á erfðamengi maís hefur leitt til mikilla tilrauna með að breyta eiginleikum plöntunnar með erfðatækni, bæði til að gefa meira af sér og þola ólíkar aðstæður. Stærstur hluti maísplantna í ræktun eru erfðabreyttar annaðhvort með kynbótum eða genasplæsingu.

Kynbætur gegnum aldirnar hafa leitt til þess að kólfur plöntunnar hefur vaxið úr þumlungi að lengd með nokkrum kornum í plöntur sem gefa af sér hátt í hálfs metra langa kólfa sem bera nokkur hundruð korn.

Auglýsingapláss

Maís var kvenkynsguð Maya

Maís guð

Flestir sem láta sig málið varða eru sammála um að maís sé upprunninn í Mið- og Suður-Ameríku en að ræktun þess hefjist í fjallshlíðum í Mexíkó fyrir 7.500 til 12.000 árum. 5.500 ára maísfrjókorn fundust í borkjarna sem kom upp af 60 metra dýpi undir Mexíkóborg.

Plantan var í miklu uppáhaldi og lék stórt hlutverk í menningu þjóða eins og Maya, Inka, Olmeka, Tolteka og Asteka. Maísrækt var undirstaða efnahagslífs Maya og plantan tilbeðin sem kvenkynsguð.

Frjókornagreiningar sýna að útbreiðsla maís er talsverð í suðurríkjum Norður-Ameríku 2.500 árum fyrir Krist. Meðal sumra ættbálka indíána Norður-Ameríku var sagt að maís væri gjöf guðs til þeirra og ræktun þess talsverð meðal þeirra. Indíánarnir þekktu til samplöntunar og samhliða maís ræktuðu þeir baunir sem klifruðu upp eftir stofni maísins og voru niturbindandi um leið.

Kristófer Kólumbus og hans menn fluttu með sér maís til Evrópu eftir að hafa rambað á Ameríku árið 1492. Í fyrstu var plantan ræktuð fyrir forvitnissakir en ekki leið á löngu þar til hún var flutt til annarra heimshluta og ræktun hennar hafin þar. Evrópskir landnemar í Norður-Ameríku fluttu plöntuna með sér frá Evrópu og hófu ræktun þar.

Ræktun

Maís - Zea mays

Í Bandaríkjunum þar sem maísframleiðsla er mest eru plönturnar yfirleitt ræktaðar á risastórum ökrum þar sem uppskera færst tvisvar á ári. Líkt og indíánar forðum er beitt samplöntun við ræktunina og annaðhvort rækta alfa alfa eða sojabaunir sem niturgjafa.

Ræktunin er talsvert bitbein þeirra sem vilja láta banna ræktun á maís sem hefur verið erfðabreytt með genasplæsingu og þeirra sem styðja ræktun þeirra. Talið er að um 90% af maís sem ræktaður er í Bandaríkjunum og 40% í heiminum öllum sé erfðabreyttur.

Sérstaklega hefur staðið styr um erfðabreytt afbrigði sem er það sem er kallað Roundup Ready og ónæmt fyrir illgresislyfinu Roundup.

Uppskera kólfa í stórræktun var ekki vélvædd fyrr en vel var liðið á 20. öldina.

Fyrir þann tíma voru kólfarnir tíndir af með höndunum. Yfirleitt er maísinn geymdur í sílóum eða skemmum. Rakastig við geymslu má ekki fara upp fyrir 14%. Til að koma í veg fyrir að hitni í uppskerunni vegna raka og að hún skemmist er heitu lofti blásið upp í gegnum geymslurnar svipað og um súgþurrkun sé að ræða.

Líkt og með aðrar nytjaplöntur herja margs konar bakteríur, vírusar og sveppir á maís, ryð, kólf- og rótarfúi og mósaíkvírus svo dæmi séu nefnd.

Næringargildi maís

Maís er góð uppspretta kolvetna og í hundrað grömmum af maískorni er að finna um 86 kaloríur, 6,3 grömm af sykri og um 4 grömm af fitu. Auk A-, B- og C-vítamína.

Hvers vegna poppar maís?

Maís - Zea mays - Popcorn

Einfaldasta skýringin á því hvers vegna poppmaís poppar er að inni í korninu er örlítið af vatni, tæp 15%, sem breytist í gufu þegar það hitnar. Gufan leitar inn í sterkjuna í korninu og þegar hún þenst út sprengir hún utan af sér harða skelina sem umlykur kornið.

Aðrar tegundir af maís hafa ekki eins harða skel utan um sterkjuna og poppa því ekki þrátt fyrir að innihalda vatn. Kornið poppar þegar þrýstingurinn inni í korninu nær hámarki við um 180° selsíus.

Auglýsingapláss

Ekki er vitað hver „fann“ upp poppkorn en neysla þess er þekkt langt aftur í aldir í Mexíkó og Mið-Ameríku. Í Nýju-Mexíkó í Norður-Ameríku hafa fundist áhöld sem hugsanlega hafa verið notuð til að poppa í og ríflega 4.000 gamall poppmaís sem reyndist auðvelt að poppa þrátt fyrir háan aldur.

Í dag er vinsælt að fá sér popp í bíó eða fyrir framan sjónvarpið á kvöldin. Frásagnir um fyrsta landnám Evrópubúa þar sem popp stóð til boða segja að þeir hafi borðað það í morgunmat með ávöxtum, sykri og rjóma.

Myndir: úr safni

Vilmundur Hansen, garðyrkjumaður og blaðamaður hjá Bændablaðinu.

Podcast / Hlaðvarp

Auglýsingapláss

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið