Vertu memm

Markaðurinn

Ár breytinga, mikilla anna og stórra ákvarðana. Pistill eftir Óskar Hafnfjörð Gunnarsson formann hjá Matvís

Birting:

þann

Ár breytinga, mikilla anna og stórra ákvarðana. Pistill eftir Óskar Hafnfjörð Gunnarsson formann hjá Matvís

Óskar Hafnfjörð Gunnarsson

Nú er að líða undir lok ár sem hefur verið bæði annasamt og lærdómsríkt í starfsemi MATVÍS og Fagfélaganna. Árið 2025 einkenndist af miklum umbrotum; stórum ákvörðunum, breytingum á innri verkferlum og jafnframt af áframhaldandi uppbyggingu á sameiginlegri starfsemi Fagfélaganna.

Í upphafi ársins hlotnaðist mér sá heiður að vera kjörinn formaður Fagfélaganna. Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður RSÍ og nýkjörinn þingmaður, hafði sinnt þessu hlutverki fram að því. Það var auðvitað eftirsjá af Kristjáni þegar hann tók sæti á þingi því samstarf okkar hafði verið mjög farsælt. Kraftar hans nýtast hins vegar vel á nýjum vettvangi og það er mikilvægt fyrir iðn- og verkgreinar að eiga fulltrúa á þingi sem þekkir inn að beini þau viðfangsefni sem vinnumarkaðurinn og iðnfélög standa frammi fyrir.

Innleiðing kerfa

Stór verkefni biðu Fagfélaganna strax í fyrsta mánuði ársins. Þá voru innleidd ný þjónustukerfi fyrir félagsfólk, kerfi sem snerta daglegt vinnuumhverfi starfsfólks okkar með beinum hætti. Um var að ræða nýtt félagakerfi og nýtt kerfi fyrir útleigu og umsýslu orlofshúsa. Frá áramótum var sú breyting einnig gerð að Fagfélögin tóku við innheimtu félagsgjalda.

Svona breytingar eru aldrei einfaldar og kalla á mikla samvinnu, þolinmæði og skipulagningu. Reynslan af þessum innleiðingum sýnir svo ekki verður um villst hversu dýrmætt starfsfólk Fagfélaganna er. Án öflugs og samstillts starfsfólks hefðu þessar breytingar ekki gengið jafn smurt og raun ber vitni.

Samstarf félaganna hefur eflst enn frekar í kjölfar þessara breytinga. Sameiginlegum kerfum fylgir betri yfirsýn en þau kalla líka á aukna samvinnu og samræmingu ákvarðana. Þessar breytingar hafa orðið til þess að efla þjónustu við félagsfólk. Um það snýst okkar vinna.

Kraftmikið vinnustaðaeftirlit

Fagfélögin hafa frá haustinu 2023 átt samstarf við Eflingu um vinnustaðaeftirlit. Þau Mirabela Blaga og Adam Kári Helgason annast eftirlitið og eiga í nánu og góðu samstarfi við aðra eftirlitsfulltrúa og stjórnvöld. Mörg þeirra stóru fréttamála sem upp hafa komið í tengslum við brot á réttindum og vinnumansal tók vinnustaðaeftirlitið okkar þátt í að vinna. Þar voru mál sem sneru að veitingageiranum sérstaklega áberandi.

Þetta öfluga vinnustaðaeftirlit hefur ekki farið fram hjá hreyfingunni. Þannig hafa bæði ASÍ og félög á landsbyggðinni falast eftir því að fá þau Adam og Mirabelu til sín til að leiðbeina eða aðstoða. Þau hafa á árinu komið fram á ráðstefnum og haldið ýmis erindi um vinnu sína. Það er mín skoðun að frekari samræming vinnustaðaeftirlits milli stéttarfélaga sé mikilvæg. Í því samhengi má nefna að í haust gekk Félag iðn- og tæknigreina til liðs við vinnustaðaeftirlit Fagfélaganna og Eflingar. Aðstæður á vinnumarkaði sýna að full þörf er að efla eftirlitið enn frekar.

Leigufélag og orlofsíbúðir

Stórt skref var stigið á árinu með kaupum Fagfélaganna á 30 íbúðum á Eirhöfða. Í krafti fjöldans fengust íbúðirnar afar hagstæðu verði en aðrar íbúðir þessara þriggja félaga á höfuðborgarsvæðinu voru seldar eða eru í söluferli.

Tíu íbúðir af þessum þrjátíu voru settar inn í leigufélag Fagfélaganna, sem stofnað var að fyrirmynd annarra stéttarfélaga. Þær íbúðir voru auglýstar og 80 manns, félagsfólk úr Fagfélögunum, sóttu um. Tíu fjölskyldur voru dregnar út og hafa þær þegar komið sér fyrir í glænýjum leiguíbúðum þar sem örugg langtímaleiga og hagkvæmt leiguverð eru í forgangi. Ef reynslan verður góð er markmiðið að stækka leigufélagið smám saman. Ljóst er að eftirspurnin á meðal félagsfólks okkar er mikil.

Hinar 20 íbúðirnar voru keyptar sem orlofs- og sjúkraíbúðir. Stór hluti þeirra var tekinn í notkun í desember en við þetta fjölgaði íbúðum MATVÍS á höfuðborgarsvæðinu úr einni í tvær. Það er afar ánægjulegt að geta aukið framboð íbúða á höfuðborgarsvæðinu með þessum hætti og eflt þannig þjónustuna við þá félaga sem þurfa að sækja þjónustu eða sinna erindum á höfuðborgarsvæðinu. Með þessu skrefi er verið að byggja upp mikilvægan þátt í þjónustu við félagsfólk og nýta sameiginlegan styrk félaganna til að ná fram hagkvæmni og betri lausnum. Þetta á ekki síst við um rekstur íbúðanna, sem verður nú mun hagkvæmari en áður. Starfsfólk Fagfélaganna annast nú þrif og þjónustu við þessar íbúðir; verkefni sem áður voru á höndum fjölmargra verktaka.

