Pistlar
Minning um mat
Það var að rifjast upp fyrir mér – mætti halda að ég væri uppfull af fortíðarhyggju þessa dagana, ekkert nema afmæli af ýmsu tagi í gangi – að í vor á ég þrjátíu ára stúdentsafmæli.
Og í tilefni af því ætla ég að setja hér ræðuna sem ég hélt þegar við urðum 25 ára stúdentar og kallaði Minning um mat. Hún birtist reyndar á heimasíðu árgangsins á sínum tíma og ég setti tengil á hana þá en sú síða er löngu horfin af netinu. Allavega er þetta hér:
Minning um mat
Þegar hún Geirþrúður hringdi og bað mig um að tala hér í kvöld, þá svaraði ég því til eftir nokkra umhugsun að ég skyldi gera það ef ég mætti tala um mat. Ég hef hvort eð er ekki vit eða áhuga á að tala um neitt annað. Hún samþykkti það strax en ég veit ekki hvort hún tók mark á mér, hún veit að ég segi stundum eitt og annað sem ekki er alvarlega meint. En ég meinti þetta.
Ég hitti reyndar Guðmund Gylfa á einhverri búllu hér í bæ í gærkvöldi og það barst í tal að ég ætti að halda hér ræðu. Þegar ég sagðist bara ætla að tala um mat kom hálfgerður skelfingarsvipur á hann og hann spurði: ,,Ætlarðu þá ekkert að tala um árganginn? Hann hefur kannski haldið að ég ætlaði að vera með grillkennslu hér á sviðinu. En ég ætla að tala um árganginn okkar, bara á minn hátt í gegnum mat.
Ja, kannski mat og drykk. Ég var orðin svo uppfull af nostalgíu hérna fyrir helgina að þegar ég gekk framhjá Ríkinu, þá flögraði að mér eitt andartak að athuga hvort gamlir kunningjar á borð við félagana Torres og Taylor væru enn til, þótt ekki væri ég nú svo langt leidd að ég fylltist af fortíðarþrá eftir Stjána bróður eða kínversku sykurleðjunni Sunflower, sem seld var í svo háum flöskum að langur grænn hálsinn stóð ævinlega upp úr skólatöskunni og maður þurfti að fara úr úlpunni niðri á Eyrarlandsvegi hvernig sem viðraði og leggja hana yfir þennan ógnarlanga háls til að komast framhjá árvökulum augum skólameistara, sem alltaf fylgdist vel með mannaferðum að vistinni síðdegis á föstudögum. Og ég fór að hugsa um hvað hann Þorri og aðrir vínskríbentar hefðu haft að segja um þessar veigar ég er nokkuð viss um að þeir hefðu ekkert minnst á opinn ilm eða hnetukennda tóna eða glefsur af oxuðum eplum.
Fyrir mörg okkar, sem komum úr sveitum og þorpum víða um land og þekktum ekki annað en eldamennskuna heima hjá mömmu var það nokkur lífsreynsla að koma í mötuneyti Menntaskólans á Akureyri í fyrsta skipti. Að ganga niður í kjallara á slaginu sjö þá náði biðröðin þegar frá afgreiðsluborðinu og hlykkjaðist eftir löngum ganginum allt út að dyrum, framhjá berangurslegum langborðum sem hvert um sig skartaði niðurmjórri stálkönnu fullri af mjólk, því á þeim árum drakk fólk ekki annað en mjólk með mat og arftakar þeirra Torresar og Taylors voru enn langt undan, vatn var meira að segja lítt þekkt sem drykkur. Fólk tyllti sér gjarna á borðbrúnirnar eða stólbökin og einu sinni henti það einhvern að setjast beint ofan í eina mjólkurkönnuna. Ég ætla ekki að fullyrða að það hafi verið Siggi Hró en í minningunni er það alltaf Siggi sem lenti í þess háttar óhöppum. Það var að minnsta kosti örugglega hann sem braut rúðuna í stigaganginum þegar hann var að sýna hvernig hann hafði farið að því að brjóta sömu rúðuna fyrr þann sama dag.
