Vertu memm

SSS-Sveitin

Perlan – Veitingarýni

Birting:

þann

Veitingahúsið Perlan

Þær fréttir bárust út á haustmánuðum að Perlan myndi loka um áramótin. Ekki fylgdi með ástæða fyrir þeirri lokun önnur en sú að það fengjust hærri leigutekjur af „lundabúðum“ og öðrum söluvarningi fyrir ferðafólk. Ef það er rétt, eru það sorgleg tíðindi og vanhugsuð.  Perlan opnaði formlega 21. júní 1991 og hefur síðan verið áberandi í veitingaflóru höfuðborgarinnar.

Veitingahúsið Perlan

Veitingahúsið Perlan

Við SSS félagarnir ákváðum því að heiðra staðinn með því að heimsækja hann í síðasta sinn. Jólahlaðborð skyldi það vera. Við komum þangað á mánudagskvöldi. Pöntuðum borð fyrstu dagana í desember og ekki seinna vænna því það virtist allt vera að seljast upp.

Það er ekki ætlunin að telja hér upp alla þá rétti sem eru á borðinu né lýsa þeim. Úrvalið er mikið og gott, enda margrómað eins og aðsóknin bendir til.
Þegar komið er að borði með svo miklu úrvali er eins gott að vera búinn að ákveða að nokkru leiti fyrir fram hvað maður ætlar að smakka, það er of mikið að borða af öllum sortum, það er einfaldlega of mikið fyrir venjulegan maga.  En hér er allt vel skipulagt.

Veitingahúsið Perlan

Gæsasúpa

Villigæsasúpa var borin fram á borðið til hvers og eins. Hún var rétt volg og gaf strax tóninn að ekki væru allir á tánum þó var súpan bragðgóð og vel útlítandi.

Það eftirminnilegasta af borðinu er:

  • Hvalacarpaccio
  • Gæsa og kjúklingalifrarmousse
  • Hreindýrapaté með pístasíum og rúsínum

Allt ofantalið var hreinasta sælgæti.

Purusteikin var eftirminnanleg fyrir þær sakir að hún var upphituð. Kokkurinn var í vandræðum með að skera hana í gegn, hluti hennar var orðinn skorpinn.

Ris a l´allemande.  Skemmtilegt að sjá nafnið á þessum rétti skrifað rétt samkvæmt gömlum uppskriftum, t.d. í dönsku kokkabókinni (Þýsk hrísgrjón). Hins vegar var þeirri uppskrift ekki fylgt.
Hér var boðið upp á þykkan og þungan graut með óræðu bragði. Þetta er því miður of algengt á íslenskum veitingahúsum. Upprunalega uppskriftin er með mun meiri þeyttum rjóma og vanillu þannig að úr verður léttur, mjúkur og bragðgóður eftirréttur.  Eftirréttir voru góðir að öðru leiti.

Eftirréttahlaðborðið var mjög fjölbreytt og engan vegin hægt að smakka alla réttina.

Þjónustan var í meðallagi, engin flugeldassýning.  Í þrígang vantaði hnífapör þegar við komum til baka með rétti úr hlaðborðinu og það vildi svo til að við lentum alltaf á sama framreiðslumanninum að biðja um hnífapör.  Þegar þjónninn tekur diska af borðum á hann að benda fólki á að halda eftir hnífapörunum, ekki segja það eftir á með þjósti; „Þið verðið að passa upp á að hnífapörin verði ekki tekin af ykkur“.

Perlan hefur ætíð verið þekkt fyrir góðan mat og þjónustu. Hér virtist kominn einhver losarabragur á, ef til vill vegna væntanlegra loka.

Kvöddum staðinn í síðasta sinni og héldum hræðrir en minnugir margra gleðilegra snúninga í veitingastað Perlunnar, út í stjörnubjarta nóttina.

Þeir félagar Sigurður Einarsson, Sigurvin Gunnarsson og Smári Valtýr Sæbjörnsson skipa SSS sveitina. Hér er á ferðinni matreiðslumenn hoknir af áratuga reynslu í veitingabransanum. Hægt er að hafa samband við SSS sveitina á netfangið: [email protected]

Podcast / Hlaðvarp

Auglýsingapláss

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið