Vertu memm

Pistlar

Gerum betur

Birting:

þann

Ólöf Jakobsdóttir

Ólöf Jakobsdóttir

Snemma í vor ákvað ég að setjast niður og skrifa mína reynslu sem kona í þessum heimi og þá aðallega í kokkaheiminum. Ég byrjaði á byrjun, þegar ég var að læra og til dagsins í dag.

Það kom mér óhugnalega á óvart hvað ég haðði látið yfir mig ganga og hvað ég hafði horft á aðrar konur ganga í gegnum og aðallega kom mér á óvart hvað ég hafði ekkert hugsað þetta í kynbundnu samhengi, og pældi í raun ekkert í þessu. Þetta var einhvernveginn bara eðlilegt.

Þegar aðalfundur Klúbbs matreiðslumeistara var svo haldinn á Siglufirði í byrjun apríl fann ég að ég þurfti að koma þessu frá mér. Það þarf einhver að standa upp og segja þetta.

Ég hélt ræðu, sagði frá þessu öllu í smáatriðum og hlaut standandi lófaklapp, allir stóðu upp og klöppuðu fyrir mér, flestir tóku utan um mig, konur og menn komu til mín og sögðu, „vá hvað ég hef margar svona sögur að segja“ en flestir sögðu bara einfaldlega –TAKK–.

Hér er brot úr ræðunni minni.

Góðan dag kæru félagar.

Þegar #metoo byltingin fór af stað var ég ein af þeim sem þoldi ekki Hildi Lilliendahl, hún fór rosalega í taugarnar á mér með þessu rifrildi, dónaskap og rembingi endalaust.

Mér fannst konur væla of mikið og ekki standa nógu vel með sjálfum sér, mér fannst þær kenna karlmönnum allt of mikið um hvernig fyrir þeim var komið og mér fannst þær þyrftu bara að vera duglegri að segja nei eða bara segja hvað þær vildu og vera sterkari.

Já ég viðurkenni það að ég var ein af þessum ógeðum eins og Sóli Hólm kallar þetta sem skildi ekki allt þetta væl.

Kannski vegna þess hvað ég er lærð hef ég þurft að vera smá karlremba, vera hörð og karlmannleg, skítug upp fyrir haus og rífa kjaft. Vera einhver sem getur allt, haldið á þungum kössum þegar ég var ófrísk, staðið langar vaktir og gert allt. Ekki leyft mér að líða illa vegna barnanna minna, má ekki sakna þeirra. Hlusta á mishuggulegar lýsingar á konum og samskiptum við konur og eitthvað sem áttu að vera brandarar en voru bara ógeðsleg kvenfyrirlitning. Fyrir utan það að hafa þurft að sætta mig við niðurlægjandi komment og kvenfyrirlitningu.

En ég er hér og ég er kona.

Ég á 3 falleg börn og er heima með yngsta barnið í orlofi í dag. Vegna þess fæ ég spurningar eins og “ferðu aftur að vinna” “verðurðu á sömu vöktum” “ertu ekki þreytt” “hvernig gengur”

Það hefur þó enginn spurt manninn minn þessara spurninga. Þið karlmenn hafið örugglega aldrei verið spurðir að því hvernig þið farið að því að eiga börn og heimili OG vera útivinnandi, ég er hinsvegar spurð að því reglulega.

Það eru einmitt börnin mín sem hafa gert mig sterkari og viljugri til að deila þessu og vera hluti af því sem reynir að stoppa þetta, því ég vil að börnin mín alist upp í heimi þar sem við öll skiptum máli, þar sem við öll erum jafn mikilvæg og þar sem enginn er betri en einhver annar og þau geti orðið hvað sem þau vilja.

Ég er matreiðslukona, meira að segja matreiðslumeistari, og með stúdentspróf, 3 menntaskólagráður.

Elska fagið mitt og vinnuna mína.

Ólöf Jakobsdóttir

Þessi skilaboð fékk ég eftir ræðuna á aðalfundi Klúbbs matreiðslumeistara á Siglufirði

Leiðin að sveinsprófinu var þó enginn dans á rósum. Ég lærði hjá pabba mínum.

Ég fór svo annað í smá tíma, bæði hér á Íslandi og til útlanda til að sækja mér þekkingu á námstímanum.

Auglýsingapláss

Ég var á einum stað látin sitja á mjólkurkassa fyrir utan veitingahúsið til að vera ekki fyrir og þau skipti sem ég fékk að elda var það staffamatur.

Svo það eina sem ég lærði á tæplega 2 mánuðum af 14 tíma vöktum 5 daga vikunnar var að þrífa, elda staffamat (hakk og spaghetti og pönnukökur) ganga frá eftir matinn og þrífa að loknum degi, var meira að segja eina vaktina látin bíða inni í kæli að drepast úr kulda, sem var auðvitað bara einhver sjúkur brandari.

Samt var þetta margverðlaunaður Michelin staður rekinn af mest verðlaunaða kokki heims. Á sama tíma og ég var þarna var íslenskur strákur líka, kominn aðeins styttra en ég á samning en hann var inni alla daga, varð strax partur af hópnum og tók þátt í öllum undirbúningi og öllum keyrslum.

Þetta er bara ein saga af einum stað, ég á þær alveg nokkrar í viðbót.

Ég stóð mína plikt í námi, skilaði mínu, var dugleg og reglusöm og heiðarleg.

Svo fór ég í lokabekkinn í skólanum þar sem eingöngu karlmenn voru að kenna, í dag er í fyrsta skipti ein kona að kenna fagið sjálft. Einhverjir kvenkyns kennarar eru að kenna áfanga eins og næringafræði og annað, en ekki fagið sjálft (samkvæmt mínum heimildum).

Ég er líka meðlimur í skemmtilegum klúbbi, klúbbi sem hefur gert margt nauðsynlegt fyrir fagið okkar og samfélagið allt.

Ég sit fundi þar sem „þeir“ tala saman um hvað „þeir“ eru og ætla að gera. Ég leiðrétti þetta á fundi um daginn og hálf skammaðist mín að gera það og þið fóruð bara að hlæja að mér. Ég heyrði meira að segja, „konur þurfa bara að vera duglegri að koma á fundi“ en þessi setning er AKKÚRAT upphafið af þessari byltingu, konur þurfa bara að vera duglegri, hafið þið ekki séð þetta á strætóum til dæmis? Merktir KÞBAVD.

Ég er með alþjóðleg dómararéttindi, sótti námskeið til að öðlast slík réttindi fyrir 2 árum.

Ég var beðin um að dæma tveggja daga keppni fyrir rúmu ári.

Fékk frí fá vinnunni minni og mætti fersk og flott að dæma, sat með pabba (sem er alþjóðlegur dómari) heima daginn áður, fékk góð ráð frá honum og skoðaði dómarablöð sem hann átti og las yfir reglur og annað, undirbjó mig mjög vel.

Dómararnir voru 4, 2 konur og 2 karlmenn.

Fyrri daginn var ég á dómaraborðinu og eins og hinir gerði ég mitt besta til að standa mig vel. Reyndi að vera sanngjörn og fagmannleg. Hálfur dagurinn fór í það og seinnipartinn kom svo annar karlmaður til að leysa mig af, semsagt þegar hann komst frá vinnu, ég var meira að leysa hann af. Og þar með dæmdi ég ekkert meira þann daginn.

Daginn eftir, seinni daginn dæmdi ég ekkert heldur, sami karlmaður kom og leysti mig af. Ég var sett í að labba um og sýna áhorfendum diskana sem keppendur gerðu og seinna í að taka diskana af dómaraborðinu og vaska þá upp og þjónusta dómarana með meira vatni og hreinum hnífapörum og svona. Heiðarlega skipti nærvera mín engu máli þarna, ég hefði alveg eins getað verið heima hjá mér.

Nokkrum dögum seinna þegar verið var að fjalla um þessa keppni í fjölmiðlum var klúbbnum hampað og sérstaklega talað vel um kynjajafnrétti í dómgæslu.

Auglýsingapláss

Það er særandi að nafnið mitt hafi verið notað í þessum tilgangi.

Talandi um það þá er sorglegt að sjá að af 11 dómurum hafi engin kona verið að dæma þegar það var verið að dæma í matreiðslumanni ársins fyrir stuttu síðan.

En elsku vinir.

Það er enginn að segja að neitt sem gerðist fyrir mig hafi ekki verið tíðarandinn þá og jafnvel bara í lagi þá, en eins og Sóli Hólm orðaði þetta best, það sem mátti einu sinni má bara ekki í dag.

Þessi bylting er komin til að vera, hún er rétt að byrja og hún er EKKI að fara neitt!

Við matreiðslumenn verðum að taka þátt í þessu og gera betur.

Við þurfum að vera í takti við tíðarandann, passa okkur að þetta sé og verði ekki eitthvað karlrembufag sem fælir konur frá sér.

Okkar frábæra starf er mikilvægt, það opnar dyr að mörgum tækifærum um allan heim og hjálpar okkur að verða betri og klárari, pössum okkur bara að það opni dyr fyrir alla.

Ég er hér ekki að tala niður til Klúbbsins, kokka eða námsins, ég er bara að benda á staðreyndir, staðreyndir sem við þurfum að breyta.

Við höfum ekki öll keppt í faginu, og mörgum okkar langar það bara alls ekki. Sum okkar vilja reka Michelin staði, metnaðarfulla staði, aðrir njóta sín við skrifborð eða á rúntinum milli staða að selja vörur, sumir elda í mötuneytum, sum okkar eru ekki einusinni að vinna við fagið heldur eitthvað annað, eða vinna bara ekki neitt.

Við eigum það þó öll sameiginlegt að við erum kokkar, við náðum öll sveinsprófi, við ákváðum að læra þetta því við höfum áhuga á matreiðslu.

Förum nú að koma fram við hvort annað af virðingu, óháð kyni eða stöðu og aldri.

Gerum betur.

Ólöf Jakobsdóttir
Yfirmatreiðslumeistari á veitingahúsinu Horninu.

Auglýsingapláss

Viltu birta grein á Veitingageirinn.is? Sendu okkur póst [email protected]. Með pistlinum þarf að fylgja nafn höfundar, titill og mynd.

Podcast / Hlaðvarp

Auglýsingapláss

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið