Valdís Ósk Ottesen
Valdís Ósk Ottesen er 32 ára frumkvöðull sem býr á Akranesi ásamt eiginmanni sínum, Svein Andra Stefánssyni, og þremur sonum. Hún var í mörg ár búin að vera með hugmynd í maganum sem hún átti erfitt með að skilgreina að fullu. Eitthvað líkt brúðkaupsskipulagi, almennu veisluskipulagi og utanumhaldi líkt og á ensku er kallað “event planner”.
Þegar Covid skall á þá náði hún að finna tíma til að koma hugmyndinni á blað og byrja að skipuleggja fyrir alvöru fyrirtækið sem hún sá fyrir sér. Svo í mars á þessu ári þá lét hún slag standa og stofnaði fyrirtækið Viðburðaþjónar.
Móttökurnar voru strax við stofnun hreint út sagt ótrúlegar! Viðburðarþjónar eru búnir að halda utan um ótal veislur, allt frá smáum heimaviðburðum til 1200 manna árshátíða. Valdís segir að galdurinn sé persónuleg þjónusta. Að virkilega hlusta á viðskiptavininn, hvað hann sér fyrir sér og hrinda því í framkvæmd.
Starfsfólkið hjá Viðburðarþjónum er tilbúið til að skoða og útfæra allt sem hefur komið upp. Valdís segir dýrmætt að hafa svona frábært fólk í vinnu og algjör undirstaða góðrar framkvæmdar. Hafa svo fagmennsku og heiðarleika að leiðarljósi í öllu sé lykillinn að velgengni.
Valdís er með framreiðslugen í blóðinu ef svo má segja. Móðir hennar, Elín Margrét Jóhannsdóttir, er menntaður framreiðslumaður og hefur verið Valdísi ómetanlegur stuðningur í ferlinu. Bæði sem faglegur ráðgjafi sem og yndisleg amma drengjanna þriggja.
Valdís Ósk er einnig menntaður framreiðslumaður frá Menntaskólanum í Kópavogi þar sem hún útskrifaðist 2016. Allan starfsferilinn hefur þjónusta og framreiðsla verið rauði þráðurinn þar sem hún hefur m.a. starfað hjá Orkuveitu Reykjavíkur og Perlunni.
Það fylgja því ýmis mismunandi verkefni að halda utan um viðburði fólks. Hver einn og einasti viðburður er mjög mikilvægur þar sem þetta er oft stund sem fólk er að upplifa drauma sína, líkt og t.d. Í brúðkaupum. Viðburðaþjónar sáu m.a. um brúðkaupið hjá Grétu Salóme og Elvari Þór í apríl á þessu ári. Það var mjög falleg brúðkaup þar sem allt gekk upp og brúðhjónin mjög ánægð með alla þjónustu og utanumhald.
Oft eru þó vandamál sem þarf að leysa og segir Valdís að eitt algengasta vandamálið sé að fólk vanmetur þörfina á fjölda þjóna miðað við stærð viðburða. Til að allt utanumhald sé faglegt og vel gert þá er þumalputtareglan að það þarf 1 þjón á hverja 25 gesti.
Stundum eru viðskiptavinir ekki sáttir að heyra þessa tölu á undirbúningstímanum en nánast undantekningalaust þakka þau fyrir að viðburði loknum. Segja að þetta hefði bara ekki gengið upp með færra fólki.
Framtíðin hjá Viðburðaþjónum er sannarlega björt! Það er allt uppbókað þar til í janúar 2024 og bókanir fyrir 2024 eru komnar vel á veg. Þetta hafa verið frábærar viðtökur og Valdís gæti ekki verið spenntari fyrir komandi ári og verkefnum.
Hægt er að finna Viðburðaþjóna á öllum helstu samfélgasmiðlum:
Facebook: Viðburðaþjónar
Instagram: Viðburðaþjónar
Sími: 859 9210
Netfang: [email protected]
Myndir: aðsendar