Pistlar
Viltu taka við keflinu? Það styttist í Alþjóðadag Matreiðslumanna
Þann 20. október er Alþjóðadagur Matreiðslumanna „International Chefs Day“. Þessi dagur er á vegum Alþjóðasamtaka Matreiðslumanna Worldchefs.org – WACS.
Það er farið fram á að kokkar reyni að fara í skóla og kynna daginn. Undirritaður er í nefndinni á vegum samtakanna og er ég því að kynna málið fyrir veitingastéttinni.
Það er Nestlé sem er aðal sponsor þessa dags og hafa þeir gefið út hugmyndir að hvernig skuli framkvæma málið og er hægt að finna link á vefsíðu samtakanna. Áður en þessar hugmyndir voru settar fram hafði ég farið í skóla í nokkur ár og haldið mín eigin námskeið á töluvert annan hátt. Nefndarmenn og stjórn samtakanna vita af þessu og hafa ekki kvartað. Í fyrra fór ég í 5 skóla á Reykjanesinu og náði til 540 nema.
Þess vegna ætla ég að segja ykkur frá minni aðferð sem að mínum dómi er mun áhrifaríkari. Þið munið sjá það þegar og ef þið skoðið vefsíðu hugmyndina. Námskeiðin voru haldin fyrir eldri deildirnar í skólanum á meðan hádegisverður var borðaður og ég samdi við skólann um að allir fengju að vera með, en í sumum skólum eru nemendur áskrifendur að matnum en aðrir ekki.
Ég hef farið í september og beðið um viðtal við skólastjóra og útskýrt málið og beðið þá um að velja dag sem næst 20. október. Ég gerði líka samning við Skólamat um að þann dag sem ég væri með námskeiðið mundu þeir vera með mína uppskrift á matseðlinum. Það gekk í hittifyrra en í fyrra fengu þeir svo marga nýja skóla inn að þeir treystu sér ekki að gera það aftur. Þetta er aftur á móti ekkert mál þar sem maturinn er lagaður á staðnum.
Ég sagðist mundi koma með öll áhöld og bað um að skólinn mundi skaffa hljóðkerfi og kasta því sem væri gert á borðinu upp á tjald fyrir aftan. Þetta gekk í öllum skólunum. Ég kæmi með allt hráefni í réttinn. Ég mætti með 2 gashellur. 2 skurðarbretti, 2 djúpar pönnur, 2 svokallaða hálf álbakka, 2 hnífa, 2 sleikjur og skeiðar til að skammta bragðprufur. Mætti líka með litlar plastskálar og plast gafla til að smakka með. Mætti í fullum skrúða og með extra kokkajakka húfur og svuntur.
Ég byrjaði á að kynna mig, síðan Klúbbinn, síðan alheimssamtökin, útskýrði 20. október, talaði um matarsóun og að menn ættu ekki að setja meira á diskinn en þeir ætluðu að klára, það væri jafnvel betra að borða aðeins of lítið en að henda mat. Talaði um hversu mikilsvert er fyrir ungt fólk að borða fjölbreyttan og hollan mat. Þá valdi ég einn nemenda úr skólanum. Spurði hvort einhver ætti afmæli í dag eða gær eða á morgun.
Klæddi hann í kokkajakka, setti á hann húfu og svuntu, Síðan sagði ég nemanum að gera allt eins á hans helming á borðinu eins og ég gerði. Var með allt hráefni í sósuna tilbúið í tveimur af öllu. Tók álbakkann, stráði fínt söxuðum lauk í botninn, skar fiskflak í litla bita og fyllti botninn á bakkanum, kreisti sítrónusafa yfir. Hafði samið við skóla eldhússtarfsmann um að hafa kveikt á ofninum á 200 gráðum og hann tók við fisknum og setti í ofninn í 8 mínútur. Þá byrjaði ég að laga sósu og neminn gerði allt eins og ég og ég útskýrði allt jafn óðum í hátalara kerfinu.
Um sama leiti og fiskurinn kom var sósan til, safanum af fisknum var hellt úti og hrært saman. Sósunni hellt yfir fiskinn og nemendur fengu sem svarar einum munnbita og enn hjálpaði eldhússtarfsmaðurinn við að stýra í smakkið. Uppskriftin var ýsa með rjóma blaðlaukssósu og mun hún fylgja hér með.
Uppskriftin er að vísu fyrir fjóra en það þarf að laga passlega mikið fyrir hálfan bakka. Ég borgaði hráefni úr eigin vasa en ég reikna með að flestir muni geta fengið það sem þarf hjá sínum vinnuveitenda.
Þetta var algerlega frábær skemmtun og í einum skólanum bað einn nemandi mig að fá mynd af sér í kokkajakkanum og það varð til þess að um sennilega 35 til 40 fengu mynd með kokknum.
Nú skora ég á sem allra flesta að skoða hvort ekki er hægt að setja þetta á dagskrá. Því miður er ég búsettur á Spáni svo ég get ekkert gert í málinu.
Ef einhver vill meiri upplýsingar, þá er síminn minn +354 898 8196 og emailið [email protected].
Matreiðsluaðferð.
- Fiskurinn er skorinn í hæfilega bita.
- Bleytið fiskinn í sítrónusafa.
- Setjið álpappír í botninn á eldfastri skál eða ofnskúffu.
- Stráið fínt söxuðum lauk á álpappírinn.
- Raðið fiskbitunum ofaná laukinn, frekar þétt.
- Brettið kantinn á álpappírnum upp svo safinn af fisknum renni ekki frá honum. Þarf ekki ef bakkinn er fullur.
- Setjið í miðjan 180 til 200C heitan ofn í um 8 til 12 mínútur eftir þykkt fisksins.
- Hellið eða sigtið safanum af fisknum í sósuna og hrærið samanvið.
- Frosnir fiskbitar eru matreiddir á sama hátt nema það þarf að bæta við 10 mínútum sem þýðir 18 til 22 mínútur í blástursofni en 22 til 27 mínútum í venjulegum heimilisofni.
Einnig má skera fiskinn í þunnar lengjur, rúlla honum upp og matreiða á sama hátt og hér að ofan. Einnig er hægt að rúlla fisknum í kringum tvo fingur og fylla holuna eftir suðu.
Uppskriftin er fyrir 4.
Blaðlaukssósa
- 20 cm. langur partur af hvíta endanum af blaðlauknum.
- Kljúfið hann langsum og skolið í vatni, skerið í ½ cm. sneiðar
- 3 matskeiðar smjör
- ½ bolli rjómi
- ½ bolli kjúklingasoð
- 1 matskeið maísmjöl til að þykkja.
Bræðið smjörið í pott eða pönnu. Bætið blaðlauknum útí, lækkið hitan lítið eitt og kraumið í 3 til 4 mínútur, hrærið stöðugt í. Laukurinn á als ekki að brúnast. Bætið vökvanum útí og látið sjóða í 2 til 3 mín. Hrærið kartöflumjölið út í 2 matskeiðum af vatni eða kjúklingasoði og þykkið sósuna. Bragðið til ef þarf og berið fram með fisknum. Berið fram með soðnu grænmeti og grófu brauði.
© Hilmar B. Jónsson, matreiðslumeistari
-
Uppskriftir5 dagar síðan
Meðlæti með jólamatnum
-
Markaðurinn3 dagar síðan
Girnilegt camembert jólatré með döðlu og pekan krönsi
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel3 dagar síðan
Mikil uppbygging framundan á Hofsstöðum – Veitingastaðurinn með eigin framleiðslu og hráefni úr heimabyggð
-
Markaðurinn3 dagar síðan
Ekta rjómaís með hvítu súkkulaði og piparkökum – Fullkominn á veisluborðið yfir hátíðarnar
-
Markaðurinn4 dagar síðan
Hátíðar opnun Hafsins
-
Frétt21 klukkustund síðan
34 veitingastaðir birtu matseðil og annað kynningarefni bara á ensku
-
Markaðurinn2 dagar síðan
Uppskrift – Fylltar kjúklingabringur með eplum, Dala höfðingja og rósmarín-hlynsírópsgljáa
-
Markaðurinn21 klukkustund síðan
Hátíðarkveðjur