Vertu memm

Frétt

Lostalengjur úr ærkjöti frá Ströndum

Birting:

þann

Á bænum Húsavík við Steingrímsfjörð hafa hjónin Hafdís Sturlaugsdóttir og Matthías Lýðsson hafið kynningarframleiðslu á svokölluðum Lostalengjum, sem eru unnar úr aðalbláberjalegnum og taðreyktum ærvöðvum. Hugmyndina höfðu þau gengið með í maganum í nokkur ár en í framhaldi af þátttöku í verkefninu Vaxtarsprotum sem hófst í febrúar hafa þau útbúið viðskiptaáætlun og stefna á fulla framleiðslu næsta haust.

„Viðbrögðin voru ótrúleg. Við héldum smá kynningu á þessu á uppskeruhátíð Vaxtarsprota þar sem allir kynntu verkefnin sín og fengum smá fjölmiðlaumfjöllun í kjölfarið og við höfum varla undan að taka við pöntunum frá veitingahúsum og öðrum sem vilja bjóða upp á þessa lúxusvöru,“ segir Hafdís sem nýlega var ráðin til starfa á gróðurdeild Náttúrustofu Vestfjarða og hafði hugsað sér að nota tímann í haust til að koma sér fyrir í nýju starfi og klára mastersritgerð þegar þessi aukabúgrein fór að stækka svo óvænt.

Mikil umræða hefur verið að undanförnu um heimavinnslu afurða og heimaslátrun en Hafdís og Matthías hafa aldrei selt kjöt á svörtum markaði og vilja hafa öll leyfi á hreinu. „Við höfðum ætlað okkur að kanna áhugann og svo kannski fara í það að innrétta húsnæði sem við höfum hér heima til að uppfylla reglugerðir um matvælaframleiðslu, en hingað til höfum við haft aðstöðu í húsnæði hér í grenndinni þar sem slíkt leyfi var til staðar. Okkur finnst nú ekkert sérstakt atriði að stefna að heimaslátrun, enda er það nær ómögulegt fyrir Pétur og Pál að standa í. Mér líst mun betur á hugmyndir um færanlegt sláturhús sem eru komnar frá Noregi og svoleiðis útfærsla myndi henta okkur vel sem þurfum að flytja fé á Blönduós í slátrun. Bæði er það slæmt fyrir gripina og svo er flutningskostnaðurinn gríðarlegur.“

Hafdís og Matthías eru nú komin með lítinn kúnnahóp sem kaupir af þeim Lostalengjurnar sem eru ekki ódýr matur, frekar en harðfiskur, enda rýrnunin mikil. „Við reiknuðum verð í fjárhagsáætlun og það endaði í um 6500-7000 kr/kg, en á bak við það er aðalbláberjatínsla, heimareyking og fitusnyrting á sérvöldum vöðvum og við stefnum á að framleiða 300 kíló á ári úr völdum vöðvum af völdum ám. Hann Anton Helgason, heilbrigðisfulltrúi sagði við okkur að þegar búið er að leggja kjötið í aðalbláberja-saltpækil og reykja líka værum við eiginlega komin með axlabönd og belti, svo við höfum ekki áhyggjur af leyfismálunum.“

Greint frá á Vestfirska vefnum Bb.is

Mynd: bb.is | [email protected]

Auglýsingapláss

Smári er matreiðslumaður að mennt, en hann hefur starfað við fagið til fjölda ára, bæði sem starfsmaður og rekstraraðili. Hægt er að hafa samband við Smára á netfangið [email protected] Skoða allar greinar höfundar hér >>

Podcast / Hlaðvarp

Auglýsingapláss

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið