Viðtöl, örfréttir & frumraun
Jólaborgarinn 10 ára – Daníel: „Þetta eru jól í hamborgarabrauði.“
Ef það er einhver matarupplifun sem hamborgaraunnendur mega alls ekki láta fram hjá sér fara, sérstaklega ef þeir eru staddir á Norðurlandinu, þá er það hinn margrómaði jólaborgari á Siglufirði. Höfundur hans er Daníel Pétur Baldursson, matreiðslumaður sem sameinar klassískan hamborgara og jólaandan í ómótstæðilegan bita.
Þetta er ekki hversdagslegur borgari. Hér blandast saman sultaður rauðlaukur, rauðkál og camembert-ostur í hátíðlegri samsetningu þar sem purusteikin leikur aðalhlutverkið, stökk og safarík með nokkrum leynitrixum yfirkokksins sem hann lætur ekki uppi. Að setja krispý purusteik á hamborgara gæti vel verið ein besta hugmynd sem nokkru sinni hefur verið framkvæmd í hamborgaraheiminum.
Í fyrra seldist jólaborgarinn upp á aðeins 45 mínútum þegar Daníel hélt PopUp ásamt Hákoni Sæmundssyni, matreiðslumanni og eiganda Fiskbúðar Fjallabyggðar. Tæplega 150 hamborgarar runnu út, og það er augljóst að Danna, eins og hann er jafnan kallaður, er sárt saknað í veitingageiranum á Siglufirði.
Jólaborgarinn í boði á Siglufirði 21.–22. og 28.–29. nóvember
Daníel starfar nú sem yfirmatreiðslumaður á HSN á Siglufirði, en í nóvember snýr hann aftur í eldhúsið ásamt Hákoni, þegar þeir félagar bjóða upp á jólaborgarann 21.–22. og 28.–29. nóvember í Fiskbúð Fjallabyggðar.
„Hann varð til við fikt,“
segir Daníel þegar hann er spurður hvernig hugmyndin hafi fæðst.
„Við vorum að prófa nýja hluti og langaði að gera eitthvað annað en hefðbundið jólahlaðborð á sínum tíma. Ég vildi ekki hafa villibráðaborgara heldur taka nautaborgara og gera hann jólalegan. Úr varð frumgerð af þessum. Uppskriftirnar af rauðkálinu og sultaða rauðlauknum voru svo í stöðugri þróun fyrstu þrjú árin.“
Daníel segir leyndarmálið liggja í samsetningunni.
„Það er held ég allt saman, purusteikin, rauðkálið, camembertinn og svo chillimæjóið sem kemur inn og bindur þetta saman. Hann er sætur og ljúffengur, með réttu jafnvægi í bragðinu.“
Þegar hann er spurður hvernig hann lýsi bragðinu sjálfu, brosir hann.
„Þetta eru jól í hamborgarabrauði.“
Viðbrögðin í fyrra komu honum á óvart.
„Ég var mjög hissa og hrærður. Þeir seldust upp á 45 mínútum og viðbrögðin voru hreint út sagt ótrúleg.“
Jólaborgarinn hefur orðið að hefð á Siglufirði og mörgum finnst hann ómissandi hluti hátíðarinnar.
„Ég veit ekki hvort hann sé ómissandi, jólin koma samt alveg,“
segir Daníel og hlær.
„En það er mjög skemmtilegt að fólk taki svona vel í þetta.“
Þegar hann er spurður hvort hann hafi hugleitt fleiri „seasonal“ borgara, til dæmis páskaborgara eða sumarútgáfu, svarar hann einfaldlega:
„Nei, ekkert sem ég hef hugsað mikið um.“
Hins vegar er hann ánægður að fá tækifæri til að elda aftur fyrir heimamenn.
„Það er virkilega gaman fyrir mig að fá að elda aftur fyrir fólkið mitt, og að hafa Hákon í horninu sem partner í þessari hamborgaraveislu er frábært.“
-
Bocuse d´Or2 dagar síðanSnædís keppir í Bocuse d´Or í stað Hinriks
-
Keppni2 dagar síðanÍslenskir og hollenskir veitingastaðir í úrslitum á National Fish & Chip Awards 2026
-
Markaðurinn4 dagar síðanFerskt og litríkt sætkartöflusalat sem hentar við öll tilefni
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel22 klukkustundir síðanBrasa tekur á móti fyrstu gestum í Smáratorgi. Sjáðu stemninguna frá opnunarpartýinu
-
Keppni5 dagar síðanKeppni í jólapúns í Jólaportinu: Veitingahús etja kappi til styrktar Sorgarmiðstöðinni
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun5 dagar síðanSkandinavískt jólahlaðborð á Síldarkaffi vekur mikla athygli – Myndir
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun5 dagar síðanSykurverk opnar smáköku- og kaffihúsa pop up í Iðunn mathöll fyrir jólin
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun3 dagar síðanTom Kerridge stígur til hliðar frá Pub in the Park







