Vertu memm

Hinrik Carl Ellertsson

Frábær upplifun í sveitasælunni

Birting:

þann

Eftir 2 daga af Food and Fun geðveiki var tími til kominn að yfirgefa vík reykjanna og halda austur fyrir fjall, nánar til tekið á Hótel Laka sem staðsett er á bænum Efri vík, 4 km frá Kirkjubæjarklaustri. Hótelið er með 40 herbergi, auk 12 smáhýsa rétt fyrir aftan hótelið ásamt því að vera með 9 holu golfvöll fyrir utan.

Ég hafði gert boð á undan mér og renndi í hlað um 19:30 á föstudagskveldi. Þar tók hótelstýran og yfirkokkur kvöldsins Eva Björk Harðardóttir á móti okkur fjölskyldunni með miklum hlýindum og lét mig fá herbergislykil og bauð okkur að ganga til matar þegar okkur hentaði, sem ég gerði fljótlega.

Þegar á veitingarstaðinn var komið blasti við mér mikið magn af áhugaverðum verkum eftir Guðrúnu Kristjánsdóttur sem gaf staðnum íslenskan blæ á skemmtilegan hátt. Verkin juku á hlýleika staðarins sem á sama tíma hefur nútímalegt yfirbragð. Það má segja að það sé lýsandi fyrir hótelið, allt mjög hlýlegt en samt svo fágað. Okkur var því næst vísað til sætis.

Hafði ekki setið lengi þegar komið var með brauðkörfuna sem var greinilega nýbakað brauð og ekkert aðkeypt á þessum bæ, setti þetta tóninn fyrir kvöldið.

Brauðkarfa

Brauðkarfa

Sveitapaté að hætti Evu

Sveitapaté að hætti Evu

Þá kom forrétturinn sem var sveitapaté að hætti Evu ásamt nýbakaðri eggjaköku, borið fram með salati og smá sultu ásamt bakaðri parmigiano flögu. Þessi réttur var alveg magnaður, maður fann alla ástina sem hafði verið lögð í þetta og ekkert gervi í þessu, áferðin á patéinu var hreint frábær og eggjakakan vel stökk og bragðið alveg upp á 10.

Aðalrétturinn

Aðalrétturinn

Því næst var komið að aðalréttinum:

Grilluð kjúklingabringa með rósmarínbökuðu rótargrænmeti og hvítvínssósu. Skar í bringuna og aldrei á minni ævi hef ég fengið jafn mjúka og vel steikta kjúklingabringu, fullkomlega krydduð og sósan passaði yndislega með.

_MG_3866-1

Eftirrétturinn

Því næst var komið að eftirréttinum:

Frönsk súkkulaðikaka með heimalöguðum bláberjaís, mintu og smá rjómatopp. Þarna kom punkturinn yfir i-ið, kakan vel blaut, ísinn alveg frábær, bláberin komu vel í gegn og áferðin á ísnum alveg silkimjúk.

Frábær endir á enn betra kvöldi, saddur og glaður gekk ég til náða og hlakkaði mikið til morgunmatarins.

Vaknaði um 8 leytið var kominn í morgunmatinn um 8:30 og yfirbryti og faðir Evu stóð vaktina.

Hef ég nú gist á fjöldanum öllum af hótelum bæði hérlendis og erlendis, en nú verð ég að segja að metnaðurinn sem lagður er í þennan morgunmat, sama hvort það var heimalagaða kæfan, nýsteikta beikonið, vöffludegið sem beið bara eftir því að láta steikja sig eða hafragrauturinn sem ég tel að sé sá besti sem ég hef smakkað. Þessi morgunmatur hefði sómað sér vel á 5 stjörnu hóteli í New York. Hreint fullkomið.

Eftir dvöl mína á Hótel Laka komst ég að þeirri skemmtilegu niðurstöðu að það er hægt að fá frábæran mat á fleiri stöðum heldur en bara í 101, því þó að maður sé staddur á 880 Kirkubæjarklaustur er hægt að hitta á fólk sem hefur svo gaman af því sem það er að gera og er greinilega létt klikkað á að fá þá hugmynd að reka hótel af þessari stærðargráðu svo langt frá Reykjavíkinni að það er ekki annað hægt heldur en að dást að því. Enn og aftur vil ég þakka fyrir mig og mína, og get ég lofað því að þetta verður ekki í það síðasta skipti sem ég á eftir að leggja leið mína á þennan fallega stað þar sem það sýnir sig að persónuleg þjónusta, fagmennska í starfi og bjartsýni getur komið fólki langt.

/Hinrik Carl

Hinrik er matreiðslumeistari að mennt. Útskrifaðist með sveinspróf árið 2006 og sem matreiðslumeistari árið 2012. Var í U-23 ára kokklandsliðinu. Hefur farið víða þrátt fyrir ungan aldur, m.a. sem yfirmatreiðslumeistari á Radisson Blu Caledonian og Hótel Varmahlíð. Eyddi þremur vikum á The Fat Duck sumarið 2012. Hefur staðið fyrir grillnámskeiðum ofl. Greinahöfundur hjá Gestgjafanum síðan 2012. Hægt er að hafa samband við Hinrik á netfangið [email protected]

Auglýsingapláss

Podcast / Hlaðvarp

Auglýsingapláss

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið