Vertu memm

Frétt

Afnám tolla myndi lækka verð á matvörum um allt að 43%

Birting:

þann

Afnám tolla myndi lækka verð á matvörum um allt að 43%

Á Íslandi eru háir tollar lagðir á innflutt matvæli. Viðskiptaráð hefur tekið saman áhrif þessara tolla á verð nokkurra vara sem eru vinsælar í innkaupakörfum íslenskra heimila. Ef tollar væru afnumdir myndi verð þeirra lækka umtalsvert:

  • Häagen-Dazs rjómaís myndi lækka um 19%
  • Maarud Potetgull snakki myndi lækka um 32%
  • Írskar nautalundir myndu lækka um 37%
  • Mozzarella ostur myndi lækka um 38%
  • Philadelphia rjómostur myndi lækka um 38%
  • Danskar kjúklingabringur myndu lækka um 43%

Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að afnema tolla á innfluttar matvörur, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Viðskiptaráðinu . Reynslan sýnir að það væri meiriháttar kjarabót fyrir íslensk heimili í formi lægra vöruverðs, aukins vöruúrvals og bættra gæða.

Tollar eru ofurskattar á mat

Tollar eru ofurskattar á mat og stærsta orsök hás matvælaverðs á Íslandi. Heildarskattlagning á framangreindar matvörur nemur frá 38% upp í 105% ofan á innflutningsverð. Tollar, í formi magntolls og verðtolls, vega þar þyngst.

Tollar eru sérstaklega skaðlegir samanborið við hóflegri skatta. Þeir valda allratapi í formi hærra vöruverðs, minni samkeppni og skertu aðgengi fólks að viðkomandi vörum. Með afnámi tolla væru ofurskattar á matvörur úr sögunni, sem myndi lækka matvælaverð verulega og bæta þannig kjör íslenskra heimila.

Tollar draga úr úrvali og gæðum

Afnám tolla myndi lækka verð á matvörum um allt að 43%

Skaðsemi tolla birtist ekki einungis í hærra matvælaverði. Tollar draga einnig úr vöruúrvali og gæðum. Það stafar af því að minna er flutt inn af mat sem ber tolla. Fyrir vikið verður vöruúrval fátæklegra, valkostir neytenda færri og gæðin minni.

Tollar valda einnig óhagkvæmni þar sem þeir hamla samkeppni í viðkomandi atvinnugreinum. Skortur á samkeppnislegum hvötum heldur atvinnugreinum í fjötrum og dregur bæði úr nýsköpun og fjárfestingu. Þannig draga tollar einnig úr hagkvæmni og verðmætasköpun, sem rýrir lífsgæði samfélagsins.

Þetta er einnig mat Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, en í úttekt hennar frá 2017 segir: „Tollar hamla milliríkjaviðskiptum og vinna því gegn því að vörur séu framleiddar þar sem það er hagkvæmast. […] Almennt er því talið að tollar dragi úr velferð. Óheft milliríkjaviðskipti eru sérstaklega mikilvæg fyrir smáþjóðir vegna þess að þar munar allajafna mest um viðskipti við útlönd.“

Afnám vörugjalda skilaði sér

Árin 2015 til 2016 voru vörugjöld og tollar afnumin á allar vörur nema matvörur. Sú breyting leiddi til verulegra verðlækkana og hefur reynst ein stærsta kjarabót íslenskra heimila undanfarna áratugi. Úttekt Hagfræðistofnunar á áhrifum afnámsins sýndi að það skilaði sér til neytenda og verð allra vara sem undir voru lækkaði. [1]

Til viðbótar jók afnám vörugjalda vöruúrval á Íslandi. Fjöldi fataverslana hefur opnað bæði hefðbundnar verslanir og netverslanir hérlendis eftir afnámið, því þá var skattlagning á fatnað orðin samkeppnishæf við grannríkin. Áður þurftu Íslendingar að heimsækja margar af stærri fatakeðjum erlendis vegna hárrar skattlagningar heima fyrir.

Stígum skrefið til fulls

Engin ein aðgerð stjórnvalda myndi bæta kjör íslenskra heimila jafn mikið og afnám tolla á matvörur. Reynslan af vörugjöldum sýnir að afnám tolla myndi skila sér í formi lægra matvælaverðs og aukins vöruúrvals á afar skömmum tíma.

Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að afnema að fullu tolla á matvörur. Auk lægra matvælaverðs, aukins vöruúrvals og meiri gæða felst í þeirri aðgerð samfélagslegur ávinningur í formi aukinnar samkeppni, hagkvæmni og verðmætasköpunar.

Um aðferðafræðina: Viðskiptaráð áætlaði áhrif afnáms tolla á nokkrar vörutegundir út frá verði þeirra í dagvöruverslunum. Við drógum frá því verði virðisaukaskatt, álagningu, verðtoll og magntoll til að áætla innflutningsverð. Við bættum síðan aftur við sama álagningarhlutfalli auk virðisaukaskatts til að áætla smásöluverð án tolla. Forsendur og heimildir eru tollskrá, áætlun opinberra aðila á álagningu heild- og smásala á innflutt matvæli, auk verslana og vefsíðna nokkurra mismunandi dagvöruverslana.

Myndir: vi.is

Smári er matreiðslumaður að mennt, en hann hefur starfað við fagið til fjölda ára, bæði sem starfsmaður og rekstraraðili. Hægt er að hafa samband við Smára á netfangið [email protected] Skoða allar greinar höfundar hér >>

Auglýsingapláss

Podcast / Hlaðvarp

Auglýsingapláss

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið