Vertu memm

Freisting

Áhugamaðurinn eldaði fyrir forsetann

Birting:

þann


Júlíus Garðar Júlíusson og Hr. Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands

Júlíus Garðar Júlíusson eða Júlli eins og hann er oft kallaður heldur úti skemmtilegri vefsíðu sem hann kallar einfaldlega „Matarsíða áhugamannsins“.  Þann 26. mars s.l kom Hr. Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands ásamt fylgdarliði í óvænta stutta heimsókn til Dalvíkur og var Júlli fenginn til að elda fyrir höfðingjann.

Það eru ófáar fréttirnar sem hafa birst hér á Freisting.is af þeim matreiðslumeisturum sem hafa eldað hátíðarkvöldverði fyrir forsetann, en þetta er fyrsta fréttin um áhugamamann sem eldar fyrir forsetann.

Eftirfarandi er pistillinn hans Júlla um upplifun við að elda fyrir forsetann:

Þann 26. mars s.l kom Hr. Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands ásamt fylgdarliði í óvænta stutta heimsókn til Dalvíkur. Ég var beðinn um að elda fyrir hann og gesti  samtals 20 manns í hádeginu..já sæll…ég sagði já um leið og var að sjálfsögðu upp með mér að fá þessa beiðni…skemmtilegt að vera áhugamaður og geta sagst hafa eldað fyrir forsetann.

Það var stuttur tími til stefnu og það þurfti að huga að matseðli og  ekki nóg með það heldur einnig með hvað hætti þetta væri gert því það var tekin ákvörðun um að þetta yrði á kaffistofunni í fiskhúsi hér í bæ hjá O. Jakobsson , ekkert dúkað upp eða neitt svoleiðis, bara heimilislegt og sem eðlilegast. Mjög skemmtilegt fyrir utan að það er engin aðstaða til eldunar og engin áhöld eða borðbúnaður, þannig að ég þurfti að hugsa þetta út frá því og einnig tímanum sem hann hafði. Það varð úr að ég ákvað að hafa einn kaldan disk með nokkrum réttum á og vetrarfiskisúpu með brauði og kaffi og konfekt á eftir. Veðrið var ekta norðlenskt þennan dag, hríð úti og snjór á gluggum alveg eins og það á að vera. 

Það var ræs kl 6 og Eiður Máni 9 ára sonur minn var kominn á fætur rétt á eftir mér til að hjálpa, þannig að hann flysjaði gulrætur þar til að hann þurfti að fara í skólann ( Tjáði mér það að hann vildi nú frekar vera heima og elda fyrir forsetann heldur en að fara í skólann). Þar sem að aðstaðan var ekki mikil í fiskhúsinu þurfti ég að elda allt heima og pakka og flytja það þangað. Þar sem við settum köldu réttina á alla diska þurfti pláss til að gera það, inni á lofti í fiskhúsinu er borð sem passaði fyrir alla diskana, þannig að þetta var skemmtilega öðruvísi að búa til mat og setja á diska fyrir forsetann uppi á lofti við íslenskar aðstæður….enda er áríð núna 2009…ekki 2007. 

Þar sem að þetta var að morgni og allir í vinnu var erfitt að finna einhvern til að hjálpa en það hafðist allt saman, Gréta konan mín er kennari og fékk að skjótast í viðverutíma til að aðstoða mig á loftinu góða sem betur fer, en þetta hafðist allt saman þegar gestirnir komu í hús var ég rétt búinn að raða á diskana og nokkrir gestanna gripu diska með sér fram í kaffistofunamargar hendur vinna létt verk. Helga og Agnes frá O. Jakobsson aðstoðuðu við að leggja á borð og fleira.

En að matseðlinum, ég ákvað að hafa hann heimafenginn sem sagt matur úr Dalvíkur  byggð. Lomos saltfisksteik frá Ektafiski á Hauganesi, léttsaltaður saltfiskur frá O. Jakobsson, steinbítur frá Norðurströnd og Dagmanni, þorskur og rækjur í súpuna frá Samherja, rúgbrauð bakaði sameiginleg frænka okkar Ólafs Ragnars, Herborg sem er skyld mér í móðurætt og Ólafi í föðurætt, ég var einnig búin að biðja Önnu Dóru á Klængshóli um að baka fyrir mig fjallagrasabrauð með súpunni en hún lagðist í flensu kvöldið áður, þannig að ég fékk nýbökuð súpubrauð hjá stelpunum í Samkaup. Á kalda diskinum var rúgbrauð með steinbítsplokkfiski með ólífum, dilli og góðri kaldpressaðri ólífuolíu, saltfiskur frá Ektafiski, með sesam og  döðlu rótargrænmeti, léttsaltaði þorskhnakkinn frá O. Jakobsson með ferskum Mozarella, tómötum, basil, hvítlauk og olíu. Saltfiskinn x2 setti ég í stutta stund í ofn, penslaða með olíu og örlítið af svörtum pipar úr kvörn á fiskinn frá Ektafiski. Með var látlaust salat, fetaostur, íssalat, gúrka og paprika. Drykkir:pilsner frá Viking, sítrónutoppur og vatn úr fiskhúskrananum  .

Ég gerði nýja útgáfu af uppskriftinni minni úr bókinni „Meistarinn og áhugamaðurinn“ Vetrarfiskisúpa Dalvíkingsins, kröftug súpa með bleikju, þorsk og rækju. (Náði ekki nógu góðri mynd af súpudisk, en set eina sem ég tók ofan í pottinn. Forsetinn og gestir voru í skýjunum með þessa hádegisstund á kaffistofu O. Jakobsson og dásömuðu allan matinn, þannig að ég er einnig í skýjunum og meira en það. Þegar allir voru orðnir vel mettir var boðið uppá kaffi og konfekt, ég ákvað að koma ekki með neina bolla heldur nota þær kaffikönnur og bolla sem voru til á staðnum, allir þekkja hvernig þetta er á kaffistofum, vel notaðar könnur og bollar með sál og sögu og nánast engin eins.

Ein kannan var merkt Man Utd ég rétti forsetanum hana, því að í skólanum um morguninn höfðu börnin spurt forsetann með hvaða liði hann héldi í enska boltanum og auðvitað heldur hann með rétta liðinu. Að lokum færði ég forsetanum áritað eintak af „Meistarinn og áhugamaðurinn“ og DVD diskinn um Fiskidaginn mikla sem forsetinn er mjög hrifinn af.

Þetta var virkilega skemmtilegt og er öllum sem aðstoðuðu með hráefni, lán á búnaði og fleira hér með þakkað fyrir.

Fleiri myndir frá veislunni er hægt að skoða með því að smella hér.

Heimasíða Júlla er: www.juljul.blog.is

Mynd: juljul.blog.is

/Smári

 

Smári er matreiðslumaður að mennt, en hann hefur starfað við fagið til fjölda ára, bæði sem starfsmaður og rekstraraðili. Hægt er að hafa samband við Smára á netfangið [email protected] Skoða allar greinar höfundar hér >>

Auglýsingapláss
Click to comment

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Podcast / Hlaðvarp

Auglýsingapláss

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið