Greinasafn
Lífræn ræktun
Vinsældir lífrænna matvæla hafa aukist mjög á undanförnum árum. Ólafur Dýrmundsson, landbúnaðarráðunautur í lífrænum búskap, segir dýraverndunar- og siðferðissjónarmið lengi hafa verið helstu ástæðu þess að fólk velji lífrænar vörur. Á undanförnum árum hafi heilsufarsástæður hins vegar sótt á sem ein helsta ástæða þess að fólk velji þennan kost.
Umræður um erfðabreytt og sýkt matvæli og matvöru sem innihaldi skordýraeitur, hormóna og díoxín hafi rýrt traust fólks á hefðbundnum matvælum auk þess sem margir telji lífræn matvæli næringarríkari en önnur sambærileg matvæli. Á sama tíma uppfylli þau kröfur um umhverfis- og dýravernd.
Þá ýtir það undir neyslu lífrænna afurða að nú er mun auðveldara að nálgast þær en áður auk þess sem sífellt er boðið upp á meira úrval lífrænna matvæla.
Lífræn matvæli eru hins vegar allt að helmingi dýrari en sambærilegar vörur en áætlað er að framleiðslukostnaður lífrænnar vöru sé allt að 30% hærri en framleiðslukostnaður sambærilegrar vöru, sem ræktuð er með hefðbundnum hætti.
Þrjátíu íslenskir bændur stunda lífrænan búskap
Talið er að eftirspurn eftir lífrænum matvælum muni halda áfram að aukast á komandi árum. Í sumum löndum Evrópusambandsins hefur hlutur lífræns landbúnaðar verið að aukast um allt að 25% á ári og talið er hugsanlegt að á næstu fimm árum muni lífrænn landbúnaður innan sambandins aukast úr 2% í 510% alls landbúnaðar.
Þróunin í lífrænum búskap hér á landi hefur hins vegar verið hæg og til þessa hafa einungis um 30 bændur fengið lífræna vottun á framleiðslu sína auk þess sem um 10 fyrirtæki hafa fengið vottun á slátrun, mjólkurvinnslu, grænmetispökkun og aðra vinnslu lífrænna afurða.
Ýmsar skilgreiningar
Lífræn ræktun
Vistvænn búskapur
Sjálfbærar veiðar
Erfðabreytt matvæli
Aukefni í matvælum
Töluverður áhugi er þó á markaðssetningu íslenskra afurða erlendis og hafa umræður farið fram um það, hvort lífræn ræktun geti orðið til þess að skapa íslensku lambakjöti þá sérstöðu, sem þarf til þess að það nái fótfestu á erlendum mörkuðum. Ólafur segir að enn hafi þó lítið farið fyrir markvissum tilraunum til að ýta undir lífræna framleiðslu í landinu og að framleiðslan anni engan veginn eftirspurn.
Hann segir hugmyndir þess efnis að hægt verði að fá lífræna vottun á íslenska fjallalambið – á þeirri forsendu að lömbin bíti aðeins á afrétt yfir sumarið – óraunhæfar, þar sem mæður lambanna séu á ólífrænum fóðrum yfir veturinn.
Það sama eigi við um hugmyndir um að hægt verði að fá undanþágu fyrir takmarkaða notkun tilbúins áburðar í lífrænni ræktun hér á landi. „Því hefur verið haldið fram að vegna hins stutta gróðurtímabils á Íslandi sé hlutfallslega lítill áburður notaður við hefðbundna ræktun hér á landi,“ segir hann. „Grundvallarhugmynd lífrænnar ræktunnar er hins vegar sú að stuðla að langtímafrjósemi jarðar með sjálfbærri ræktun og því er ómögulegt að skilgreina ræktun, sem byggir á reglulegri notkun tilbúins áburðar, sem lífræna.“
Hann kveðst hins vegar vera bjartsýnn á að Íslendingar geti fengið lengri aðlögunartíma að lífrænum búskaparháttum vegna afarskilyrða í veðurfari. Lítil gróska hafi þó verið í lífrænni ræktun hér á landi enda búi íslenskir búfjár- og garðyrkjubændur við minni hvatningu til að snúa sér að lífrænum búskap en nágrannar þeirra. Þannig eigi þeir til dæmis ekki kost á aðlögunarstyrkjum en þingsályktunartillaga þess efnis hafi margsinnis verið felld á Alþingi.
Nokkuð hefur hins vegar verið um að íslenskir bændur hafi tekið upp búskaparhætti sem uppfylla kröfur um „vistvænar landbúnaðarafurðir“. Samkvæmt upplýsingum Ólafs hafa á þriðja hundrað bænda hlotið vottun um vistvæna framleiðslu en það er 7-8% íslenskra bænda. Ekki eru hins vegar til neinir alþjóðlegir staðlar um vistvænar afurðir og því greiðir vottunin ekki endilega fyrir útflutningi þessara afurða.
Vottun í sjávarútvegi
Að undanförnu hafa komið fram hugmyndir um að auka tengsl landbúnaðar og sjávarútvegs við markaðssetningu íslenskra matvæla erlendis – þar sem áhersla verði lögð á gæði og hreinleika vörunnar.
Vottun sjávarafurða er enn mjög skammt á veg komin en flestir eru sammála um að neytendur muni innan skamms fara að gera kröfu um umhverfis- og upprunavottun sjávarafurða þannig að þeir geti valið afurðir úr fiskstofnum, sem veiddir eru með sjálfbærum og ábyrgum hætti.
Stofnun sjávarnytjaráðsins Marine Stewardship Council, sem er í eigu alþjóðalega fyrirtækisins Unilever og náttúruverndarsamtakanna World Wildlife Fund, er tilraun til að hefja vottun sjávarafurða en hagsmunaðailar hér á landi hafa hafnað samstarfi við ráðið þar sem þeir telja það ekki réttan aðila til að fara með slíkt vald.
Þá hafa rök verið leidd að því að Íslendingar eigi að taka af skarið og byggja upp sitt eigið vottunarkerfi fyrir sjávarafurðir sem myndi þá byggja á þeim lögum og reglugerðum sem hér gilda um veiðar og vinnslu sjávarfangs.
Fréttir um lífræn málefni
Lífræn matvæli Lífrænn landbúnaður Sjálfbær sjávarútvegur
Ýmsar skilgreiningar
Lífræn ræktun og búskapur
Lífræn ræktun byggir á hugmyndum um að stefnt skuli að langtímafrjósemi jarðar með sjálfbærri ræktun. Einugis er notaður náttúrulegur áburður við lífræna ræktun og notkun tilbúins áburðar og annarra tilbúinna efna, svo sem skordýraeiturs, er bönnuð.
Í lífrænum búskap er ekki notaður tilbúinn áburður á tún og ekki eru notuð eiturefni eða lyf nema í neyðartilvikum en þá er útskolunartíminn lengri en í hefðbundnum búskap. Þá þarf að vera rúmt um skepnur í lífrænum búskap og helst eiga þær að geta notið útiveru allt árið um kring.
Vistvænn búskapur
Vistvænn búskapur er nokkurs konar millistig milli lífræns og hefðbundins búskapar. Í vistvænum búskap er áburðarnotkun innan ákveðinna marka og lyfjanotkun í lágmarki auk þess sem notkun hormóna og vaxtahvetjandi efna er bönnuð, en það gildir reyndar um framleiðslu allra landbúnaðarvara hér á landi. Þá leitast vistvænn búskapur við að aðgreina sig frá verksmiðjubúskap, til dæmis í eggjaframleiðslu þar sem hænur eru ekki aldar í búrum.
Vistvæn vottun felst einnig í upprunavottun sem tryggir neytendum að unnið sé í samræmi við ákveðna gæðastaðla í framleiðslunni og að ekki sé gengið of nærri náttúrunni. Þá er áhersla lögð á það í vistvænni framleiðslu að auðvelt sé að rekja slóð afurða frá neytendum til framleiðenda.
Sjálfbærar veiðar
Sjálfbærar fiskveiðar stofna ekki viðkomandi fiskistofnum eða lífríki hafsins í hættu. Enn hafa þó ekki verið settar viðmiðanir eða mörk um það hvað kallist sjálfbærar veiðar.
Erfðabreytt matvæli
Erfðabreytt matvæli eru afurðir erfðabreyttra lífvera en samkvæmt skilgreiningu íslenskra reglugerða eru allar lífverur þar sem erfðaefninu hefur verið breytt á annan hátt en gerist í náttúrunni við pörun eða náttúrulega endurröðun, skilgreindar sem erfðabreyttar lífverur.
Aukefni í matvælum
Aukefni í matvörum geta komið af stað ofnæmi eða óþoli hjá viðkvæmum einstaklingum, en samkvæmt upplýsingum Hollustuverndar ríkisins er þá oftast um að ræða einstaklinga sem hafa ofnæmi gegn öðru í matvælum eða umhverfinu.
Flest aukefni eiga sér hliðstæðu í náttúrunni, sum eru unnin úr jurtum og önnur mynduð af örverum. Einstaka aukefni er hins vegar gerviefni sem eiga sér enga hliðstæðu í náttúrunni.
Strangar reglur gilda um notkun aukefna í matvælum. Þannig eru aukefni rannsökuð áður en þau eru leyfð með tilliti til heilsufarslegra þátta og þess í hve miklum mæli óhætt sé að neyta þeirra. Þá er framleiðendum skylt að telja upp aukefni í innihaldslýsingu á umbúðum matvæla þannig að fólk geti varast vörur sem innihalda ofnæmis- eða óþolsvaldandi efni.
Heimild:
Bændasamtök Íslands
Garðyrkjuskóli ríkisins
Hollustuvernd ríkisins
Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri
Manneldisráð Íslands
Neytendasamtökin
Umhverfisvefurinn
Vottunarstofan Tún
IFOAM, alþjóðasamtök framleiðenda og þjónustuaðila á sviði lífrænnar framleiðslu
-
Markaðurinn3 dagar síðan
Matreiðslumaður óskast á veitingahúsið Sauðá á Sauðárkróki
-
Keppni4 dagar síðan
Klúbbur matreiðslumeistara kynnir nýtt Kokkalandslið
-
Starfsmannavelta2 dagar síðan
Veitingastaðnum Nebraska lokað
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun5 dagar síðan
Vel heppnað Sumac PopUp á LYST á Akureyri – Reynir: Þetta gekk ótrúlega vel. Það var allt uppbókað og mjög góð sætanýting…. – Myndaveisla
-
Nemendur & nemakeppni3 dagar síðan
Umsókn um nám í framreiðslu, kjötiðn, matartækni og matreiðslu á vorönn 2025
-
Markaðurinn3 dagar síðan
Hátíðarstemmning hjá Innnes á Stóreldhúsinu – Myndaveisla
-
Keppni19 klukkustundir síðan
Hilma hreppti titilinn Konditor ársins 2024
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun2 dagar síðan
Myndir frá Miyakodori viðburðinum – Sigurður Laufdal: þeir fóru til baka ástfangnir af Íslandi….