Vertu memm

Smári Valtýr Sæbjörnsson

Langbest og Menu veitingar í samstarf og buðu til alvöru þakkargjörðarhátíðar

Birting:

þann

Þakkargjörðarhátíð eða Thanksgiving

Hluti af aðgangseyri rann í styrktarsjóð Sigvalda Arnars Lárussonar en hann hefur verið að safna peningum fyrir brýn málefni barna á Suðurnesjum. Á myndinni er f.v. Ingólfur hjá Langbest, Sigvaldi og Ási í Menu.

Þakkargjörðarhátíð eða Thanksgiving var haldin á Keflavíkurflugvelli eins lengi og Varnarliðið var hér á landi en lagðist af með brotthvarfi hersins. Ingólfur Karlsson og Helena Guðjónsdóttir á veitingastaðnum Langbest á Ásbrú ákváðu svo árið 2009 að endurvekja hefðina á sjálfan þakkargjörðardaginn, að því er fram kemur á vf.is.

Fyrsta árið mættu 100 manns í þakkargjörðarveislu en á síðasta ári voru matargestirnir orðnir 300 talsins og mikill fjöldi varð frá að hverfa. Það var því ljóst að gera þurfti ráðstafanir í ár miðað við þær vinsældir sem veislan er farin að njóta. Þakkargjörðarveislan í ár hefur því verið færð frá Langbest yfir í Officeraklúbbinn á Ásbrú.

Ingólfur hafði samband við Ásbjörn Pálsson veitingamann í Menu veitingum sem hefur Officeraklúbbinn á sínum snærum. Þeir hafa nú snúið bökum saman og buðu upp á þakkargjörðarveislu á fimmtudaginn 26. nóvember s.l.  Það tíðkaðist á tímum Varnarliðsins að íslenskum fjölskyldum starfsmanna Varnarliðsins var boðið á völlinn á þakkargjörðardaginn þar sem slegið var upp veislu í Officeraklúbbnum og Messanum. Þangað mættu hundruð Keflvíkinga og Njarðvíkinga í kalkúnaveislu.

Ingólfur Karlsson kokkaði ofan í Varnarliðsmenn í tólf ár, bæði í Messanum og í Rockville. Þar komst hann yfir gamla og vinsæla uppskrift sem hann hefur haldið sig við æ síðan og var notuð í veislunni, segir á vf.is.

Þakkargjörðin er ein heilagasta hátíð Bandaríkjamanna og maturinn sem boðið er uppá er hátíðarmatur. Í grunninn er veislan byggð á kalkúnabringu. Einnig er í boði gljáð skinka og með þessu er boðið upp á sætar kartöflur með sykurpúðum. Þá er kartöflumús og tilheyrandi sósa og að sjálfsögðu fylling auk þess sem sultuð trönuber eru borin fram með matnum. Þá er hefð fyrir bökum ýmiskonar í eftirrétt.

Viðtal við Ingólf og Ásbjörn í vef TV Víkurfrétta:

Þakkargjörðarveislan sem haldin var í Officeraklúbbnum var hlaðborð þar sem fólk borgar eitt gjald við innganginn og getur svo borðað á sig gat.  Þar var mikið af meðlæti og svo matreiðslumenn í sal sem voru að skera kalkúninn niður á diska fyrir fólk.

Verðinu var stillt í hóf eða 2950 kr. á mann, 7-12 ára greiða barnagjald og 6 ára og yngri fengu frítt.  Þá fór hluti af aðgangseyri í söfnun Sigvalda Lárussonar fyrir börn.

 

Myndir: Jóhann Páll Kristbjörnsson hjá Skissu – Menu4u.is

Greint frá á vef Víkurfrétta vf.is.

 

Smári er matreiðslumaður að mennt, en hann hefur starfað við fagið til fjölda ára, bæði sem starfsmaður og rekstraraðili. Hægt er að hafa samband við Smára á netfangið [email protected] Skoða allar greinar höfundar hér >>

Podcast / Hlaðvarp

Auglýsingapláss

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið