Vertu memm

Smári Valtýr Sæbjörnsson

Ný bók á ensku um hefðbundinn íslenskan mat

Birting:

þann

Traditional Icelandic Food A Gastronomic Guide to IcelandÚt er komin bókin „Traditional Icelandic Food A Gastronomic Guide to Iceland“ eftir Guðrúnu Helgu Sigurðardóttur blaðamann og ökuleiðsögumann. Bókin fjallar um hefðbundna íslenska matargerð og er sérstaklega ætluð erlendum ferðamönnum sem hafa áhuga á að smakka íslenskan mat auk þess sem hún er náttúrulega tilvalin gjöf handa erlendum gestum.

Íslendingar hafa í gegnum tíðina borðað mat af ýmsum toga til þess að lifa af á hrjóstrugri eyju í miðju Norður-Atlanshafi. Það hefur ekki alltaf verið auðvelt. Oft var baráttan við nátturuöflin hörð og fólk þurfti að nýta sér það til matar sem fyrir hendi var. Nálægðin við hafið gerði það að verkum að þar var að finna fæðutegundir eins og fiskmeti, hvali og seli. Einnig fluttu landnámsmenn dýr sín með frá Noregi og sá stofn hefur verið mikilvægur við framleiðslu kjöts, mjólkur og mjólkurafurða. Jurtir landsins hafa nýst sem góð næring og margar hverjar notaðar til lækninga. Þetta er í grunninn það sem íslensk matargerð er byggð á og þessi bók fjallar um, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

Bókin er á ensku og skiptist í 29 kafla sem alla prýða fallegar ljósmyndir með nánari umfjöllun um ýmsa þætti. Má þar meðal annars nefna: skyr, þorrablót, jólamat, selakjöt, lambakjöt, hrossakjöt, hangikjöt, hvalkjöt, harðfisk, skötu, kæstan hákarl, slátur, svið, laufabrauð, kleinur, flatbrauð, pönnukökur, rúgbrauð, brennivín og enn sérstakari fæðutegundir eins og fýl.

Textinn er skrifaður á glettinn hátt og sögur sagðar af matnum til að setja lesandann inn í menningarlega stöðu hans og tengja hann jafnvel við staði og atburði í náttúru Íslands. Þannig gera margir sér ef til vill ekki grein fyrir því að blóðmör var talinn afbragðs ástarmeðal og segir gáfu húsfreyjurnar gjarnan bændum sínum blóðmör á kvöldin til að hressa þá við, harðfiskur kom í stað brauðs því brauðlaust gat verið langtímum saman, kleinur má rekja til miðalda og eru nokkuð sem Íslendingar eiga sameiginlegt með Dönum, Norðmönnum og Svíum, Íslendingar forðuðust hrossakjöt enda bannað á kaþólskum tíma að borða slíkt kjöt en stöndugir bændur gáfu stundum fátækum hrossakjöt og jafnvel svo mikið að fátækir bændur áttu í erfiðleikum með að geyma það. Þetta eru aðeins nokkur dæmi úr bókinni.

Guðrún Helga Sigurðardóttir er fædd í Reykjavík 1963. Eftir stúdentspróf lagði hún stund á blaðamennsku og stjórnmálafræði við Háskólann í Helsinki, Finnlandi. Hún hefur starfað við fjölmiðlun frá því á skólaárunum. Síðustu árin hefur hún starfað jöfnum höndum við blaðamennsku og leiðsögn erlendra ferðamanna. Hún starfar í dag sem blaðamaður og skrifar á sænsku, íslensku og ensku. Sem leiðsögumaður vinnur hún á ensku, sænsku og finnsku.

Í tilkynnningu segir að bókin er 104 síður að stærð og þegar komin í verslunina RAM á Laugavegi og Eymundsson á höfuðborgarsvæðinu. Bókin er í dreifingu og verður komin í allar bókaverslanir á næstunni.

Hægt er að nálgast bókina í bókaverslunum eða hjá Guðrúnu á netfangið [email protected] eða í síma 891 7074.  Verð út úr búð er 3.290 krónur.

 

Smári er matreiðslumaður að mennt, en hann hefur starfað við fagið til fjölda ára, bæði sem starfsmaður og rekstraraðili. Hægt er að hafa samband við Smára á netfangið [email protected] Skoða allar greinar höfundar hér >>

Podcast / Hlaðvarp

Auglýsingapláss

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið