Vertu memm

Freisting

Haustvínin

Birting:

þann

Haustið er tími sælkera, ný uppskera kemur á markaðinn, ferskt grænmeti, nýtt lambakjöt og villibráð. Í Mið- og Suður-Evrópu eru uppskeruhátíðir eða karnivöl vikulegir viðburðir yfir haustið. Nýrri uppskeru er fagnað með veisluhöldum og fjöri. Það er staðreynd að ný og fersk matvæli eru miklu betri en fryst matvæli eða matvæli sem búið er að geyma nokkurn tíma. Þess vegna er um að gera að njóta lífsins og gjafa náttúrunnar og efna til veislu.

Glas af víni
Það er farið að skyggja á kvöldin, dagurinn styttist jafnt og þétt. Fátt er betra eftir langan dag en að fá sér glas af góðu víni, kveikja á kerti og hlýða á fallega tónlist. Flestir kjósa að fá sér hvítvínsglas sem fordrykk eða í staðinn fyrir bjór eða sterka drykki. Það er hins vegar tilvalið að fá sér öflugt og bragðmikið rauðvín. Almos Malbec frá Argentínu er aldeilis ágætis vín, bragðmikið og þétt. Í nefi má greina ilm af blómum, þá helst fjólum. Bragðið er kryddað og má greina bragð af ósætu súkkulaði, kaffi og gráfíkju. Miðað við gæði eru góð kaup í þessu víni, en flaskan kostar 1.290 krónur. Annað frábært rauðvín til að drekka svona eitt sér er Kaliforníuvínið Cutler Creek Shiraz Cabernet. Þetta er ekki stórt vín en einkar þægilegt. Bragðið er frískandi; greina má eik, ávexti eins og mango, bláber og jarðarber.

Vitaskuld stendur gott hvítvín alltaf fyrir sínu. Ég get varla hugsað mér betra hvítvín til að dreypa á svona eitt sér en austurríska vínið Gruner Veltliner. Þetta yndislega vín er pressað úr samnefndri þrúgu og hefur þetta létta, frískandi og þægilega hvítvín farið sigurför um vínheiminn að undanförnu. Lítið úrval hefur verið af þessu frábæra víni í Vínbúðum ÁTVR, enda salan kannski ekki nægjanleg. Þetta er hins vegar vín sem verður að vera til í vínbúðunum. Á meðan við höfum ríkiseinkasölu hér á landi eigum við að geta krafist þess að það úrval sem á boðstólum er í vínbúðunum spegli nokkuð fjölbreytileika vínheimsins. Í stuttu máli, – að í boði séu helstu og áhugaverðustu víntegundir. Í vínbúðunum eiga ekki aðeins að vera til ódýr „kjörbúðavín“ sem flest eru mjög svipuð. Ef þið finnið enn í hillum Heiðrúnar eða Vínbúðarinnar í Kringlunni Brundlmayer Ried Kaferberg Gruner Veltliner, þá kaupið hana þó svo að flaskan kosti 2.760 krónur.
Það er frábært að fá sér glas af þessu vandaða víni og hlusta á eitthvað fallegt eftir Mozart. Vonandi eigum við eftir að sjá meira úrval af Gruner Veltliner í vínbúðunum nú í vetur.

Lamb
Fátt er betra að hausti til en nýtt lambakjöt sem bragðbætt er með hvítlauk, timian, svörtum pipar og salti, – og svo auðvitað gott rauðvín. Ég hef tekið eftir því að nokkrar Cabernet Sauvignon víntegundir frá Ástralíu eiga einstaklega vel við með lambakjöti. Meðal þess sem hafa náð töluverðum vinsældum hér á landi að undanförnu, er Yellow Tail. Þetta eru nokkuð óvenjulegir Ástralir. Við fyrstu kynni gætu þessi vín verið frá Kaliforníu. Þegar betur er að gáð koma þó hin áströlsku áhrif í ljós. Yellow Tail Cabernet Sauvignon er ljómandi lambakjötsvín. Ilmurinn er frískandi, má greina negul og myntu. Bragðið er þægilegt, léttkryddað, svartur pipar, berjasulta, súkkulaði og jafnvel sveskjur. Þetta vín er á góðu verði kr. 1.290, – sem sagt, góð kaup.

Fyrr í greininni var minnst á vín frá Argentínu. Það er nefnilega einnig hægt að mæla með argentínska víninu Catena Cabernet Sauvignon. Þetta er einkar ljúft vín og þægilegt, með fínlegu eikarbragði, – ljómandi vín með lambinu. Frábær Ástrali með lambakjöti er Hardy´s Nottage Hill Cabernet Sauvignon Shiraz. Þetta er einkar þroskað vín og vel upp byggt. Ég vildi einnig benda á að það er hátíðlegt og aldeilis frábært að drekka kampavín með lambakjöti, einkum og sér í lagi ef góð sósa er höfð með því. Bellinger Brut Special Cuvee er kampavín sem engan svíkur. Þetta er vel þurrt kampavín með frískandi bragði af grænum eplum, sítrónu og berjum.

