Frétt
Dagur matvælaöryggis 2020 – öryggi matvæla varðar alla
Í dag, sunnudaginn 7. júní, er alþjóða degi matvælaöryggis fagnað í annað sinn. Í þetta skipti er dagurinn í Evrópu tileinkaður Einni heilsu, endurnýjanlegu fæðukerfi og sameiginlegri ábyrgð á matvælaöryggi á alþjóðavísu, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Matvælastofnunni.
Dr. Bernhard Url, forstjóri EFSA:
Matvælaöryggi er daglegt brauð Matvælaöryggisstofnunar Evrópu (EFSA) en allir þurfa að láta öryggi matvæla sig varða í dag og í framtíðinni ef við viljum takmarka áhrif loftlagsbreytinga og byggja endurnýjanlegt og alþjóðlegt fæðukerfi fyrir neytendur, framleiðendur og umhverfið.
Ein heilsa er sú aðferðafræði að nálgast lýðheilsu sem samofna dýraheilsu og heilbrigðu umhverfi. Ef dýraheilsa og/eða umhverfið spillast þá spillist lýðheilsa einnig. Aukið þverfaglegt samstarf alþjóðastofnana er lykilþáttur í Einni heilsu og stuðlar að auknu matvælaöryggi. Dæmi um slíkt samstarf er ACN (Alert and Cooperation Network) Evrópusambandsins sem er m.a. boðleið milli landa um hættuleg eða vanmerkt matvæli á markaði sem leitt hefur til fjölda innkallana á Íslandi.
Margir líta á matvælaöryggi sem sjálfsagðan hlut. Á meðan tveir af hverjum fimm Evrópubúum hafa áhuga á matvælaöryggi þá segir einungis einn af hverjum fimm að öryggi matvæla sé höfuðáhersla þeirra við val á mat. Samt sem áður geta óörugg matvæli valdið yfir 200 sjúkdómum, allt frá niðurgangi að krabbameini.
Dr. Url:
COVID-19 faraldurinn er tímabær áminning á hættuna sem stafar af smitefnum og mikilvægi hreinlætis og góðra framleiðsluhátta. Þrátt fyrir að matvæli beri ekki kórónasmit með sér þá hefur neyðarástandið sýnt með sársaukafullum hætti hvaða áhrif þessir sjúkdómar hafa á lýðheilsu og félags- og hagfræðilega velferð.
Aukið ónæmi baktería fyrir sýklalyfjum er vaxandi áhyggjuefni. Sýklalyfjaónæmi veldur 33.000 dauðsföllum á ári innan Evrópusambandsins og kostaði sambandið 1,5 milljarða Evra í heilbrigðiskostnað og framleiðslutapi skv. Framkvæmdastjórn ESB. Ekki verður spornað við þeirri þróun nema með þverfaglegu, alþjóðlegu samstarfi.
Þrjár af helstu áhyggjum Evrópubúa þegar kemur að matvælaöryggi eru lyfjamisnotkun í búfé (44%), varnarefnaleifar (leifar skordýraeiturs/illgresiseyða) í matvælum (39%) og mengun úr umhverfi (37%). Minnkun á notkun varnarefna er meðal margra nýrra tillagna á sviði matvælaframleiðslu og landbúnaðar. Í Evrópu er strangt eftirlit með notkun varnarefna, bæði m.t.t. matvælaöryggis og líffræðilegrar fjölbreytni. Áhættumatið er reglulega uppfært með tilkomu nýrra vísindalegra gagna. Með hlýnandi loftslagi færast ýmsar pestir á ný svæði og geta haft alvarlegar afleiðingar á uppskeru, auk beinna áhrifa loftlagsbreytinga á jarðveg.
Meðferð dýra hefur einnig áhrif á matvælaöryggi. Stress gerir dýr móttækari fyrir sjúkdómum sem geta borist milli dýra og manna. Evrópsk dýravelferðarlöggjöf setur háa staðla en íslenska löggjöfin gengur enn lengra, ekki eingöngu í að tryggja velferð dýra heldur einnig heilbrigði búfjárafurða.
Að mörgu er að huga sem sameina má í hugtakið Eina heilsu til einföldunar og til vitundarvakningar.
Mynd: úr safni
-
Markaðurinn5 dagar síðan
Er þorrablót í vændum ?
-
Starfsmannavelta2 dagar síðan
Er Bryggjan hætt starfsemi?
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun6 dagar síðan
Monkeys PopUp á Hótel Vesturlandi – Ekki missa af þessum viðburði
-
Nemendur & nemakeppni5 dagar síðan
Meistaradagurinn í Hótel- og matvælaskólanum
-
Frétt5 dagar síðan
Fallist á allar kröfur MATVÍS í dómsmáli gegn Flame
-
Markaðurinn1 dagur síðan
Koffmann er loksins fáanlegt á Íslandi
-
Markaðurinn4 dagar síðan
Wolt hefur sendingar á Stokkseyri og Eyrarbakka
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel1 dagur síðan
Matargestir ferðast aftur í tímann til villta vestursins – Myndir og vídeó