Öflugt fræðslustarf

Á árinu sem er að líða var einnig lögð rík áhersla á fræðslu- og félagslegt starf. Trúnaðarmannaráðstefna Fagfélaganna var haldin á Selfossi og þar komu saman trúnaðarmenn úr félögunum til að stilla saman strengi og ræða helstu viðfangsefni vinnumarkaðarins. Flugfreyjufélag Íslands stóð í fyrsta sinn með okkur að þessari ráðstefnu en FFÍ hefur, eins og raunar fleiri félög, verið að koma í auknum mæli inn í starf Fagfélaganna. Það sama á við um SVG – Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur. Þessi félög hafa komið sér fyrir í húsi Fagfélaganna.

Sameiginleg námskeið voru haldin á árinu og kaffisamsæti fyrir eldri félagsmenn bæði á Stórhöfða og fyrir norðan nutu mikilla vinsælda. Met var slegið þegar um 150 manns sóttu lífeyrisnámskeið Fagfélaganna á dögunum. Þar komust færri að en vildu. Þessir viðburðir skipta miklu máli, ekki aðeins fyrir miðlun upplýsinga heldur einnig fyrir samheldni og tengsl. Einnig má nefna fjármálanámskeið sem Fagfélögin héldu fyrir ungt fólk. Það var afar vel sótt. Þessi vaxandi fræðslustarfsemi Fagfélaganna er afrakstur aukinnar samvinnu.

Kvennaár 2025

Árið 2025 var jafnframt kvennaár í víðum skilningi. Kvennaverkfallið minnti okkur á mikilvægi jafnréttis og þess að rödd kvenna fái að heyrast skýrt í samfélaginu og á vinnumarkaði. Þessi umræða snertir stéttarfélögin með beinum hætti og undirstrikar mikilvægi þess að við stöndum vörð um jafnrétti í öllum sínum myndum. Fagfélögin tóku virkan þátt í Kvennaári og stóðu sjálf fyrir nokkrum vel heppnuðum viðburðum í tengslum við þessa dagskrá.

Vel heppnuð þátttaka á Euroskills

Sumarið og haustið litaðist af undirbúningi og þátttöku Íslands í Euroskills, evrópumóti iðn- og verkgreina. Keppnin fór fram í Herning í Danmörku. Um er að ræða mikilvægan viðburð fyrir okkar greinar en þrír af 12 íslenskum keppendum á Euroskills voru úr matvæla- og veitingagreinum. Við áttum keppendur í matreiðslu, framreiðslu og bakaraiðn. Þátttakan á Euroskills styrkir tengsl okkar við alþjóðlegt samstarf, eykur sýnileika iðngreina og undirstrikar mikilvægi fagmennsku og verkþekkingar í nútímasamfélagi.

Erfitt er að koma orðum að stærð og umfangi þessa viðburðar án þess að upplifa keppnina á eigin skinni en þess má geta að um 100 þúsund áhorfendur fylgdust með keppninni í Herning. Hún fór fram í tólf keppnishöllum yfir þrjá keppnisdaga.

Íslenski hópurinn stóð sig með mikilli prýði og var landi, þjóð og sínum iðngreinum til sóma í hvívetna. Einn íslenskur keppandi, Gunnar Guðmundsson, komst á verðlaunapall í keppni í iðnaðarrafmagni. Þetta er í annað sinn sem Ísland kemst á verðlaunapall í þessari stóru keppni. Næsta keppni fer fram í Þýskalandi 2027.

Heillaskref að vinna saman

Árið 2025 var ár breytinga, stórra ákvarðana og mikilla anna. Þátttaka MATVÍS í starfi Fagfélaganna hefur leitt til þess að þjónusta félagsins hefur eflst til muna, hvort sem litið er til meðferðar kjaramála, vinnustaðaeftirlits, fræðslustarfsemi, styrkja eða orlofsmála. Félagið hefur eflst til muna og reynslan sýnir að stofnun Fagfélaganna var mikið heillaskref fyrir þau félög sem að þeim standa. Það á ekki aðeins við um þá þætti sem hér hafa verið taldir upp heldur höfum við einnig séð þess bein merki í kjarasamningsgerð. Um það ber kjarasamningur MATVÍS við Reykjavíkurborg, sem gerður var í fyrsta sinn á síðasta ári, glöggt vitni. Þessi árangur gefur okkur tilefni til að vera óhrædd við að halda áfram á sömu braut og styrkja samstarfið enn frekar í þágu félagsfólks og hagsmuna iðnmenntaðs fólks til framtíðar.

Að lokum vil ég færa félagsfólki MATVÍS, samstarfsfélögum innan Fagfélaganna og starfsfólki þeirra bestu þakkir fyrir gott samstarf á árinu sem er að líða. Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári, með þökkum fyrir árið 2025.

© Óskar Hafnfjörð Gunnarsson, formaður

Pistillinn var áður birtur á matvis.is

Mynd: matvis.is

Viltu birta grein á Veitingageirinn.is? Sendu okkur póst [email protected]. Með pistlinum þarf að fylgja nafn höfundar, titill og mynd.

Vínkjallarinn

Auglýsingapláss

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið