Markaðurinn
Icelandic Lamb Award of Excellence – Handverk og hönnun úr sauðfjárafurðum
Fjórir hlutu Icelandic lamb Award of Excellence – viðurkenningar til framúrskarandi samstarfsaðila í handverki og hönnun. Þeir eru:
- Hélène Magnússon fyrir Prjónakerlingu.
- Sigurður Már Helgason fyrir gærukollinn Fuzzy.
- Fræðasetur um forystufé.
- Hönnunarmerkið WETLAND.
Það var Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra sem afhenti viðurkenningar við átíðlega athöfn í listamiðstöðinni Mengi við Óðinsgötu þriðjudaginn 12. Desember.
Markaðsstofan Icelandic lamb er í samstarfi með um 150 innlendum aðilum; veitingastöðum, verslunum, framleiðendum, afurðastöðvum, listamönnum, hönnuðum og fleirum. Helsti tilgangurinn er að kynna íslenska sauðfjárrækt, mat, handverk og hönnun fyrir erlendum ferðamönnum. Þetta er meðal annars gert með víðtæku samstarfi, öflugri verðlaunaherferð á samfélagsmiðlum undir merkjum Icelandic lamb og ýmsu fleiru. Merkinu er ætlað að undirstrika sérstöku íslenskra sauðfjárafurða með tilvísun til uppruna, hreinleika og gæða.
Í lok mars 2017 fengu tíu samstarfsveitingastaðir viðurkenningu fyrir framúrskarandi samstarf. Nú fengu fjórir samstarfsaðilar viðurkenningu fyrir handverk og hönnun.
Tilgangurinn er að stuðla að auknum skilningi og þekkingu gæðum íslensku ullarinnar, gæranna og annarra sauðfjárafurða sem handverksfólk, listamenn og hönnuðir nýta sem hráefni í sköpun sína. Viðurkenningin Icelandic lamb Award of Excellence er hugsuð sem hvatning til frekari verðmætasköpunar, nýsköpunar og vöruþróunar.
Fimm manna dómnefnd valdi þá sem viðurkenningu hljóta að þessu sinni úr hópi samstarfsaðila Icelandic lamb. Í henni sátu Emma Eyþórsdóttir dósent við Landbúnaðarháskóla Íslands, Sunneva Hafsteinsdóttir framkvæmdastjóri Handverks og Hönnunar, Rúna Thors fagstjóri vöruhönnunar við Listaháskóla Íslands, Svavar Halldórsson framkvæmdastjóri Icelandic lamb og Ninja Ómarsdóttir verkefnastjóri hjá Icelandic lamb.
Þetta var í fyrsta sinn sem þessi viðurkenning er veitt fyrir handverk og hönnun úr íslenskum sauðfjárafurðum, en verður framvegis árviss viðburður.
Rökstuðningur dómnefndar á vali:
Prjónakerling
Hönnun Hélène Magnússon er falleg, frjó og vönduð.
Hönnunin hefur sterk tengsl við Ísland og íslenska menningu. Hélène vinnur með íslenskar prjónahefðir af mikilli hollustu og þróar hefðbundin munstur í nýtt, ferskt samhengi.
Hélène fylgir hráefninu frá byrjun, velur sjálf ullina sem hún lætur sérspinna fyrir sig í einstakt íslenskt ullarband, og velur liti sem tengjast íslenskri náttúru. www.prjonakerling.is
Fuzzy
Sigurður Már Helgason hannaði gærukollinn Fuzzy upphaflega árið 1972 sem hefur nú fengið þá stöðu að vera sígild íslensk hönnun. Hver kollur er handgerður af Sigurði og velur hann gærurnar vel sem prýða kollinn. Má segja að hver kollur er með sitt eigið sérkenni og hvert eintak er einstakt vegna þess hve ólíkar gærurnar eru. Einnig smíðar Sigurður sérstakan kamb fyrir eigendur kollanna til að kemba gæruna. www.fuzzy.is
Fræðasetur um forystufé
Fræðasetur um forystufé er staðsett á Svalbarði í Þistilfirði.
Forystufé hefur verið órjúfanlegur hluti af sauðfjárhaldi Íslendinga allt frá upphafi byggðar hér á landi. Með harðfylgi sínu, vitsmunum og einstökum forystueiginleikum hefur það margsannað gildi sitt og not, þó sérstaklega við beitarbúskap fyrri tíma.Fullvíst er talið að fé með hegðunarmynstur íslenska forystufjárins sé hvergi þekkt í heiminum nú á dögum nema á Íslandi. Það er því einstakur stofn í heiminum með mikla sögu og sem vert er að varðveita.
Sýningin á setrinu er glæsilegt framtak þar sem mikill metnaður var lagður í að vekja áhuga fólks á mikilvægi þess að vernda stofninn og bjarga honum frá útrýmingarhættu. Einnig eru ýmsar vörur til sölu á setrinu sem unnar hafa verið úr afurðum forystufjárins og vert er að nefna að ullin er sérstaklega mjúk og frábrugðin annarri íslenskri ull. www.forystusetur.is
Wetland
WETLAND er nýtt íslenskt hönnunarmerki sem framleiðir vandaðar og fallegar lífsstílsvörur, hannaðar undir norrænum áhrifum. Að baki þess er þverfaglegt teymi sem sérhæfir sig í hönnun á vörum úr íslensku lambaskinni (mokka). Snið eru einföld og klassísk þar sem innblásturs er leitað í fegurð og dulúð íslenskrar náttúru. Hráefni og hönnun haldast í hendur og mynda tímalausa vöru sem er ætlað að endast kynslóð fram af kynslóð. www.wetland.is
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun1 dagur síðan
Viðskiptavinir okkar eiga skilið að hafa valkost: Segir Sigurður um ákvörðun MooGoo að vera opinn allt árið
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun1 dagur síðan
Saga barónanna lifir – Veitingahúsið Hornið heldur upp á 46 ára afmæli
-
Frétt3 dagar síðan
Jamie Oliver rífur þögnina um erfitt samband sitt við Marco Pierre White
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun4 dagar síðan
Lúxus á útsölu – Fairmont Grand Hotel selur innanstokksmuni fyrir breytingar – Talið vera stærsta uppboð sinnar tegundar í Evrópu
-
Frétt4 dagar síðan
Launahækkun í næsta launaumslagi – Allir eiga að fá hækkun, hvort sem þeir eru á taxtalaunum eða umsömdum launum
-
Markaðurinn4 dagar síðan
Fróðlegt námskeið á Tipsý með viskísérfræðingnum Toffa frá Dillon
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel2 dagar síðan
Ný bylgja í vínheiminum – Fyrsta áfengislausa vínverslunin opnar í hjarta vínborgarinnar Bordeaux
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel4 dagar síðan
Kaffipressan kaupir Kaffistofuna – styrkir sérkaffimenningu á Íslandi