Villibráð
Með villibráð bregðast Shiraz-vínin ekki. Þó ber að hafa í huga að mikill munur er á Shiraz-vínum eftir því hvaðan þau koma. Ef vínið er af norðlægum slóðum er það meira kryddað, en af suðlægari slóðum og sólríkum er það aðeins sætara og meira berja- eða sultubragð.
Gott vín sem sameinar þetta tvennt er Chateau Stg. Michelle Syrah frá Washington. Þetta er ágætis villibráðarvín, gott með hreindýri og gæs. Frönsku Rhone-vínin eru auðvitað kjörin með villibráð. E. Guigal Corzes-Hermitage er slíkt vín, góður fulltrúi Rhone-vínanna. Nokkrar tegundir frá Argentínu eru ljómandi með villibráð. Þess má geta að Argentína er eitt mest spennandi vínlandið í dag. Búist er við að vínframleiðslan þar muni aukast um 30% á næstu árum. Mest mun aukningin vera í litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Vínáhugafólk ætti því að hafa augun á Argentínu á næstu árum. Santa Ana Cabernet Sauvignon Capas Privadas er vín sem kemur ánægjulega á óvart. Þetta er höfugt vín með góðri eik, miklu berjabragði og skemmtilega kryddað, hvítur pipar, negull, vanilla og smá tóbak. Þetta er gott vín með hreindýri og rjúpu. Með sjófuglum og jafnvel önd er hins vegar ljómandi að hafa Merlot.

Yellow tail Merlot er skemmtilegur Merlot. Vínið er vel byggt, gott tanin, fallega dimmrautt á lit með góðu berja- og kryddbragði, til dæmis má greina í eftirbragðinu sólber og kaffi. Með sjófuglum má einnig drekka hvítvín. Chardonnay með góðri eik og smjöri er frábært vín með svartfugli. Slíkt vín er Concha y Toro Amelia Chardonnay. Þetta vín er fallegt á litinn, ilmríkt og með þéttu bragði. Liturinn er grænleitur og af því er berja- og hunangsangan. Bragðið flókið; hunang, banani, sítróna og melóna.

Ber og súkkulaði
Gott súkkulaði, aðalbláber, bláber, jarðarber er eitthvað sem passar einstaklega vel saman. Góð súkkkulaðisósa eða súkkulaðimúss og fersk ber er góður eftirréttur. Með svona bragðmiklum eftirrétti er tilvalið að hafa hálfsætt kampavín. Lanson Ivory Label Demi-sec er kampavín á góðu verði. Vínið þarf að vera vel kælt, u.þ.b. 8°C. Vel á minnst; áður en matreiðslan hefst og sest er að borðum mæli ég með góðri gönguferð, – nú er rétti tíminn til að njóta haustlitanna. Ég get fullyrt við ykkur að þegar heim er komið smakkast vínið enn betur og maturinn er bragðmeiri og betri.

Sigmar B. Hauksson mælir með eftirtöldum vínum:

Hvítvín:
Brundlmayer Ried Kaferberg Gruner Veltliner kr. 2.760
Concha y Toro Amelia Chardonnay kr. 2.250

Kampavín:
Bollinger Brut Special Cuvee kr. 3.390
Lanson Ivory Label Demi-sec kr. 2.640

Rauðvín:
Almos Malbec  kr. 1.290
Cutler Creek Shiraz Cabernet kr. 1.090
Yellow Tail Cabernet Sauvignon kr. 1.290
Catena Cabernet Sauvignon kr. 1.590
Hardy´s Nottage Hill Cabernet Sauvignon Shiraz kr. 1.390
Chateau Stg. Michelle Syrah kr. 1.540
E Guigal Crozes-Hermitage kr. 1.990
Santa Ana Cabernet Sauvignon Capas Privadas kr. 1.280
Yellow Tail Merlot  kr. 1.290

Yellow Tail Cabernet Sauvignon er kjörið vín með lambakjöti. Galdra má
fram frábæra rétti úr íslenska lambakjötinu.

Höfundur: Sigmar B. Hauksson

Greint frá á heimasíðunni Heimur.is

 

[email protected]

Smári er matreiðslumaður að mennt, en hann hefur starfað við fagið til fjölda ára, bæði sem starfsmaður og rekstraraðili. Hægt er að hafa samband við Smára á netfangið [email protected] Skoða allar greinar höfundar hér >>

Auglýsingapláss
Click to comment

Podcast / Hlaðvarp

Auglýsingapláss

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið