Pistlar
Að vera eða vera ekki….. meistari
Ég er pirraður maður að eðlisfari, læt margt fara í taugarnar á mér. Þessa dagana hef ég verið að virða fyrir mér skoðanakönnun er haldin er á upphafssíðu mína um breytingar á matreiðslunámið, þegar þetta er ritað eru 57 % fylgjandi því að annað hvort eigi að leggja niður meistarakerfið eða fella út meistaraskólann, persónulega sé ég ekki mikinn mun á þessu tvennu. Það eru greinilega margir sammála mér um að kerfið eins og það er í dag er mjög svo ábótavant og mein-gallað. Ástæðurnar eru fjölmargar og tekið skal fram að þær skoðanir sem fram koma í þessari grein eru mínar persónulega, sem ég hef myndað mér í gegnum tíðina. Og nú skal byrjað.
Fyrir „nokkrum“ árum, um 1991 að mig minnir, var meistarakerfinu breytt, nú þurfti menn að setja á skólabekk í samtals 3 annir. Fyrir þá sem að vita það ekki, fengu flestir meistarabréfið sent heim til sín eftir 2 ára starf í greininni, eina vandamálið var hvort að menn vildu fá meistarabréfið með skrautskrift eða ekki. Einfalt, gott og engum mismunað.
Deila má um ágæti þess kerfis, en náttúrlega var engin skortur á meisturum, því að það voru einfaldlega allir meistarar. Fyrir okkur hin tók sum sé við seta á skólabekk og langar mig aðeins að koma inn á það. Hótel- & matvælaskólinn (hér eftir einfaldlega nefndur skólinn) fékk það vandaverk að kenna okkur hin hvernig átti að vera meistari í hinum ýmsum iðngreinum, verk sem að greinilega ekki vafðist fyrir neinn fyrr en á níunda áratuginn. Nú skal viðurkennast að undirritaður hefur ekki kynnt sér til hlítar námsskránna hjá skólanum, en reyndi þó að hefja meistaranám i haust en var frá að horfa vegna tímaskorts. Það var nú það fyrsta sem undirritaður tók eftir, þegar hafið var nám í skólanum, að ekki var gert ráð fyrir að menn stunduðu vinnu né ætti fjölskyldu samhliða náminu. Það kunna kannski einhverjir að kalla mig grenjuskjóðu, en ég hef nú alltaf haft þá reglu að vinnan og fjölskyldan gangi fyrir öllu öðru.
Það var fínt að stunda meistaranámið mánudaga til fimmtudaga frá 14:00 til 19:00, með litin heimalærdóm, en þegar svo fóru að hellast yfir mönnum miðannar-próf og ritgerðarverkefnum, auk þess sem að allt í einu var líka ætlast til að menn tæki val-áfanga í námskeiðsformi sem haldin voru á laugardögum & sunnudögum frá 09:00 til 17:00 var mér spurn: Hvenær ætti menn að stunda sína vinnu? Eins gott að eiga skilningsríka og velstæða vinnuveitendur, já og einnig skilningsríka fjölskyldu. Annað sem að sló mig sem frekar undarlegt var að eitt helgarnámskeiðið sem ætlast var til að tekið væri, var eitthvað súkkulaðinámskeið, tempra súkkulaði og svoleiðis og var kostnaðurinn við þetta námskeið, að mig minnir 6.000,- kr. Það vill nú svo undarlega til að ég ef ekki neinn áhuga á súkkulaði, finnst reyndar mjög gott að borða það, en áhugi minn á súkkulaði endar þar.
Því á ég sem frjáls vesturlandabúi að þurfa taka eitthvað námskeið sem ég hef engan áhuga á og sem fullorðin maður og fagmaður með einhverja reynslu veit að mun ekki nýtast mér neitt í framtíðinni?
Mér er spurn, verð ég verri meistari eða fagmaður fyrir vikið? Það er sum sé mín reynsla að skólinn hefur sína kosti en einnig sína galla. Jæja, nú þegar ég er búinn að segja raunarsögu mína um skólann, er komið að næsta lið, hin svokallaði Klúbbur Matreiðslumeistara, sem er frekar lokað samfélag, sem að mínu mati ræður allt of miklu. Án þess að fara út í eitthvað persónulegt skítkast á einstaka menn og eins öfugt að setja aðra á lægra stalla en þeir eiga skilið, en frekar að reyna að ræða um klúbbinn sem sjálfstæða einingu, vonandi án þess að einstakir menn taki það allt of persónulega (annað kom nú á daginn, innsk. höf).
Reyndar er nú alls ekki auðvelt að nálgast upplýsingar um þetta „leyni-félag“, heimasíða þeirra: http://www.icelandic-chefs.is hefur legið niðri um all-langt skeið, svo að ég hef ekki undir höndum lög þeirra, félagatal osfrv. Reyndar hef ég nú ekki lagt mig hart fram við að nálgast þessi gögn, því að þar sem ég er ekki meistari (er nú reyndar ekki lengur nauðsynlegt til að fá inngöngu í samtökin, innsk. höf) , fæ ég ekki að leika við „stóru strákana“ og sjálfsagt eftir þessa grein eru möguleikar mínir enn minni. Flestir þeirra sem í klúbbnum eru, fengu meistarabréfin sín sent í pósti og þurfti því lítið að hafa fyrir því að uppfylla frumskilyrði þess að komast í klúbbinn.
Þessir menn eru fulltrúar okkar hinna útávið í hinum stóra heimi matreiðslunnar. Ráða t.d. hverjir eru í landsliðinu… nú verð ég víst að auglýsa fávisku mína um samstarfsfólk mitt í greininni, en hvað eru margir í landsliðinu sem lokið hafa meistaranámi??? Þeir eru nú reyndar allir víst í KM. Að mínu mati er þessi klúbbur hálf-gerður risa-eðlu-klúbbur, einhverjir gamlir karlar sem flestir eru hættir að vinna (eða þykjast vinna einhvers staðar), fara í kokkajakkann einu sinni í mánuði (á fundum) og segja hvort öðrum frægðar sögur af sjálfum sér frá 1970. Reyndar skal það tekið fram að undirritaður hefur aldrei setið fund hjá KM. Og þar sem meisturum í greininni hefur að augljósum ástæðum farið ört fækkandi undanfarinn ár, er þessi klúbbur því hægt og rólega að deyja út, nema tvennt komi til, meistaranámið verður fellt niður (breytt), eða þeir fari að hleypa nýju blóði inn í samtökin, þ.e. ungum mönnum sem ekki hafa lokið meistaranámi. (Þeir eru nú byrjaðir að hleypa „óbreyttum“ inn í samtökin, innsk. höf). Reyndar er nauðsynlegt að hleypa nýju blóði í hvaða samtök sem er. Nóg um KM í bili.
Annað sem ég hef verið að hugsa um er tilgang þess að leggja það á sig að gerast meistari, hvaða réttindi öðlast maður? Maður getur jú skrifað á sig nema, en þar sem að fleiri og fleiri staðir eru einfaldlega ekki með starfandi meistara, breytir það einhverju? Ég þekki persónulega til alla veganna 3 veitingastaði þar sem meistarinn sem skrifaður er fyrir nemana hefur aldrei starfað á staðnum, eða löngu hættur. Launalega séð held ég að það breytir ekki svo miklu, annað hvort er maður góður fagmaður eða ekki, sveinsbréf og meistarabréf breytir litlu í þeim málum. Þannig ef launin hækkar ekki, nemarnir skrifast bara á einhvern annan og öllum reyndar sama, til hvers þá að leggja það á sig að klára meistaranámið?
Ef einhver umræða um meistaranámið og KM myndast í kringum þennan pistil er það að mínu mati hið bezta mál, ég vonast alltaf til að fá svona „Hate-mail“, það hefur nú bara gerst einu sinni áður, það var á fyrstu dögum Veitingavefsins (http://www.veitingavefurinn.is), þegar ég var með bókahorn þar og var með bókagagnrýni um bók Nönnu Rögnvalds, Matarást, hún var ekki ánægð með sumt er kom fram í skrifum mínum þar og sendi mér mitt fyrsta „Hate-mail“ (þakka þér Nanna) og vonandi verða þau fleiri, bæði frá henni og vonandi frá fleirum líka. Það þarf lítið til að gleðja mig þessa dagana.
Andreas Jacobsen 2001
-
Uppskriftir4 dagar síðan
Meðlæti með jólamatnum
-
Markaðurinn2 dagar síðan
Girnilegt camembert jólatré með döðlu og pekan krönsi
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel2 dagar síðan
Mikil uppbygging framundan á Hofsstöðum – Veitingastaðurinn með eigin framleiðslu og hráefni úr heimabyggð
-
Markaðurinn2 dagar síðan
Ekta rjómaís með hvítu súkkulaði og piparkökum – Fullkominn á veisluborðið yfir hátíðarnar
-
Markaðurinn3 dagar síðan
Hátíðar opnun Hafsins
-
Frétt9 klukkustundir síðan
34 veitingastaðir birtu matseðil og annað kynningarefni bara á ensku
-
Markaðurinn1 dagur síðan
Uppskrift – Fylltar kjúklingabringur með eplum, Dala höfðingja og rósmarín-hlynsírópsgljáa
-
Markaðurinn9 klukkustundir síðan
Hátíðarkveðjur