Pistlar
Hveiti – konungur kornsins
Hveiti er mest ræktaða planta í heimi. Ræktun þess hófst fyrir rúmum 11.000 árum og í dag er hveiti ræktað á 223 milljón hekturum lands sem eru 4% af öllu landi sem nýtt er undir landbúnað í heiminum.
Áætluð heimsframleiðsla á hveiti árið 2014 er hátt í 2000 milljón tonn sem er 1,6% minna en árið áður og fjórða besta uppskera til þessa á eftir árunum 2009, 2011 og 2013. Um 20% af öllu próteini sem neytt er í heiminum kemur úr hveiti, próteininnihald hveitis er meira en annarra kornkorntegunda. Spár gera ráð fyrir að framleiðsla á hveiti eigi eftir að aukast um rúm 1,5% á ári fram til 2020 og um 60% frá því nú er á næstu þrjá áratugi eftir það.
Mest ræktað í löndum Evrópusambandsins
Árið 2014 var mest ræktað af hveiti í löndum Evrópusambandsins, um 155 milljón tonn, 126 milljón tonn í Kína, tæp hundrað milljón á Indlandi, 60 milljón í Rússlandi og 55 milljón í Bandaríkjunum. Í kjölfarið fylgja svo ríki eins og Kanada, Úkraína, Ástralía, Íran, Kasakstan og Argentína.
Hlutfallslega var mest aukning í ræktun í Argentínu og Kasakstan á síðasta ári og talsverð aukning varð á ræktun hveitis í Úkraínu í fyrra þrátt fyrir stríðsátökin þar. Hveiti- og bómullarrækt er mikil í Mið-Asíu og kallaði Hitler Úkraínu matarkistu Evrópu. Stjórnvöld í Úkraínu í dag eru mjög hægrisinnuð og stór líftæknifyrirtæki sem framleiða erfðabreytt fræ hafa sýnt landbúnaði þar aukinn áhuga og fjárfest í landinu fyrir háar upphæðir undanfarin ár með aðstoð Alþjóðabankans.
Hveiti er ræktað á rúmlega 223 milljón hekturum lands, meira en nokkur önnur planta og um 4% af núverandi landi í heiminum sem er notað undir landbúnað.
Verslun með hveiti er meiri en á nokkurri annarri korntegund. Helstu útflutningslönd hveitis eru Bandaríkin, Kanada, Frakkland og Ástralía. Mest er flutt inn af hveiti til Rússlands, Japans og Brasilíu. Langstærstur hluti þess hveitis sem ræktað er í heiminum fer til manneldis.
Árið 2009 var metuppskera af hveiti á Indlandi og reyndar svo mikil að geymslur þrutu og milljónir tonna sem geymd voru undir berum himni rotnuðu eftir að rigndi í hveitið.
Uppruni og útbreiðsla
Hveiti er upprunnið í Austurlöndum nær, Tyrklandi og löndum frjósama hálfmánans. Talið er að ræktun þess nái allt aftur til 9.600 fyrir Krist.
Forleifarannsóknir hallast að því að ræktun hveitis hafi fyrst átt sér stað í fjallahéruðunum, þar sem nú telst vera eystrihluti Tyrklands en jafnframt er talið það hafi borist þangað annars staðar frá með fólki. Ekki er vitað hvaðan.
Í ræktun og við kynbætur hefur plantan breyst og ýmis staðbrigði myndast. Í dag eru þekkt yfir 25.000 mismunandi útgáfur af hveitiplöntunni og því ekki skrítið að nafnagjöf þeirra sé mjög á reiki.
Hveiti var ræktað í Egyptalandi, Grikklandi og Krít 6.500 árum fyrir Kristsburð, og þar var það tákn korngyðjunnar Ceresar. 3.500 árum seinna hófst ræktun þess á Bretlandseyjum og í Skandinavíu. Eitt þúsund árum síðar hefst hveitiræktun í Kína.
Landbúnaðarbyltingin og myndun borgarsamfélaga var að mestu leyti byggð á hveiti og ræktun þess. Hveitikorn geymist vel, sé því haldið þurru, og urðu aukin matvæli í kjölfar aukinnar hveitiframleiðslu til þess að sérhæfing jókst og leiddi til þess samfélags sem við lifum við í dag.
Sænski grasafræðingurinn og einn mesti exel-maður síns tíma, Carl von Linnaeus, flokkaði hveiti í fimm tegundir. Triticum aestivum sumarhveiti með týtu, T. hybernum vetrarhveiti án týtu, T. turgidum fljóta hveiti, T. spelta spelthveiti og T. monococcum ein korn.
Í dag er talað um sex megingerðir hveitis, hart rautt vetrarhveiti, hart rautt sumarhveiti, mjúkt rautt vetrarhveiti, durum hveiti og mjúkt hvítt sumarhveiti. Á helstu hveitiræktarsvæðum heims fást yfirleitt tvær uppskerur á ári og oft því talað um sumar- og vetrarhveiti eftir ræktunartíma.
Algengast er T. aestivun sem er malað í mjöl og notað í brauð- og kökubakstur. Aðrar tegundir eða kvæmi eru svo notuð til að búa til pasta, kúskús, bjór og vodka. Spelthveiti er unnið úr tegundinni T. spelta og er vinsælt á heilsuvörumarkaði.
