Frétt
ANR hættir við skerðingu tollkvóta fyrir kjöt
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið (ANR) hefur hætt við áform um að umreikna tollfrjálsa innflutningskvóta fyrir kjötvörur frá Evrópusambandinu yfir í ígildi kjöts með beini, en slíkur umreikningur hefði skert tollfrjálsan innflutning um allt að þriðjungi.
Þetta kemur fram í svari ANR við erindi Félags atvinnurekenda frá því í byrjun maí á síðasta ári, en svarið barst félaginu í árslok eftir að erindið hafði verið margítrekað.
Í tilkynningu, sem ráðuneytið birti á vef sínum í byrjun maí 2018, sagði að unnið væri að því að hrinda þessum umreikningi í framkvæmd sem „mótvægisaðgerð“ við tollasamning Íslands og ESB, sem tók gildi 1. maí síðastliðinn. Samkvæmt samningnum fara tollfrjálsir innflutningskvótar fyrir kjöt mjög stækkandi næstu fjögur ár. FA gagnrýndi áformin um skerðingu kvótanna með umreikningi harðlega í erindi sínu til ráðuneytisins og benti á að í tollasamningnum væri hvergi kveðið á um að tollfrjálsir innflutningskvótar fyrir kjötvörur skuli miðaðir við kjöt með beini. Samningurinn tæki því til hvort heldur er innflutnings á úrbeinuðu kjöti eða kjöti með beini. FA benti einnig á að slíkir innflutningskvótar fyrir kjöt, byggðir á milliríkjasamningum, hefðu verið í gildi á Íslandi í 23 ár, eða frá því WTO-samningurinn tók gildi árið 1995. Alla tíð hefði verið miðað við innflutning á kjöti hvort heldur er með eða án beins.
ESB breytir framkvæmdinni varðandi lambakjöt
Ráðuneytið bar fyrir sig að Evrópusambandið hefði við innflutning á íslensku lambakjöti á tollkvóta miðað við kjöt með beini. Í tilkynningu Michaels Mann, sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi, sem birtist á Facebook 14. maí, kom fram að hvað varðaði allt annað kjöt, sem flutt væri út frá Íslandi til ESB á tollfrjálsum kvótum, væri miðað við nettóvigt. Hins vegar væri í gildi undantekning vegna lambakjöts sem ætti sér „sögulegar skýringar“. Í athugasemdum við færsluna kom fram af hálfu sendinefndar ESB í Reykjavík að forsaga undantekningarinnar væri í skoðun hjá framkvæmdastjórn ESB í Brussel, en við fyrstu sýn virtist hún vera arfleifð frá WTO-samningnum, sem hefði af einhverjum ástæðum lifað áfram í tollasamningi ESB og Íslands, sem gerður var 2015.
Í bréfi ráðuneytisins til FA, sem barst nærri átta mánuðum eftir að erindið var sent, segir að nýlega hafi fengist þær upplýsingar frá Evrópusambandinu að framkvæmdinni hvað varðar innflutning kindakjöts hafi verið breytt og sé nú miðað við nettóvigt í öllum tilvikum. „Þar af leiðandi gerir ráðuneytið ekki ráð fyrir því að svo stöddu að framkvæmdinni verði breytt frá því sem verið hefur hvað varðar ofangreint.“
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir þessa niðurstöðu fagnaðarefni. „Það er afar jákvætt að Evrópusambandið hefur tekið af allan vafa um framkvæmd samningsins sín megin og þá standa engin rök til þess að breyta framkvæmdinni á Íslandi. Umreikningurinn hefði skert verulega hag bæði neytenda og innflytjenda. Nú blasir hins vegar við að það aukna framboð á innfluttu kjöti á hagstæðu verði, sem samningurinn gaf fyrirheit um, mun ganga eftir,“ segir Ólafur.
Ákvörðun tekin hálfu ári eftir tilkynningu
Í erindi FA var einnig spurt um aðra „mótvægisaðgerð“, sem ráðuneytið sagði að væri komin til framkvæmda, en það er að auglýsa tollkvóta samkvæmt samningnum við ESB tvisvar á ári en ekki einu sinni. FA spurði hvar og hvernig þessi ákvörðun hefði verið birt og óskaði eftir afriti af öllum vinnugögnum sem hana snertu. Í svari ráðuneytisins kemur fram að þegar tilkynningin birtist í maí, hafi engin ákvörðun verið tekin. Hún hafi ekki verið tekin fyrr en í nóvember 2018, hálfu ári eftir að tilkynningin birtist – og mánuði áður en erindi FA var svarað.
Ólafur Stephensen segir að FA dragi ekki í efa að ráðuneytið hafi lagaheimild til að auglýsa tollkvóta tvisvar á ári. „Hins vegar var það, sem birtist í tilkynningu ráðuneytisins í maí, augljóslega rangt þar sem engin formleg ákvörðun hafði verið tekin um fyrirkomulag úthlutunar á tollkvóta fyrir árið 2019 eða næstu ár. Það er mikilvægt vegna áætlanagerðar að innflutningsfyrirtæki fái réttar upplýsingar frá stjórnvöldum og það spillir ekki fyrir að það taki skemmri tíma en átta mánuði að leiðrétta rangfærslur. Við hvetjum ráðuneytið til að bæta upplýsingagjöf sína,“ segir Ólafur.
Mynd: úr safni
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun3 dagar síðan
100 myndir frá hátíðarkvöldverði KM
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun4 dagar síðan
Fyrsta heildstæða kennsluefnið í matreiðslu gefið út eftir 70 ára kennslusögu – Myndir frá útgáfuteitinu
-
Nemendur & nemakeppni4 dagar síðan
Reynir Grétarsson matreiðslumeistari með áhugavert fræðsluerindi um súkkulaðigerð – Myndir
-
Markaðurinn4 dagar síðan
Uppskrift – Mozzarella fiskréttur
-
Frétt14 klukkustundir síðan
Myllan innkallar heimilisbrauð
-
Markaðurinn2 dagar síðan
World Class barþjónakeppnin – Skráning 2025
-
Markaðurinn9 klukkustundir síðan
Spennandi tækifæri
-
Markaðurinn3 dagar síðan
Bóndadagsgjöf ástríðukokksins