Viðtöl, örfréttir & frumraun
Finnskur blaðamaður flakkaði á milli veitingastaða í Vestmannaeyjum, spjallaði við eigendur og kokka omfl.
Fjöldi glæsilegra fiskveitingastaða í hæsta gæðaflokki í Vestmannaeyjum hlýtur að vera með því mesta sem þekkist á byggðu bóli miðað við íbúatölu.
Þá ályktun dregur að minnsta kosti finnskur blaðamaður, Mika Remes, í grein um veitingaflóru og sjávarfang Vestmannaeyja í grein í tímaritinu Aromi í Finnlandi núna í janúar. Ritið er sérhæft í skrifum um veitingahús og það sem þar er á boðstólum.
Finninn kom til Vestmannaeyja, dvaldi í Vestmannaeyjum í nokkra daga, þræddi sig á milli veitingastaða, spjallaði við eigendur og kokka og rakti sömuleiðis garnir úr Binna í Vinnslustöðinni í tilefni af stofnun dótturfélagsins VSV Finland OY Helsinki á síðasta ársfjórðungi 2022, að því er fram kemur á vef Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum.
Blaðamaðurinn vildi með Íslandsför kynna sér íslenskan fisk og tengda matarhefð. Hann kynntist því jafnframt að í Eyjum væru líka veitingahús í hávegum sem löðuðu að sér viðskiptavini af meginlandinu og úr víðri veröld.
Þetta þótti Finnanum afar merkilegt að heyra en sannfærðist fljótt um að engin tilviljun væri að orðspor veitingamanna Vestmannaeyja flygi um lönd og álfur þegar hann sjálfur hafði kynnt sér starfsemi Einsa kalda, Gott, Næs og Slippsins og tekið til matar síns.
Sjávarfang er fjársjóður Gulleyjunnar
Yfirskrift umfjöllunar á fimm blaðsíðum í tímaritinu Aromi er Aarresaari, sem þýðir bókstaflega Fjársjóðseyjan. Ættum við ekki þá ekki frekar að segja einfaldlega Gulleyjan? Þar með væri komin tilvísun í vinsælustu ævintýrasögu allra tíma eftir Skotann Robert Louis Stevenson. Gulleyjan hans var gefin út 1882 og er til í bókarformi á ótal tungumálum, þar á meðal á íslensku. Þá hefur sagan verið kvikmynduð yfir fimmtíu sinnum!
Tónninn í skrifum finnska blaðamannsins er þannig að fyrir honum var heimsóknin til Vestmannaeyja hreint ævintýri. Hann upplifði dvöl á sjálfri Gulleyjunni.
Saltfiskur á portúgalska vísu
Einar Björn Árnason, matreiðslumaður og eigandi Einsa kalda, sló í gegn með réttum sínum í kynningarveislu VSV Finland OY í Helsinki í nóvember 2022. Hann hefur verið sendiherra íslenskra sjávarafurða víðar um heiminn og alltaf skorað glæsimörk.
Í greininni í Aromi er sérstök athygli vakin á saltfiskinum sem eldaður væri og borinn fram á Einsa kalda í portúgölskum anda en með ívafi staðarins:
„Fiskurinn hefur mismunandi eiginleika sem þarf að kalla fram á viðeigandi hátt. Það ferskasta er ekki alltaf best. Hráefni í suma rétti þarf til dæmis að geyma í kæli í nokkra daga áður en það er notað til að fá sem mest út úr því.
Nýir réttir eru prófaðir margoft og rækilega áður en þeir eru settir á matseðil Einsa kalda.“
Segir Einar Björn.
Hlýri í uppáhaldi
Finnski blaðamaðurinn fjallar ekki bara um matinn á Gott heldur nefnir líka samtímalist sem prýði veggi veitingastaðarins og íslenskan krosssaum sérstaklega.
Haft er eftir Berglindi Sigmarsdóttur og Sigurði Gíslasyni, eigendum Gott, að sjávarfangið fái þau frá sjávarútvegsfyrirtækjum í Vestmannaeyjum, lambakjöt frá bændum og náttúrulegt krydd úr görðum á Heimaey.
Sigurður upplýsir að hlýri sé í uppáhaldi hjá sér, feitur fiskur sem ilmi dásamlega. Hann ráðleggur lesendum að nota alltaf ferskt hráefni og gæta þess vel að ofelda aldrei fisk.
Galdur í Slippnum
Gísli Matt, matreiðslumaður og eigandi Slippsins/Næs, fer ótroðnar slóðir i matreiðslu og sækir innblástur víða. Kolagrill á japanska vísu er til að mynda nefnt í umfjölluninni.
Slippurinn var stofnaður 2012 og er einungis opinn á sumrin. Handan götunnar er Næs, nýlegt „bistro“ – systurstaður Slippsins. Næs veitingastaður er opinn árið um kring og flaggar matseðli með alþjóðlegum tónum, einkum ítölskum.
Gísli heldur upp á þorsk og sækir hráefni veitingastaða sinna eftir atvikum á heimaslóð hvort heldur er úr sjó eða af landi: fiskur, lamb, fugl, kryddjurtir:
„Ég er alinn upp í útgerðarfjölskyldu og vandist því að fást við allar tegundir sjávarfangs. Við vitum oft ekki í byrjun dags hvað við fáum af fiskmörkuðum og spilum eftir því eftir eyranu í eldhúsinu hverju sinni.
Við matreiðslugaldra fæst ég í Slippnum en í Næs elda ég frekar eins og heima hjá mér.“
Segir Gísli Matt.
Hér að neðan er umfjöllun Aromi um Vestamannaeyjar:
Frétt og myndir úr tímaritinu Aromi er frá vsv.is – Aðrar myndir: úr safni
-
Markaðurinn5 dagar síðan
Girnilegt camembert jólatré með döðlu og pekan krönsi
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel5 dagar síðan
Mikil uppbygging framundan á Hofsstöðum – Veitingastaðurinn með eigin framleiðslu og hráefni úr heimabyggð
-
Markaðurinn5 dagar síðan
Ekta rjómaís með hvítu súkkulaði og piparkökum – Fullkominn á veisluborðið yfir hátíðarnar
-
Frétt3 dagar síðan
34 veitingastaðir birtu matseðil og annað kynningarefni bara á ensku
-
Markaðurinn2 dagar síðan
Wolt “wrapped” samantektin – Það sem Íslendingar pöntuðu á árinu 2024
-
Markaðurinn2 dagar síðan
Kalkúnaveisla með öllu tilheyrandi
-
Markaðurinn4 dagar síðan
Uppskrift – Fylltar kjúklingabringur með eplum, Dala höfðingja og rósmarín-hlynsírópsgljáa
-
Frétt2 dagar síðan
Innköllun á sviðasultu frá Kjarnafæði