Hinrik Carl Ellertsson
Veitingarstaðurinn Lava | „… frábær upplifun, bæði matarlega og bara andlega“
Það var 24 janúar s.l. á sjálfan bóndadaginn sem ég ásamt konu minni lagði bílnum fyrir utan Bláa Lónið. Hef ekki farið þarna í þó nokkurn tíma en mér finnst það samt alltaf jafn heillandi og næstum því framandi því flestir tala ensku og það er eitthvað svo útlenskt við að koma þangað.
Við hoppuðum fyrst ofan í lónið og mér finnst það hreint út sagt yndislegt. Umhverfið og stemmningin sem þeir hafa náð að skapa þarna er ótrúleg og er þetta tvímælalaust einn af “must see” stöðum á Íslandi.
Ekki er nú dýrt fyrir okkur íslendinga að fara í Bláa lónið, eins og margir halda, en hægt er að fá vetrarkort á sanngjörnu verði:
Vetrarkort f. Einstaklinga kr. 15.000,-
Einstaklings vetrarkort veitir ótakmarkaðan aðgang í Bláa Lónið yfir vetrartímann (1. sep – 31. maí) í heilt ár frá útgáfu. Gildir fyrir 1 fullorðinn og 2 börn undir 16 ára í fylgd með forráðamanni.Vetrarkort f. fjölskyldu kr. 20.000,-
Fjölskyldu vetrarkort veitir ótakmarkaðan aðgang í Bláa Lónið yfir vetrartímann (1. sep – 31. maí) í heilt ár frá útgáfu. Gildir fyrir 2 fullorðna og 4 börn undir 16 ára í fylgd með forráðamönnum.
Eftir þessa spa upplifun og kísilmall var ferðinni heitið á veitingarstaðinn Lava að smakka á matseðlinum sem færði Viktori Erni titilinn Matreiðslumaður ársins 2013 en það var upprunalegi tilgangur ferðarinnar. Þetta er seðill sem er búinn að vera í gangi hjá þeim í einhvern tíma og verður eitthvað áfram. Hann samanstendur af þeim þremur réttum sem Viktor skilaði af sér ásamt listauka.
Við frúin settumst niður og var boðið að drekka. Tjáði ég þjóninum að þeir mættu alfarið ráða ferðinni. Og góð ferð sem þetta var.
Lystaukinn var á kjúklingarlifrarfrauð með bláberjum og brauðteningum.
Virkilega gott frauð og gaman hvað brauðteningarnir gerðu mikið fyrir áferðina og bláberin brutu þetta upp með skemmtilegri sýru. Góð byrjun.
Þá var komið að forréttinum. Skarkoli og humar með léttreyktu humarsalati, hnúðkál, perlulaukur, lynghænuegg, beikon og skelfiskfroða.
Kolinn var fullkomlega eldaður og humarsalatið ferskt, beikonið kom með skemmtilegt saltbragð í réttinn og rauðan í lynghænuegginu smellpassaði með meyrum humrinum. Án efa besti forréttur sem ég hef fengið lengi.
Svo var það aðalrétturinn. Steiktur nautaframhryggur “Rib eye” og nautakinn. Brioche kartöflur, kremaðir sveppir og gulrófa.
Þarna var á ferðinni vel hangið kjöt sem var virkilega bragðgott, kartöflurnar sem komu með voru þær bestu sem ég hef nokkurn tímann smakkað, mjög léttar og flauelsmjúk áferðin á þeim var dásamleg. Kinnin var algjört sælgæti og grænmetið batt réttinn vel saman. Virkilega góður réttur.
Svo var það eftirrétturinn. Rifsber og grískt jógúrt. Karamellusúkkulaði, heslihnetur og rifsberjamarengs.
Þessi réttur er alveg þess virði að gera sér sérferð suður bara til að smakka hann. Frábær samblanda af bragði og áferð. Með betri eftirréttum sem ég hef smakkað.
Á heildina litið var þetta frábær upplifun, bæði matarlega og bara andlega, fátt betra en að sitja inn í miðju hrauni og njóta góðs matar í góðum félagsskap. Brynjar Ingvarsson, sem var þjónninn okkar um kvöldið, sýndi fram á fumlausa og skemmtilega þjónustu og voru vínparanir hans og vitneskja um vínin hrein skemmtun að fylgjast með.
Yfirkokkur kvöldsins var Ingi Þ. Friðriksson og leystu þeir þetta verkefni frábærlega úr hendi. Greinilegt er að þetta var engin heppni hjá honum Viktori með sigurinn í þessari keppni því mikil vinna og hugsun fór augljóslega í hvern einasta hlut.
Gengum við hjónin saman út í myrkrið sæl og glöð og með tilhlökkun um að koma aftur á Lava að fá okkur að borða og það fyrr en seinna.

-
Markaðurinn3 dagar síðan
Matreiðslumaður óskast á veitingahúsið Sauðá á Sauðárkróki
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun2 dagar síðan
Centrum stækkar með nýrri viðbót í gamla Pósthúsbarnum
-
Keppni2 dagar síðan
Dagur Jakobsson sigraði í Graham’s Blend Series Kokteil keppninni – Myndir og vídeó
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun4 dagar síðan
Matarveisla í Reykjavík: Stjörnukokkar töfra fram íslenska sælkerarétti
-
Vín, drykkir og keppni3 dagar síðan
Einstök keppni í dag á Gilligogg – hver hristir besta kokteilinn í Graham’s Blend Series?
-
Keppni2 dagar síðan
Hraði og hreinlæti tryggðu Sævari Helga sigur í barþjónakeppninni – Myndaveisla
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun4 dagar síðan
Fermingarundirbúningur í brennidepli – Kynningarsýning í Múlabergi
-
Markaðurinn3 dagar síðan
Ostakubbur bakaður með eggjum – einföld og dásamleg uppskrift