Frétt
Ölgerðin gerir samkomulag um kaup á Gæðabakstri
Ölgerðin hefur undirritað samkomulag um helstu skilmála kaupa á 100% hlut í Gæðabakstri ehf. Fyrirtækið er í 20% eigu Vilhjálms Þorlákssonar framkvæmdastjóra Gæðabaksturs og 80% í eigu
Dragsbæk A/S í gegnum dótturfélagið Viska ehf. Heildarvirði viðskiptanna er 3.454 millj. kr. og að frádregnum vaxtaberandi skuldum er áætlað kaupverð félagsins á afhendingardegi um 2.700 millj. kr.
Kaupin eru gerð með fyrirvara um niðurstöðu áreiðanleikakönnunar, endanlega skjalagerð og samþykki Samkeppniseftirlitsins. Gæðabakstur verður rekið sem sérstakt félag innan samstæðu Ölgerðarinnar og verður Vilhjálmur Þorláksson áfram framkvæmdastjóri. Náist rekstrarmarkmið á næstu tveimur árum eftir kaupin kann kaupverð á hans hluta að hækka um allt að 100 millj. kr.
Gæðabakstur velti 3.357 millj. kr. og skilaði 468 millj. kr. EBITDA á síðasta ári og starfsfólk um 150. Starfsemi félagsins er í eigin húsnæði að Lynghálsi 7 sem er 5.057 fm að stærð auk 3.000 fm byggingaréttar. Fyrirtækið hefur vaxið hratt frá stofnun 1993 og er umfangsmikið í sölu til stórmarkaða, hótela og veitingastaða, að því er fram kemur í tilkynningu.
„Við erum afar ánægð með þessi viðskipti, sem eru samkvæmt stefnu Ölgerðarinnar um vöxt félagsins og þau falla vel að kjarnastyrkleika Ölgerðarinnar í vörumerkjauppbyggingu, enda Gæðabakstur með fjölmörg afar vel þekkt vörumerki á innanlandsmarkaði.
Þá er ekki síður mikilvægt að hafa tryggt að Vilhjálmur haldi áfram störfum hjá Gæðabakstri. Í þessari viðbót við samstæðu Ölgerðarinnar felast mikil tækifæri, til að mynda í sölu, dreifingu, innkaupum og vöruþróun. Þá munu vörur Gæðabaksturs njóta góðs af öflugri vöruhúsa- og dreifingarmiðstöð Ölgerðarinnar sem rísa mun á Hólmsheiði.
Með þessari viðbót verður velta Ölgerðarinnar nálægt 50 milljörðum króna,“
segir Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar.

Gæðabakstur er leiðandi fyrirtæki í brauðgerð á Íslandi s.s. ýmsum gerðum af brauðum, rúgbrauðum, flatkökum, kökum ofl. fyrir neytendur, hótel, veitingastaði, mötuneyti, stofnanir og fyrirtæki
„Það hefur mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því að við hófum að framleiða kleinur og kleinuhringi í 69 fm. húsnæði og þessi áfangi er staðfesting á því góða starfi sem hefur verið unnið hjá Gæðabakstri.
Við höfum ávallt verið heppin með starfsfólk og auk þess fjárfest skynsamlega í fasteignum og framleiðslutækjum og búum nú vel að miklum mannauði og húsnæði að Lynghálsi með sterkan rekstrargrundvöll.
Ég hlakka til að starfa innan samstæðu Ölgerðarinnar og horfi bjartsýnn til framtíðar,“
segir Vilhjálmur Þorláksson, framkvæmdastjóri Gæðabaksturs.
Myndir: olgerdin.is / gaedabakstur.is

-
Keppni2 dagar síðan
Þessir fimm keppa til úrslita um titilinn Kokkur ársins 2025 – Grænmetiskokkur ársins fer fram á morgun
-
Keppni3 dagar síðan
Kokkur ársins og Grænmetiskokkur ársins – Spennandi helgi framundan
-
Keppni2 dagar síðan
Fréttavaktin: Forkeppni um Kokk ársins 2025
-
Markaðurinn5 dagar síðan
Lúxusbrauðterta fyrir ostunnendur – dásamlega einföld
-
Keppni20 klukkustundir síðan
Fréttavaktin: Grænmetiskokkur ársins 2025
-
Keppni2 dagar síðan
Landslið kjötiðnaðarmanna komið til Parísar – Heimsmeistaramótið framundan
-
Keppni4 dagar síðan
Reykjavík Cocktail Week: Sjö dagar af kokteilum, stemningu og viðburðum – Hátíðin fer fram 31. mars – 6. apríl
-
Markaðurinn22 klukkustundir síðan
Gefðu hlutunum nýtt líf – skoðaðu úrvalið hjá Efnisveitunni