Röðin gekk hratt áfram, fólk streymdi framhjá með hrúgaða diska og maður undraðist hvað flestir voru svangir og ætluðu að borða mikið. Ég man ekki fyrir víst hvað var í matinn en ætla að gefa mér að það hafi verið steiktir hjólbarðar. Mér finnst að það hafi verið svo oft hjólbarðar í matinn þarna, þangaðtil felgurnar leystu þá af hólmi að hluta. (Hjólbarðar, fyrir óinnvígða, eru kringlóttar sneiðar af kjötbúðingi, líkast til sérlega hollustusamlegum af því að hann var blandaður grænmeti frá ORA í meðalsneið mátti finna tvær grænar baunir og einn gulrótarbita.) En það var örugglega kartöflustappa með.
Loksins kom svo að því að ég stóð andspænis vörpulegu liði matselja mötuneytisins í fyrsta sinn, ég komst klakklaust framhjá þeirri fyrstu en skyndilega stóð fyrir framan mig gerðarleg miðaldra kona, svört á brún og brá, jós kartöflustöppu á disk og spurði um leið Viltu meira? Mér vafðist andartak tunga um tönn, var enda ekki búin að komast að því að þarna taldist þögn sama og samþykki, og áður en ég vissi af var diskurinn fleytifullur af kartöflustöppu. Þá tók næsta kona við og hrúgaði hjólbarðasneiðum ofan á og þá hafði ég rænu á að segja stopp ekki nógu fljótt að vísu, það lærðist smátt og smátt að rétti tíminn til að svara spurningunni Viltu meira? var áður en hún var borin upp. Og nú skildi ég af hverju allir höfðu virst hafa svona góða matarlyst, og ég sá líka rusladallana á enda afgreiðsluborðsins, þar sem fólk losaði sig við leifarnar sagt var að þær væru seldar í svínabú þar sem 200 svín lifðu góðu lífi á þeim.
Ég átti eftir að borða þarna kvölds og morgna í þrjá vetur og það kom fljótt upp úr dúrnum að matseðillinn var í nokkuð föstum skorðum, fiskur á mánudögum og KEA-pylsur um kvöldið í bland við sunnudagsafgangana, grjónagrautur og kleinur í hádeginu á laugardögum, heitt brauð með hangikjöti og osti á sunnudagskvöldum og var tilhlökkunarefni, og þar á milli til dæmis skóbætur, hassí, fiskur í vatni, handsprengjur, kjöt í myrkri, súpa sem kölluð var gula vatnið til aðgreiningar frá græna vatninu við eigum ábætisréttinn eftir svo að ég held ég fari ekki að lýsa eftirréttum eins og teygjugraut og Gulu hættunni.
Þær leifar sem ekki fóru í svínin fóru í nemendur, því að á föstudögum voru allir afgangar vikunnar brytjaðir niður, steiktir og bornir fram með spæleggi. Þetta kallaðist slys og var mikil íþrótt að efnagreina innihaldið og þekkja úr þriðjudagsafgangana, fimmtudagsafgangana og svo framvegis einhverjir þóttust stundum greina afgangana af slysi vikunnar á undan en það var aldrei sannað.
Frómt frá sagt, þá var þetta yfirleitt ekki vondur matur. Þetta var heldur ekki góður matur. Hann var bæði og og hvorki né, að vísu öllu meira hvorki né, en hann var sjaldan óætur, kannski að undanskildum nokkrum úldnum gellum og einhverju öðru fiskakyns. Maður þurfti bara að tileinka sér það íslenska viðhorf að það sem borið er fyrir mann, það borðar maður án þess að hafa skoðun á því matur er til að nærast á, ekki til að tala um eða velta því fyrir sér hvernig hann bragðast. Ég hef oft orðið vör við að þetta situr býsna fast í mörgum gömlum MA-ingum ekki að þeir kunni ekki að meta góðan mat eða hafi engan áhuga á mat, en þeir borða það sem fyrir þá er sett fljótt og umyrðalaust og án þess að mögla, miklu fremur en aðrir. Þó held ég að engir séu eins æðrulausir í þessum efnum og þeir sem komu í MA úr héraðsskólum landsins. Þeir litu margir hverjir á mötuneytið sem háborg matargerðarlistar að fenginni reynslu af héraðsskólamötuneytunum.
En ef manni leist ekki á matinn, sem vissulega var búið að borga fyrir, þá voru fáar leiðir færar. Það var hægt að rölta niður á Teríuna, heilsa upp á Símon ég held að ég hafi varla komið svo inn á Teríuna þau fjögur ár sem ég var á Akureyri að Símon hafi ekki annaðhvort verið þar fyrir eða komið á meðan ég stóð þar við eða rjómakökuöreigana, eins og Akureyrardeild KSML, kommúnistasamtakanna marx-leninista, var stundum kölluð og mun hafa stafað af því að einhvern tíma þegar meinfýsinn menntskælingur kom inn á Teríuna sat hálf deildin þar og gúffaði í sig tertusneiðum og þarna gat svangt fólk fengið sér smurt brauð eða jafnvel vínarsnitsel með grænum baunum og rauðkáli, ef hungrið svarf harkalega að.
Og ef maður var óvenju vel stæður, dreifbýlisstyrkurinn nýkominn eða maður hafði unnið í fiski allt páskafríið, þá var hægt að bregða sér yfir götuna á Bautann og panta þar hamborgara eða eina helstu kúlinarísku sensasjón þessara ára, körfukjúkling, sem var eins og nafnið bendir til borinn fram í bastkörfu og borðaður með höndunum en ekki hnífapörum og þótti afar merkilegt. Hænsnfuglar voru náttúrlega óþekktir á matseðli mötuneytis MA og sáust þar ekki fyrr en aðrir höfðu tekið þar við sleifum. Þá fór fólk líka að fá grænmeti með matnum og aðrar nýmóðins tilfæringar. En þá varð matarreikningurinn líka öllu hærri.
Ég varð aldrei mikill Akureyringur í mér, sem sannast á því að ég man miklu betur eftir vondu veðri en góðu á Akureyri. Kannski vegna þess að ég var hér aldrei á sumrin. Hitt veit ég fyrir víst að það var alltaf gott veður í vorprófunum þótt hún Geirþrúður reyndi að halda öðru fram í gær og eftir að hafa legið í sólbaði og lesið í Stefánslundi, sem nú er horfinn, eða í Lystigarðinum, sem vonandi er enn á sínum stað, þá lá leiðin mjög oft niður í Brynju, þar sem fékkst besti ís í heimi og gengu af því sögur að það væri af því að ísvélin væri aldrei þvegin. Þetta mun hafa verið uppspuni en einhver galdur var þarna á ferðinni, ég hef bara einu sinni fengið ís sem mér fannst nálgast Brynjuísinn og það var í ísbúð í Búdapest sem er líka skrifað um í flestum ferðamannahandbókum um þá borg. Ég hef aldrei skilið hvers vegna Brynjuísnum hefur ekki verið gert jafnhátt undir höfði.
En reyndar hef ég ekki smakkað hann í 25 ár. Kannski er galdurinn horfinn, kannski var þetta aldrei annað en venjulegur ís. Það er svo margt sem maður miklar með sér með árunum, svo margt sem maður á ekkert að vera að reyna að endurupplifa og er best geymt sem minningar um tíma sem er löngu horfinn og kemur aldrei aftur.
Til dæmis komst ég að því í gær að það er bara ekkert varið í það lengur að láta sprauta á sig ísköldu vatni. En fólk þroskast misjafnlega og þeir sem finnst ennþá gaman í vatnsslag mega skemmta sér við það mín vegna. Fyrir okkur hin felst skemmtunin hins vegar í því að hitta gamla vini og félaga, rifja upp gömul kynni og verða tvítug aftur í anda en ekki í athöfnum. Það vona ég og veit að okkur hefur tekist að gera þessa helgi og mun takast hér í kvöld.
Góða skemmtun.
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel2 dagar síðan
Iðunn Mathöll á Akureyri opnar í dag
-
Frétt2 dagar síðan
Atvinnurekanda skylt að greiða matreiðslumanni 1,4 milljónir króna vegna vangreiddra launa
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel1 dagur síðan
Veitingastaðurinn MAR opnar á Frakkastíg
-
Frétt5 dagar síðan
34 veitingastaðir birtu matseðil og annað kynningarefni bara á ensku
-
Markaðurinn4 dagar síðan
Wolt “wrapped” samantektin – Það sem Íslendingar pöntuðu á árinu 2024
-
Markaðurinn4 dagar síðan
Kalkúnaveisla með öllu tilheyrandi
-
Markaðurinn2 dagar síðan
Fljótlegur hátíðareftirréttur – Einfaldasta skyrkaka í heimi
-
Keppni3 dagar síðan
Skráning hafin á Íslandsmót nema og ungsveina í matvæla -og veitingagreinum