Frétt
Farið í nýjar aðgerðir til að draga úr matarsóun – Matarsóun á Íslandi jafngildir 160 kg á hvern íbúa á ári
Matarsóun á Íslandi jafngildir 160 kg á hvern íbúa á ári. Þetta sýna niðurstöður mælinga sem Umhverfisstofnun framkvæmdi í fyrra. Tæpur helmingur allrar matarsóunar átti sér stað í frumframleiðslu matvæla, en um 40% á heimilum og hefur ráðuneytið nú falið Umhverfisstofnun að hefja framkvæmd tveggja mikilvægra aðgerða úr aðgerðaáætlun stjórnvalda Minni matarsóun.
Mælingarnar eru þær fyrstu sem Umhverfisstofnun hefur framkvæmt á matarsóun í allri virðiskeðju matvæla og sem unnar eru eftir staðlaðri aðferðafræði Evrópuríkja. Í dag, 29. september, er alþjóðlegur dagur Sameinuðu þjóðanna gegn matarsóun.
Ísland hefur sett sér markmið um að draga úr matarsóun, bæði sem hluti af aðgerðaáætlun í loftslagsmálum og sem hluta af framlagi okkar til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.
Niðurstöður mælinga Umhverfisstofnunar sýna að matarsóun er fyrst og fremst í frumframleiðslu annars vegar og hins vegar á heimilum. Umfangsmikill sjávarútvegur skýrir að miklu leyti magnið frá frumframleiðslu, en almennt er nýting hráefnis við frumframleiðslu á Íslandi góð. Þá benda niðurstöður rannsóknarinnar til þess að matarsóun á heimilum hafi ekki aukist frá mælingum sem gerðar voru árin 2016 og 2019, heldur hafi hún nokkurn veginn staðið í stað. Þegar horft er til sóunar í vinnslu og framleiðslu, smásölu og dreifingu og til matarþjónustugeirans er matarsóun á Íslandi undir meðaltali Evrópuríkja.
Aðgerðaáætlunin, Minni matarsóun, sem ýtt var úr vör haustið 2021 inniheldur 24 aðgerðir sem draga eiga úr matarsóun og stuðla að því að settum markmiðum Íslands um að minnka matarsóun um 30% fyrir árið 2025 og um 50% fyrir árið 2030 verði náð. Mælingarnar nú verða notaðar sem grunnlína vegna þessara markmiða.
Aðgerðir sem stuðli að nauðsynlegum viðhorfsbreytingum
Aðgerðirnar eru bæði á ábyrgð stjórnvalda og atvinnulífsins. Fjórtán aðgerðir eru þegar í framkvæmd eða er lokið. Ráðuneytið hefur nú falið Umhverfisstofnun að hefja framkvæmd tveggja nýrra aðgerða úr áætluninni sem stuðla eiga að nauðsynlegum breytingum á viðhorfum í samfélaginu gagnvart matarsóun.
Annars vegar er um að ræða aðgerð sem felst í auknu samstarfi atvinnulífs og stjórnvalda um að virkja atvinnulífið enn frekar við að ná niður matarsóun. Hins vegar er aðgerð sem snýr að því að bæta menntun í landinu um matarsóun og hringrásarhagkerfið og verður með því verkefni lagður grunnur að breyttu samfélagi til framtíðar þegar kemur að sóun á mat og öðrum verðmætum.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis–, orku– og loftslagsráðherra:
„Íslensk stjórnvöld vilja vera í fararbroddi í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og lágmörkun matarsóunar er mikilvægur liður í að ná þeim árangri. Stjórnvöld gera þetta hins vegar ekki ein og samfélagið allt þarf að taka þátt.
Foreldrar okkar og forfeður vissu að matur er auðlind sem ekki á að sóa og við þurfum að endurvekja okkur þann hugsunarhátt, bæði sem einstaklingar og í atvinnulífinu. Aukin menntun um matarsóun er lykill að þessum breytingum, sem og aukið samstarf atvinnulífs og stjórnvalda við að ná niður matarsóun.“
Nánari upplýsingar:
Minni matarsóun – aðgerðaáætlun gegn matarsóun
Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum
matarsoun.is – Saman gegn sóun
Mynd: úr safni
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel1 dagur síðan
Nýr veitingastaður á Laugarvatni – Sunneva og Sæþór: Við viljum að allir sem koma líði eins og þeir séu heima hjá sér
-
Keppni1 dagur síðan
Grétar Matthíasson er Meistari meistaranna
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel2 dagar síðan
Nýtt veitingasvæði rís í austurenda Smáralindar – 13 nýir veitingastaðir
-
Markaðurinn17 klukkustundir síðan
Mesta úrval Japanskra hnífa á Íslandi
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun1 dagur síðan
Kristinn Frímann bauð upp á glæsilegt jólahlaðborð á togaranum Kaldbak – Myndir
-
Bocuse d´Or4 dagar síðan
Sindri Guðbrandur keppir 27. janúar í Bocuse d´Or
-
Markaðurinn3 dagar síðan
Dill opnar á ný eftir breytingar – nú með nýju borðabókunarkerfi Noona
-
Keppni3 dagar síðan
Matreiðslukeppni stjórnmálaflokkana í húsi Fagfélagana