Durum hveiti er mest notað í makkarónur, spagettí og annað pasta, mjúkt rautt vetrarhveiti í kökur og kex en mjúkt hvítt í morgunkorn. Meðal annarra matvæla, fyrir utan brauð af öllum gerðum, sem innihalda hveiti eru búðingar, núðlur, barnamatur, sósujafnari og sósugrunnar.
Hálmur hveitis var áður notaður í húsþök og til einangrunar en í dag er hann aðallega nýttur sem dýrafóður.
Nytjar og kynbætur
Hveiti, Triticum sp., er grastegund sem nær 30 til 100 sentímetra á hæð eftir tegund og aðstæðum. Blöðin eru löng og mjó og standa stakstætt á holum og grönnum stönglinum. Blómin eru í axi, oft með langri týtu og í því myndast 30 til 50 hveitikorn. Plantan er yfirleitt sjálfsfrjóvgandi. Hveiti er með trefjarót sem liggur grunnt í jarðveginum.
Útlit hveitis í dag er talsvert ólíkt villtum forfeðrum sínum auk þess sem mismunandi tegundir og kvæmi eru ólík. Korn á framræktuðum plöntum eru mun fleiri og stærri en á villtu plöntunum. Auk þess sitja korn framræktaðra plantna fastar í axinu og minni hætta á að þau falli áður en fullum þroska er náð og kemur að uppskeru.
Rannsóknir og kynbætur á hveiti sem voru leiddar af Dananum Norman Borlaug og fóru að miklu leyti fram í Mexíkó leiddu til aukins þols hveitiplöntunnar gegn ryðsvepp og tvöföldunar í uppskeru. Borlaug kynbætti hveiti einnig til að hafa lægri og sverari stöngul þannig að það stæði frekar af sér hvassviðri og þungann sem fylgdu auknum fjölda korna á axinu. Borlaug er faðir grænu byltingarinnar sem hefur bjargað milljónum manna frá hungurdauða en á sama tíma leit til einsleitari ræktunar og fækkunar ræktunarafbrigða.
Ræktun
Kjöraðstæður fyrir hveiti liggja milli 30° og 60° norðlægrar og 27° og 40° suðlægrar breiddar og kjörhitastig er um 25° á Celsíus. Þrátt fyrir það er hægt að rækta hveiti langt norður undir heimskautsbaug og suður að miðbaug og við hitastig frá 4° til 30° á Celsíus.
Í ótæknivæddum landbúnaði eru hveitistofnar í ræktun of margir saman. Stofnarnir hafa yfirleitt verið í ræktun á viðkomandi svæðum og kallast landsortir. Það að vera með fleiri en eina sort í ræktun tryggir uppskeru þrátt fyrir að ein eða fleiri sortir misfarist vegna veðurs eða sjúkdóma.
Ræktun í tæknivæddum landbúnaði þar sem áhersla er lögð á að fá sem mesta uppskeru á flatareiningu byggist á einni tegund þar sem allar plönturnar þroskast á sama tíma. Þrátt fyrir að búið sé að kynbæta plönturnar mikið er notkun á áburði og varnarefnum mun meiri í tæknivæddum landbúnaði en ótæknivæddum.
Eftir sáningu tekur tvo til fjóra mánuði, eftir tegundum og aðstæðum, fyrir hveitikornið að þroskast og verða hæft til uppskeru.
Næringarinnihald hveitis er lítillega misjafnt eftir tegundum en samt nokkurn veginn sem hér segir í 100 grömmum: kolvetni 71 gramm, sykur 0,40 grömm, trefjar 12 grömm, fita 1,5 grömm og 12,6 grömm prótein. Hveitikorn er ríkt af steinefnum en fremur vítamínsnautt. Hveiti inniheldur glútein sem sumir hafa óþol fyrir.
Hveitirækt á Íslandi
Bændur á Íslandi hafa reynt fyrir sér með ræktun hveitis í nokkra áratugi og í góðu árferði hefur fengist ásættanleg uppskera.
Haldi loftslag hér áfram að hlýna eins og sumar spár gera ráð fyrir má búast við að ræktun á hveiti muni aukast hér á landi í framtíðinni. Hver gráða getur þar skipt miklu máli
Myndir: úr safni
-
Markaðurinn5 dagar síðan
Girnilegt camembert jólatré með döðlu og pekan krönsi
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel5 dagar síðan
Mikil uppbygging framundan á Hofsstöðum – Veitingastaðurinn með eigin framleiðslu og hráefni úr heimabyggð
-
Frétt3 dagar síðan
34 veitingastaðir birtu matseðil og annað kynningarefni bara á ensku
-
Markaðurinn2 dagar síðan
Wolt “wrapped” samantektin – Það sem Íslendingar pöntuðu á árinu 2024
-
Markaðurinn3 dagar síðan
Kalkúnaveisla með öllu tilheyrandi
-
Frétt2 dagar síðan
Innköllun á sviðasultu frá Kjarnafæði
-
Markaðurinn4 dagar síðan
Uppskrift – Fylltar kjúklingabringur með eplum, Dala höfðingja og rósmarín-hlynsírópsgljáa
-
Markaðurinn2 dagar síðan
Fallegur og girnilegur jólakrans bar sigur úr býtum